JHM
Vinur okkar, Jón Hákon Magnússon lést 18. júlí s.l.  
Farinn er góður drengur og mikill mannvinur.

Víða til þess vott ég fann 
þótt vendist oftar hinu, 
að Guð á margan gimstein þann 
sem glóir í mannsorpinu.

Ekki tökum við undir síðari hluta þessarar vísu Bólu-Hjálmars um mannsorpið, en þessir gimsteinar sem Guð á í samfélagi okkar eru sem betur fer allmargir og líklega fleiri en Bólu-Hjálmar upplifði á sínum tíma.  Svona gimsteinn var Jón Hákon Magnússon, ávallt reiðubúinn

að vinna samfélagi sínu allt það til heilla sem honum var unnt – og það var töluvert.  

Þess vegna er samfélagið á Seltjarnarnesi, Rótarýhreyfingin, Þjóðkirkjan og svo mörg fleiri félög og hreyfingar svo miklu ríkari vegna framlags hans en ella væri.

Jón Hákon var kjörinn í sóknarnefnd Seltjarnarnessóknar árið 1999 og starfaði þar til æviloka.  Hann átti sæti í framkvæmdanefnd sóknarnefndarinnar og var varaformaður um skeið.  Hann var lykilmaður í svo mörgu sem laut að hagsmunum kirkjunnar og líklega náði enginn betri árangri í fjársöfnun til kirkjunnar en hann.  Þannig tókst okkur til dæmis undir forystu hans að safna á einu sumri 2 milljónum króna til málunar á þaki kirkjunnar, sem var u.þ.b. 97% af kostnaðinum.

Áður en hann kom í sóknarnefndina hafði hann verið bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og um skeið forseti bæjarstjórnar.  Það var því ekki síst fyrir hans starf að svo gott samstarf hefur tekist sem raun ber vitni um milli bæjarins og kirkjunnar á Seltjarnarnesi, en það samstarf er með það miklum ágætum að margir gætu tekið það sér til fyrirmyndar.

Seltjarnarnesbær er eins og sveitarþorp á höfuðborgarsvæðinu, sveitarþorp í þeim skilningi að þar er stutt á milli manna og félög, klúbbar, kirkjan o.s.frv. eru meira samtvinnuð en gerist í stærri samfélögum.  Þetta samfélag er betra en annars væri fyrir Jón Hákon.  Störf hans í kirkjunni, Rótarýhreyfingunni, bæjarstjórn og víðar hafa gert bæinn ríkari.  Það er þörf fyrir menn eins og Jón Hákon Magnússon í öllum samfélögum.

Við söknum hans og biðjum góðan Guð að mera með og styrkja Áslaugu og fjölskyldu hans alla.  Það er ekki í anda Jóns Hákonar að leggja hendur í skaut og því ljúkum við þessu fátæklegu kveðjuorðum með ljóðlínum Jónasar Hallgrímssonar:

Flýt þér, vinur! í fegra heim;
krjúptu’ að fótum friðarboðans
og fljúgðu’ á vængjum morgunroðans
meira’ að starfa guðs um geim.
 
F. h. Sóknarnefndar Seltjarnarnessóknar
Guðmundur Einarsson