Prédikun frá 17.11.2019 eftir Sigurð Má Hannesson, guðfræðinema

Prédikun, Seltjarnarneskirkja, 17. nóvember 2019

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Íslandsminni

Þið þekkið fold með blíðri brá
og bláum tindi fjalla
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla –
drjúpi’ hana blessun Drottins á
um daga heimsins alla.

Jónas Hallgrímsson 1839

Þetta fallega ættjarðarljóð, Íslands minni, orti skáldið Jónas Hallgrímsson árið 1839. Ljóðið er eins konar óður til íslenskrar náttúru, sem skáldið felur svo Drottni að varðveita og blessa. En það er ekki að tilefnislausu að ég fletti upp þessu ágæta ljóði, því í gær, 16. nóvember, voru liðin 212 ár frá fæðingardegi Jónasar, en ár hvert höldum við Íslendingar fæðingardag hans hátíðlegan sem „Dag íslenskrar tungu“. Fæðingardagur Jónasar var að því tilefni valinn vegna þeirra ómældu áhrifa sem verk hans hafa haft á íslenskuna; en Jónas hafði ekki aðeins afbragðsgóð tök á íslenskri tungu, heldur setti hann mark sitt á hana með fjölmörgum nýyrðum, sem í dag virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins. Orð eins og dýrategund, sporbaugur, mörgæs, frelsishetja og bringusund, eru öll nýyrði úr orðasmiðju Jónasar. Að ógleymdu því ágæta orði framsókn, sem gleður ef til vill suma meir en aðra í áheyrn.

            Við íslendingar eigum, að ég tel, gríðarlegan fjársjóð í okkar sérstæða tungumáli, tungumáli sem er í raun beintengt okkar sögu; er okkar tenging við fyrri kynslóðir og er stór þáttur í því að svo lítil þjóð geti álitið sig sjálfstæða og sameinaða. En eitt af því sem haft hefur hvað mest áhrif á varðveislu íslenskunnar í gegnum tíðina er einmitt Biblían okkar.

            Þýðing Biblíunnar á íslensku var, eins og við öll þekkjum, gríðarstór viðburður í sögu íslenskrar þjóðar, og því hefur meira að segja verið haldið fram að hefðu Íslendingar ekki eignast biblíuþýðingu eins snemma og raun ber vitni, hefðu þeir að öllum líkindum tekið upp danska tungu og glatað sinni að mestu eða öllu leyti. Það þykir í raun undravert að þessi litla þjóð, langt úti á Atlantshafi, hafi verið meðal fyrstu þjóða til að þýða ritninguna yfir á sitt eigið tungumál, en aðeins rétt rúmlega tveimur áratugum eftir upphaf siðbótarhreyfingarinnar, árið 1517, hafði Oddur Gottskálksson lokið við að þýða Nýja Testamentið í Skálholti, og árið 1584 urðum við Íslendingar svo 20. þjóðin til að gefa út heildarþýðingu Biblíunnar á móðurmáli sínu, með útgáfu Guðbrandsbiblíunnar. Margir hafa einnig bent á að það þykir stórfurðulegt að Íslendingar hafi yfir höfuð fengið blessun konungs til að leggjast í svo róttækt og kostnaðarsamt verk sem þetta. Útkoman varð engu að síður sú að danskt kirkjumál varð aldrei að veruleika á Íslandi, vegna þeirrar ríku bókmennta- og biblíuhefðar sem Íslendingar bjuggu að allar götur síðan. En til samanburðar fengu okkar frændur Færeyingar ekki sína fyrstu færeysku biblíuþýðingu prentaða fyrr en árið 1961. Það ítrekar það aldeilis hversu snemma við fengum Guðs orð á okkar eigin tungu. En frá útgáfu Guðbrandsbiblíunnar hafa svo komið út 11 íslenskar biblíuþýðingar, nú síðast árið 2007, eins og flestir þekkja, og allar hafa þær markað stór tímamót í sögu íslensku tungunnar.

            Þegar við skoðum Guðspjall dagsins út frá okkar elstu biblíuþýðingu, sést vel að allt frá upphafi hefur ríkt óslitin hefð í íslensku biblíumáli. Byrjun kaflans hljóðar svo í þýðingu Odds frá 1540: „Á þeim sama tíma andsvaraði Jesús og sagði: „Eg prísa þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú duldir þetta fyrir spekingum og forvitringum og opinberaðir það smælingjum.“ Hér heyrum við Jesú lofsyngja föðurinn fyrir að hafa opinberað orð sitt lítilmagnanum, en ekki þeim sem skipa æðstu sæti samfélagsins; þeim sem jaðarsettir eru, en ekki þeim sem upphafðir eru. En við þekkjum það auðvitað vel, að þau sem skipuðu innsta hring fylgjenda Krists voru fyrst og fremst einstaklingar sem ekki komu úr yfirstéttum lærðra manna eða valdhafa, og er það jú einmitt það sem gerir boðskap Krists svo kraftmikinn. Oddur notar hér orðið „smælingjar“ yfir þennan hóp lítilmagna, og það hugtak er enn notað í okkar nýjustu biblíuþýðingu. Það er í raun stórmerkilegt að þýðing Odds hefur staðist tímans tönn og að ótrúlega margt í orðfæri nýrri þýðinga er fengið beint frá Oddi. Og það eitt að við getum verið hér, næstum hálfu árþúsundi síðar, lesið verkið og skilið það vel; það er í raun með ólíkindum. Já, við Íslendingar eigum sannarlega mikinn fjársjóð í okkar ríku bókmennta- og biblíuhefð.

            Síðastliðinn sunnudag var á dagskrá Ríkissjónvarpsins þátturinn „Fyrir alla muni“, en í þættinum var skyggnst í sögu Íslands á hernámsárunum, og fjallað var um Werner Gerlach, þáverandi ræðismann Þjóðverja á Íslandi. Það var áhugavert að heyra þar lýsingar Gerlachs á Íslendingum, sem í dag eru orðar margfrægar. Þar fer hann heldur ófögrum orðum um þjóðina, og koma þar í ljós vonbrigði nasista yfir þjóð sem þeir héldu í mýtum sínum að væri einhverskonar paradís aríans. En í stað þess finna þeir fátækt land, þjakað af kreppu. Og Gerlach lýsir Íslendingum sem menningarsnauðum og sem letingjum, sem ekki séu velviljaðir „germanskri“ menningu. Til að bæta gráu ofan á svart lýsir Gerlach því þegar íslenskur stúdent er spurður hvort hann myndi giftast konu af gyðingaættum, og stúdentinn svarar: „Ja, því ekki það?“ Ef til vill hefur það verið ræðismanninum ofarlega í huga hve miklir „smælingar“ við íslendingar værum.

            Og það kann vel að vera að við Íslendingar höfum verið álitnir „smælingjar“, hér á árum áður eða jafnvel enn þann dag í dag; að við séum lítilmagninn í þessum stóra heimi, og að saga okkar sé ekki saga landvinnandi nýlenduþjóða. En líkt og Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, benti á í sjónvarpsviðtali í Kiljunni hér um árið; ‚þá eigum við Íslendingar enga kastala, og enga sigurboga, til að gorta okkur af, -og við eigum engin borgarvirki sem staðið hafa í aldanna raðir. En bókmenntirnar eigum við og ekki síst okkar biblíuþýðingar. Það eru okkar kastalar og okkar sigurbogar.

 

Dýrð sé Guði sem opinberað hefur orð sitt smælingjanum, og dýrð sé Guði, sem hefur leyft okkur Íslendingum að hlýða á hans heilaga orð, á okkar eigin íslensku tungu, í alda raðir.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

 

Sigurður Már Hannesson

Sigurð Má Hannesson, guðfræðinema