Fjölsótt Gróttuguðsþjónusta

Á þriðja hundrað manns sótti fyrstu Gróttuguðsþjónustuna í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 5. febrúar.

Gróttufólk mætti í búningum. Fánaborg var fyrir utan kirkjuna ásamt fána Gróttu í kirkju og borðfánum í safnaðarheimili. Haraldur Evyvinds, formaður Gróttu, flutti ávarp. Guðjón Norðfjörð, gjaldkeri aðalstjórnar Gróttu, flutti hugleiðingu og las söguna ,,Þú ert frábær,” en myndir sögunnar voru sýndar á tjaldi á sama tíma. Börn og unglingar úr Gróttu lásu ritningarlestra og bænir.

 Litlu snillingarnir undir stjórn Ingu Bjargar Stefánsdóttur sungu ásamt hópi eldri borgara sungu lag Mugison, Stingum af og Gróttulagið sem er eftir Jóhann Helgason, tónskáld og tónlistarmann, en hann var viðstaddur. Þetta var í fyrsta sinn sem Gróttulagið var leikið og sungið í kirkjunni.

Sóknarprestur og organisti þjónuðu ásamt félögum úr Kammerkór kirkjunnar. Sunnudagaskólabörnin tóku virkan þátt ásamt leiðtogunum í sunnudagaskólanum. Félagsfólk í Gróttu bauð upp á kirkjukaffið, glæsilegt hlaðborð með dýrindis kræsingum.

Við þökkum kærlega fyrir framlag allra í þessari fyrstu Gróttuguðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju.