Sunnudagaskólinn 26. apríl

Velkomin í sunnudagaskólann

mynd32
Gleilegt Sumar. Þetta er síðasti sunnudagaskólinn hjá okkur  í bili og viljum við þakka fyrir samveruna í vetur. Næsta haust verðum við svo aftur saman, það verður gaman! Í dag hittum við Mýslu þar sem hún er að hjálpa Rebba að finna góðan jarðveg fyrir fræin sem afi gaf Rebba til að rækta blóm. Saga dagsins heitir Sáðmaðurinnn og getið þið heyrt hana hér eða lesið hana hér fyrir neðan. Hér er svo mynd dagsins, þið getið prentað hana út og  litað. Síðan mælum við með að þið horfið á frábæran Sunnudagaskóla sem Biskupsstofa bíður uppá.

Hér fyrir neðan er saga dagsins sem heitir Sáðmaðurinn

Kærleiksbókin mín

Samvera 32

Sáðmaðurinn sem fór út að sá

Vitið þið hvað sáðmaður er? Sáðmaður er sá sem sáir fræjum í jörðina. Fræin verða síðan að blómum, grasi, trjám eða grænmeti. Það er mjög mikilvægt að hafa sem flesta sáðmenn til að rækta jörðina, því þá förum við vel með hana. En hvað getum við gert, þú og ég, til að gera jörðina okkar hreinni og fallegri? Við megum til dæmis ekki henda rusli og drasli á jörðina. Við megum ekki eyðileggja hreina vatnið okkar eða hreina loftið. Við verðum að stöðva alla mengun, öll sem eitt.

Einu sinni sagði Jesús vinum sínum dæmisögu. Hún er svona: Sáðmaður fór út að sá fræjum og dreifði þeim á jörðina. Fræin sem féllu í grýttu jörðina uxu of fljótt upp úr jörðinni af því þar var lítil mold, því visnaði gróðurinn og dó. Sum fræin féllu þar sem voru þyrnar, svona eins og eru á rósum. Þau visnuðu og dóu vegna þess að þyrnarnir lögðust yfir þau. En sum fræin féllu í góða mold og þar óx gróður sem margfaldaðist og breiddist út um allt!

Jesús var að kenna vinum sínum að hlusta eftir þeim mikilvæga boðskap sem hann, Jesús, kom með inn í heiminn. Sáðmaðurinn er eins og Jesús sem er að segja merkilega hluti.

Boðskapurinn er eins og fræin sem sáðmaðurinn dreifir á jörðina, en Jesús dreifir orðum til mannanna. Orð Jesú er því eins og fræ og við mennirnir erum eins og jörðin.

Sumar manneskjur eru eins og góða og mjúka moldin. Þær heyra orðin frá Guði og segja öðrum frá með gleði og áhuga þannig að margir aðrir fá að heyra af kærleika Guðs. Þannig margfaldast fjöldi sem vill vera í liði með Guði. Orð Guðs kennir okkur að fara vel með jörðina og bera virðingu fyrir öllu sem lifir. Það kennir okkur líka að þakka fyrir allt sem jörðin gefur okkur.