5. október

Birt í Orð til umhugsunar

Endur fyrir löngu boðaði konungurinn til samkeppni í landi sínu. Sá listamaður sem gæti málað mynd sem lýsti sönnum friði, skyldi fá ríkuleg verðlaun.
Á komandi mánuðum barst mikill fjöldi mynda. Efir langa yfirlegu stóð valið loks á milli tveggja mynda. Fyrri myndin var undursamlega fögur mynd af fjallavatni. Fjallatindarnir snæviþaktir gnæfðu við heiðbláan himininn. Fjöllin og trén spegluðust í lygnum fleti vatnsins. Konungurinn var afar hrifinn af þessari mynd, en samt ekki viss hvort hún verðskuldaði verðlaunin. Hin myndin var gjörólík þeirri fyrri. Hún sýndi dynjandi foss í þröngu, dimmu gili. Gráar skýjahrannir á himni boðuðu storm í aðsigi. Í miðju fossins var klettasylla. Væri vel gáð mátti sjá lítinn fugl í hreiðri. Fuglinn lá þar öruggur, mitt í öllu því sem á gekk umhverfis hann.
,,Þessi mynd er sigurvegarinn,” sagði konungurinn loks, ,,því sannur friður er ekki að það sé logn og stilla. Sannur friður er að finna skjólið mitt í storminum.” (Argument)

(Heimild: Orð í gleði)