Tónleikar 5. október

haust2016 Kammerkor

Hinn metnaðarfulli og áheyrilegi Kammerkór Seltjarnarneskirkju stendur fyrir næsta viðburði á fjölþættri Listahátíð Seltjarnarneskirkju 2016 sem haldin er undir yfirskriftinni "Fjöll og trú." Kórinn heldur tónleika í kirkjunni á miðvikudagskvöld kl. 20. Kórstjóri er að venju Friðrik Vignir Stefánsson, sem verið hefur tónlistarstjóri og organisti við Seltjarnarneskirkju síðan 2007. Á efnisskránni verða gömul sálmalög við texta Hallgríms Péturssonar í útsetningum Smára Ólafssonar og Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Einnig sálmar við lög Báru Grímsdóttur, Huga Guðmundssonar og Þorkels Sigurbjörnssonar. Þá flytur kórinn kirkjulegar mótettur og kórtónlist frá ýmsum tímabilum. Loks mun kórinn syngja fjögur trúarleg verk eftir rússnesk tónskáld. Einsöngvarar koma úr röðum kórfélaga enda eiga margir þeirra að baki langt nám í klassískum einsöng. Undirleikari verður Renata Ivan. Aðgangur ókeypis.