Prédikun frá 16.02.2020 eftir Sr. Sighvat Karlsson

Sr Sighvatur Karlsson
Prédikun á Biblíudaginn
2 sunnudag í níuviknaföstu 2020
Selttjarnarneskirkja
Í tilefni af opnun málverkasýningar.
Jes. 55. 6-11, 2 Tim, 3. 14-17
Lúk   8. 4-15.

Á Biblíudeginum göngum við til fundar við Guð í þessum fallega helgidómi til að íhuga fagnaðarerindi hans  Kirkjuganga sunnudagsins er blessunarríkur grundvöllur  hinna virku daga sem í hönd fara. Við heyrum nærandi gleðitíðindi  og öðlumst  kraft og kjark til þess að missa ekki móðinn og glata ekki voninni í erfiðum aðstæðum líkt og sáðmaðurinn.

Þegar ég sé málverk af sáðmanninum sem gengur um akur sinn og sáir frækornum með taktföstum hætti þá geri ég mér grein fyrir því að hann veit að sérhvert sáðkorn hefur í sér fólgið erfðaefni lífsins, kjarna upplýsingar um lífskraftinn. 

Við skulum nú horfa á þetta fallega málverk í sameiningu um stund í huganum.  Það er heiður himinn og sólin skín. Fuglar skýla sér í laufskrúði trjánna og syngja skapara sínum lof og dýrð. Sáðmaðurinn er brosmildur. Hann ber með sér að hann er örlátur. Hann brettir upp ermar köflóttrar vinnuskyrtu sinnar í sumarbreiskjunni,   hann er í brúnum hnésíðum buxum, nokkuð slitnum í hnésbótinni. Hann gengur rösklega um akur sinn og sáldrar  frækornunum yfir mörkina frá morgni til kvölds.  Löngu eftir að hann er farinn sína leið liggur kornið eftir á jörðinni. Tíminn líður, litlir og stórir fætur arka eftir götunni og áfram er kornið kyrrt á sínum stað – vindur feykir því til og frá. Allir ganga  erinda sinna – hver með hugann við sitt, frækornið liggur þarna eftir sem áður og er varnarlaust fyrir því hvernig umhverfið tekur því. Fæturnir kremja hluta þess og þarna kemur hópur af fuglum sem að hreinsar upp annan hlutann. Það sem ekki kemst í tæri við gróðurmoldina glatar vökvanum sem af himnum kemur og svo þegar skýin hverfa og sólin ein skín þá skreppur það saman og verður lífvana eins og sandkorn.

Sagan heldur áfram og við drögum myndina nær. Nú sjáum við hvernig svolítil breyting verður á því sem lenti á mjúkri moldinni. Eftir að vætan hefur náð að vekja það af blundi og sólin skinið á það þá á sér stað atburðarrás sem vekur gleði hjá þeim sem fást við gróður jarðar – já þetta sem gerir lífið mögulegt hér á jörðinni. Það er kraftaverkið stóra þar sem erfðaefnið tekur við sér, frumurnar skipta sér en hver þeirra geymir í kjarna sínum upplýsingar sem láta þær starfa eins og eftir úthugsuðum skipunum. Sáðkornið þrútnar út af vökvanum og spírur koma úr endum þess. Já, þetta er sannkallað kraftaverk sem við leiðum hugann alltof sjaldan að. Sumar frumurnar eru umluktar lofti og sól og þær mynda stöngul en aðrar teygja sig í hina áttina, niður í frjósama jörðina þar sem þær verða að rótum og í sameiningu stuðla þær að vexti og viðgangi. Komist þær í tæri við aðra lífveru sömu gerðar leiðir það af sér enn eitt undrið. Útkoman verður slík að reglur samlagningarinnar fara lönd og leið. Einn og einn verður ekki tveir, ekki þrír eða fjórir. Nei tvær lífverur geta af sér gríðarlegt magn afkvæma og þegar horft er til næstu kynslóða verður fjöldinn slíkur að tölu verður ekki á hann komið.

Biblían, hvað segir þetta okkur um hana? Í raun er þessi samlíking Krists svo einstaklega raunsönn og lýsandi fyrir það hvernig viðtökur hin helga bók hefur fengið hjá þeim sem hefur fengið tækifæri til þess að kynna sér hana. Frækorn sem fellur til jarðar í þeim tilgangi að vaxa og bera ávöxt er svo merkilega líkt dýrmætu riti sem gengur manna á milli. Það vissu þeir ekki, hinir fyrstu áheyrendur þessarar sögu að í korninu býr þetta ótrúlega flókna kerfi upplýsinga svo að það þyrfti langan doðrant til þess að skrásetja þær allar niður. Svo hversdagslegt sem það er – og við finnum þau svo víða í kringum okkur – á trjánum í görðunum okkar, á biðukollunni, í trefjakorninu sem ég set út á laktósa fría AB mjólkina  á morgnana. Nú vitið þið hvað ég fæ mér í morgunmat flesta morgna 

Þetta er samanþjappað magn upplýsinga sem liggur í dvala og bíður eftir því að geta fjölfaldað sig.

Biblían er í margra augum fjarlægt rit og margir hafa hana uppi í hillu án þess að taka hana niður, opna hana og kynna sér erfða upplýsingarnar sem í henni liggja. Samt býr svo mikið í henni, já saga okkar væri svo gerólík ef þessi bók hefði ekki verið rituð. Engin leið er að gera sér í hugarlund Ísland án Biblíunnar. Tunga okkar væri ekki söm, því ritöldin hófst í klaustrunum og útgáfa Guðbrands biskups á Biblíunni markaði meiri þáttarskil fyrir tungu þessarar þjóðar en heilu háskólarnir hefðu getað gert. 

Siðavitund okkar og löggjöf væri að sama skapi frábrugðin. Tónlistin, myndlistin og annað það sem maðurinn stundar til þess að túlka veruleikann og færa hann upp á æðra plan. Hvar væri þetta statt ef ekki væri fyrir hið auðuga myndmál Biblíunnar? Enn í dag lesum við bækur, horfum á kvikmyndir, hlýðum á tónverk og dáumst að listaverkum sem með beinum og óbeinum hætti byggja á sögum þessarar bókar. Ef við eigum erfitt með að lesa biblíuna af einhverjum ástæðum þá getum við hlustað á hana. Nú er búið að hljóðrita  Nýja testamentið en það hefur að geyma 27 rit.

Ég er hrifinn af auðugu myndmáli Biblíunnar. Ég hef stundað listmálun í frístundum um all langt skeið og tel mig hafa sæmilegt vit á myndmáli biblíunnar sem guðfræðingur. Síðast liðið ákvað ég að mála 10 málverk út frá völdum versum úr Davíðssálmum. Tékkneska tónskáldið Antonin Leopold Dvorsak samdi 10 einsöngsverk út frá þessum versum á þremur vikum 1894. Á haustmánuðum 2019  byrjaði ég að hlusta á tónlistina á spotify og you tube svo ég bregði fyrir mig enskri tungu, og íhugaði boðskap versanna í Davíðssálmum og byrjaði að mála fyrsta málverkið númer 1  í haust  í Myndlistarskóla Kópavogs.

Ég sá fyrir mér auga Guðs og byrjaði að mála hringformið.  Sínaífjall sótti á huga minn en Guð gaf Móse boðorðin 10 á fjallinu.  Þá málaði ég Sínaífjall inn í augað eins og ég sá það fyrir mér.  Í gamla testamentinu er oft talað um að Guð búi á fjallinu.  Það veit enginn hvernig hann lítur út en eldur fór stundum fyrir honum  og túlka ég það með sterkum litbrigðum í forgrunni fyrsta málverksins. . Ég ákvað í næstu verkum að nota hringformið vegna þess að hringformið minnir á Guð sem  er eilífur.  Stefið um Guð sem býr á fjallinu bregður fyrir í fleiri málverkum  Mig grunar að Kinna og Víknafjöllin við Skjálfanda í nánd við Húsavík skíni svolítið í gegn í flestum málverkunum en þar bjuggum við fjölskyldan í rúma þrjá áratugi. Kinna og Víknafjöllin eru einstaklega fallega mótuð. Þar búa örugglega einhverjar góðar vættir í dag. 

Goethe tjáði sig eitt sinn um skynræna og móralska virkni lita.  Gulrauði liturinn sem ber við augu í fyrsta málverkinu á þessari sýningu er að mati hans ofsafullur og átakanlegur.  Hin þægilega og káta tilfinning sem rauðgulur litur gefur okkur magnast yfir í hið óbærilega ofsafengna í gulrauða litnum.  Virknin er kraftmikil. Ef maður starir í fullkominn gulrauðan flöt getur það hent mann að liturinn borar sig inn í augað. Hann framkallar ótrúlegan hugarhrelling, segir Goethe.  

Kæru Kristsvinir. Ég vona að fyrsta málverkið komi ekki til með að framkalla slíkan hugarhrelling hjá áhorfandandum að hann komi ekki til með að ná sér aftur á strik.

Þegar ég var búinn að mála málverk nr 2 þá spurði ég lítið barn í Myndlistarskólanum hvað ég væri búinn að mála.  Barnið virti málverkið fyrir sér og sagði svo hátt og skýrt.  ,,Þetta er sveppur..“  Börnin sjá það sem blasir við þeim. Við fullorðna fólkið höfum tilhneigingu til að flækja hlutina of mikið. 

Málverkasýningin ber nafnið ,,Í skuggsjá.“   Nafnið er komið frá Páli postula sem sagði:  ,,Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í óljósri mynd, en þá augliti til auglitis.“  Þegar við virðum sköpunarverk Guðs fyrir okkur þá sjáum við aðeins það sem blasir við augum. Við sjáum t.d. sáðkornið í lófa okkar. Að sönnu hvílir það í lófa okkar í sinni mynd. En við sjáum ekki þær erfða upplýsingar sem það ber innra með sér. Við vitum af reynslunni að ef það fellur í góðan jarðveg muni það sprengja skelina af sér og rótfesta sig og bera síðan með tíð og tíma góðan ávöxt sem við komum til með að njóta.

 Í verkum mínum ber ýmislegt fyrir sjónir áhorfandans í óljósri mynd.  Þó að ég haldi því að ykkur að hringurinn tákni Guð þá minnir hann líka á augað.  Þetta er e.t.v auga Guðs sem virðir fyrir sér fallega sköpun sína. Þetta auga getur líka verið auga þitt, auga áhorfandans sem virðir málverkið fyrir sér sem blasir við honum í óljósri mynd og vekur með honum góðar hugsanir og kenndir. 

Ég ætla ekki að fjalla um fleiri verk því að betur sjá augu en auga. Ég vona þó að þessi málverk hafi í sér fólgin heilnæman boðskap um Guð sem er nálægur okkur á gleði og sorgarstundum. 

Erfiðar, persónulegar tilfinningar knúðu tékkneska tónskáldið Antonin Leopold Dvorsak til þess að leita athvarfs frá dagsins iðu til djúprar íhugunar á Davíðssálmunum eftir að hann hafði fengið fregnir af andláti samferðamanna á tónlistarsviðinu og síðan dauðastríði föður síns Þar leitaði  þetta heittrúaða tónskáld huggunar og styrks í trú sinni. Hann íhugaði nokkur vel valin vers úr Davíðssálmunum og samdi við þau sína fallega tónlist (sem við fáum að njóta hér á eftir. )

Við íslendingar höfum einnig leitað styrks og huggunar í Davíðssálmum á erfiðum tímum.  Þar er 23 einna þekktastur sem byrjar á þessum orðum: ,,Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Orð Guðs er sáðkornið. Það kann að virka lítið og máttlaust í öllum þeim orðaflaumi sem við heyrum daglega á samskiptamiðlum. En í orði Guðs er fólgið erfðaefni lífskraftsins. Í dag höfum við kortlagningu á öllu genakerfi mannsins.  Þar er að finna forritið að þessu undri.. Við sjáum, hvernig fræið er upp byggt og þá möguleika, sem að það býður uppá, og þeir eru í sannleika sagt undri líkastir. 

Við erum hvert og eitt ásamt undrinu sem blasir við sjónum okkar, hluti af málverki, sem við getum nefnt ,,Lífið.”  Málarinn er hinn hæsti höfuðsmiður. Við vitum í raun samsetningu málningarinnar  sem að málarinn notaði við gerð myndar sinnar, ef að við færum þessa mynd í yfirfærða merkingu. Eftir stendur málverkið, en málarinn er farinn og þó ekki. Hann er í eilífum tengslum við sköpunarverk sitt. En málverkið lifir á vissan hátt sínu eigin lífi.

Hinn stóri meistari vakir yfir og sér um vöxtinn áfram, því á vissan hátt er gerð þessarar myndar ekki lokið. Hann sér um að blanda litina. Hann skapar myndina. Hann mætir okkur í kirkjunni og gefur okkur góðar gjafir.  Hann talar til okkar í heilögum anda, í hvert skipti sem að við lesum í Biblíunni. Þar mætir hann mér og þér í orði sínu, í fjöruborðinu, á mærum lífs og dauða, í eilífðinni, í hringnum. 

Þá kemur sólin upp í lífi okkar eins og Hannes Pétursson tjáir svo falega í ljóði sínu:

,,Með hik mitt og efa, hálfvolgu skoðun

hugsjónaslitur, óljósu boðun

kem ég til þín, að lágu leiði.

Hér lyftist önd þín í vonbjart heiði.”

Sr Sighvatur Karlsson er settur héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra