Heilsa og ræktun – frumkvöðlar í Nesi

 Fyrirlestur um eplatré og nytjajurtir í garði Björns apótekara

Yfirskrift sunnudagsins 5. maí í Seltjarnarneskirkju var: ,,Heilsa og ræktun – frumkvöðlar í Nesi, Bjarni Pálsson, landlæknir og Björn Jónsson, lyfsali. Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, sagnfræðingur, flutti áhugaverðan fyrirlestur í tilefni dagsins í Norðursal kirkjunnar kl. 10 fyrir hádegi. Heiti hans var: ,,Eplatré og nytjajurtir í garði Björns Jónssonar, apótekara í Nesi við Seltjörn.” Alls komu 25 manns á fyrirlesturinn og þökkum við Jóhönnu kærlega fyrir.

Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir, flutti hugleiðingu í guðsþjónustu 5. maí. Guðsþjónustan hófst kl. 11. Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir og verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, flutti hugleiðingu í guðsþjónustunni. Sunnudagaskóli var á sama tíma í kirkjunni. Kristín Einarsdóttir, formaður stjórnar Lyfjafræðisafnsins í Nesi og Vigdís Hallgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, lásu ritningarlestra. Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur, þjónaði í athöfninni ásamt Glúmi Gylfasyni, organista. Félagar úr Kammerkór kirkjunnar sungu.

Í fordyri kirkjunnar var sýning á myndum af lækningajurtum og tækjum og áhöldum til lyfjagerðar. Kaffiveitingar voru í boði Björnsbakarís. Við þökkum kærlega fyrir rausnarskap þess góða fyrirtækis.

Lyfjafræðisafnið í Nes var opið frá kl. 13-14 í tilefni dagsins.