Kona-Forntónlistarhátíð

Seltjarnarneskirkju sunnudag 22. sept. kl. 20

thoreyleikkonaBréf Halldóru Guðbrandsdóttur á Hólum og tónlist úr fyrstu óperu eftir konu - í Seltjarnarneskirkju á sunnudagskvöld 22. sept. kl. 20.

Listvinafélag Seltjarnarneskirkju og Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk standa fyrir tónleikhússýningunni "Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur" sem sýnd verður á nýrri tónlistarhátíð "Kona-Forntónlistarhátíð" í Seltjarnarneskirkju sunnudag 22. sept. kl. 20. - Allir eru velkomnir að njóta talaðs máls og tónlistar sem þarna verður flutt og er aðgangur ókeypis.

Efniviður sýningarinnar er bréf sem sá merki kven-skörungur Halldóra Guðbrandsdóttir, bústýra á Hólum í Hjaltadal, skrifaði dönskum stjórnvöldum 29. ágúst 1625 og er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands. Halldóra átti í sögulegum átökum við mág sinn, Vestfjarðahöfðingjann Ara Magnússon í Ögri, um forráð yfir búi og eignum á Hólum, sem hún hafði annast fyrir föður sinn með ráðsmönnum hans. Það var Guðbrandur biskup Þorláksson, faðir hennar, sem gaf út fyrstu Biblíuna á íslensku árið 1584.

- Tónlist sýningarinnar er frá svipuðum tíma og einkar fögur, þ.e. úr fyrstu óperu eftir kventónskáld, óperunni "La Liberatione di Ruggiero dall isola di Alcina" frá árinu 1625 eftir ítalska tónskáldið Francesca Caccini, svo og sálmar úr "Grallaranum" messusöngbók Guðbrands Þorlákssonar biskups frá árinu 1594.

halldoragudbrandsdottirÍ aðalhlutverkum eru þær Hildigunnur Einarsdóttir altsöngkona og Þórey Sigþórsdóttir leikkona og leikstjóri sem jafnframt er höfundur handrits.

Fluttar verða í sýningunni nýjar raftónmyndir eftir Kristínu Lárusdóttir, raftónlistarkonu. Laufey Jensdóttir fiðluleikari, Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk og Sönghópurinn Kordía koma einnig fram í sýningunni. Hugmyndasmiðir og listrænir stjórnendur eru Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikari og Guðný Einarsdóttir organisti.

Markmið hátíðarinnar *Kona-Forntónlistarhátíð* er að vekja athygli á tónsmíðum kventónskálda í gegnum aldirnar en mörg þeirra hafa ekki fengið verðskuldaða athygli fyrir tónsmíðar sínar. Hátíðinni er ætlað að stuðla að því að tónlist eftir kventónskáld fyrri alda hljómi sem oftast og verði jafnframt fléttuð saman við tónlist eftir kunna meistara sígildrar tónlistar sem og íslenskan fornan tónlistararf. Einnig er hátíðinni ætlað að vekja athygli á upprunaflutningi fornrar tónlistar. Vonast er til að þessi nýstárlegi flutningur gamallar tónlistar nái til fjölbreytts hóps áheyrenda.

Hátíðin er styrkt af Tónlistarsjóði, Uppbyggingarsjóði Suðurlands og Listvinafélagi Seltjarnarneskirkju (LVS).