Hugvekja frá 20.02.2022 eftir Svönu Helen Björnsdóttur

Hugvekja Svönu Helenar Björnsdóttur í Seltjarnarneskirkju á Konudag, 2. sunnudag í níuvikna föstu, 20. febrúar 2022

Gleðilegan Konudag.

Á þessum degi minnumst við þess að samkvæmt gömlu íslensku tímatali hefst Góan. Þorrinn og Góan voru erfiðustu mánuðirnir í lífi fólks hér áður fyrr, því þá var farið að ganga á matarbirgðir. Skyldi fólki takast að láta matarbirgðir duga til vors – myndi það þola hungur? Ísland er og hefur alltaf verið harðbýlt land en iðnbylting og tæknin, með bæði hitaveitu og rafmagni, hefur gert Ísland að góðum búsetustað.

--

Staða kvenna á Íslandi telst nokkuð góð miðað við mörg önnur ríki. Konum á Íslandi eru tryggð lagaleg réttindi til jafns við karla. Þó hallar enn á konur hvað varðar launamál og kynbundið ofbeldi gegn konum þrífst enn. „Mee-Too“ byltingin hefur varpað ljósi á margs konar órétt og áföll sem konur hafa orðið fyrir um langt skeið – og sennilega um aldir – en samfélagið hefur hunsað og látið viðgangast. En nú viljum við öll breyta því.

Réttindabarátta kvenna hér á landi hefur í raun verið mannréttinda- og jafnréttisbarátta sem ýmsir minnihlutahópar fólks hafa notið góðs af – enda hafa þeir hópar tekið virkan þátt í mannréttindabaráttunni.

Íslendingar hafa verið framarlega í kvenfrelsisbaráttu í alþjóðlegu tilliti. Til marks um það var Ísland eitt af fyrstu löndunum til þess að veita konum kosningarétt til Alþingis árið 1915. Þegar Vigdís Finnbogadóttur var kjörin forseti Íslands árið 1980 var það í fyrsta sinn sem kona var kosin þjóðhöfðingi. Framboð Kvennalistans til Alþingiskosninganna árið 1983 hafði einnig mikil áhrif til góðs á réttindabaráttu kvenna.

Það er annars merkilegt hve lítið hefur verið ritað um þátt kvenna í veraldarsögu liðinna alda. Í Biblíunni er mun minna fjallað um konur en karla og lærisveinar Jesú sem nefndir eru í NT eru næstum allir karlar. María Magdalena og Marta systir hennar ásamt Maríu móður Jesú eru þó meðal þeirra kvenna sem NT fjallar um.

Í Íslandssögunni, sem öll virðist rituð af körlum, er aðallega fjallað um hetjudáðir karla, erjur þeirra, stríð, uppgjör og kvonfang. Konurnar fylgja með en eru þó oftast aukapersónur.

--

Þegar ég var í grunnskóla, sem þá hét barnaskóli, lærðum við um íslenskan skáldskap í Skólaljóðum. Flest ljóðanna voru eftir karla (132), aðeins fá voru eftir konur (30). Tíðarandinn var slíkur að skáldskapur kvenna, bæði sögur og ljóð, þótti einfaldlega ekki eins merkilegur og skáldskapur karla.

Eftir að ég komst til vits og ára hef ég undrast þetta mjög og oftsinnis leitað skýringa á þessu. Eina skýringin sem ég hef fundið er hreinlega sú að karlmenn hafa lengst af stýrt útgáfu, fjármunum og margvíslegum ákvörðunum í samfélaginu og þeir líta helst til kynbræðra sinna um ráð og stuðning.

Alla vega getur skýringin ekki verið sú að konur hafi ekki verið virkir þátttakendur í samfélagi okkar hér á Íslandi. Við vitum nefnilega öll hvaða ótrúlega mikilvæga hlutverki konur gegna út um allt í samfélaginu - og hafa alltaf gert frá landnámi hér á landi.

Atvinnuþátttaka kvenna er mjög mikil hér á landi - og í raun alveg til jafns við karla. Vegna barneigna víkja konur tímabundið út af vettvangi atvinnulífsins og vinna þá eins og þjarkar á heimilum sínum við margvísleg heimilis- uppeldisstörf sem eru svo mikilvæg. Flestar fara þær umsvifalaust aftur út á vinnumarkaðinn eftir að barneignarleyfi lýkur og flestar láta sig ekki muna um að bera áfram ábyrgð á heimili og börnum. Síðan bæta þær mjög oft við sig að sinna foreldrum og tengdaforeldrum þegar aldur færist yfir þá. Þess ber þó að geta að karlmenn hafa í vaxandi mæli axlað ábyrgð á þessum verkefnum og vinna að þeim til jafns við maka sína. Þeir sem það gera öðlast mikilvægan skilning á samvinnu innan heimilis og ég er viss um að jöfn þátttaka hjóna í verkefnum innan heimilis stuðlar að hamingju allra fjölskyldumeðlima, einnig barna.

En - hvaða kona kannast ekki við að hafa séð um kaup á afmælis- og jólagjöfum fyrir alla fjölskylduna, einnig fjölskyldu eiginmannsins, pakkað inn og skrifað á kort. – Já, það er eins og umhyggja og elskusami margra kvenna eigi sér engin takmörk. En að meta umhyggju og umönnun til peninga og launa er annað mál. Þar virðist samfélagið setja mörk sem erfitt er að hreyfa.

Í mínum störfum, við rekstur nýsköpunarfyrirtækis á sviði verkfræði og upplýsingatæknilausna, er fátt um konur. Þó fjölgar þeim. Nýlega kom fram í fréttum að mjög lágt hlutfall verkefnastyrkja og fjármögnunar rennur til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja í eigu kvenna. Þetta er ekki nýtt því svona hefur þetta alltaf verið. Það er nefnilega þannig að flestar peningalegar ákvarðanir eru enn teknar af körlum. Karlar fara enn fyrir fjármagni, jafnvel þótt fjármunir séu í raun eign eiginkvenna þeirra. Þessu þarf að breyta.

--

En af hverju skyldi staða kvenna á Íslandi og Norðurlöndunum vera svona miklu betri en víða annars staðar í heiminum?

Jú, á því er augljós skýring að mínu mati. Hún er sú að siðbót Lúthers 1517, sem teygði sig fljótt til Norðurlandanna, hafði í för með sér víðtæk mannréttindi. Biblían var þýdd yfir á tungumál fólksins og það gátu allir lesið sannleikann um að Guð elskar alla menn jafnt og hægt er að vera í milliliðalausu sambandi við Guð í gegnum bæn. Lúther hratt ekki aðeins af stað menntabyltingu, hann setti af stað kvenfrelsishreyfingu og kvæntist sjálfur fyrrum nunnu, Katarinu von Bora. Hún varð nokkurs konar framkvæmdastjóri á mjög stóru heimili þeirra Lúthershjóna.

Að mínu mati eru kristin gildi grunnur að lýðræði því sem ríkir hér og víðar á Vesturlöndum. Það er þó áberandi að á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu fara saman virkt lýðræði, jöfnuður, mannréttindi og velferð fólks. Það er engin tilviljun að flóttafólk víða um heim á sér þá ósk heitasta að mega flytjast til þessara landa með fjölskyldur sínar.

--

Seltjarnarnes er dásamlegur staður að búa á. Fyrir okkur sem hér búum hefur náttúran með hafinu allt um lykjandi, strandlengjunni, fuglalífinu og sýn til allra átta sérstakt gildi. Frá náttúrunnar hendi er Seltjarnarnes einstakur staður.

Mannlífið hér á Nesinu er gott og ég vil m.a. þakka það virkri þátttöku bæjarbúa í samfélags- og bæjarmálum. Ég hef margoft upplifað að fólk hér á Nesinu stendur þétt saman ef eitthvað bjátar á. Það stendur saman um velferð æskunnar, umhverfismál og margs konar velferðarmál.

Hér tel ég að kristilegt hugarfar skipti máli. Náungakærleikur og samhugur sem sprettur úr boðskap Biblíunnar hefur mikið að segja. Ég tel nauðsynlegt að við stöndum vörð um kristin gildi í samfélagi okkar. Það er mikilvægt að samvinna þeirra sem starfa á vettvangi kirkjunnar og bæjaryfirvalda sé góð og náin. Einnig er mikilvægt að öll félög sem starfa með börnum og æskulýð bæjarins vinni saman að heill og hamingju barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra.

--

Ég er þakklát fyrir það hvernig kirkjan og allir íbúar sem starfa innan hennar í sjálfboðastörfum þjóna nærsamfélaginu hér á Nesinu. Við köllum kirkjuna okkar oft „okkar annað heimili“ – og það ekki að ástæðulausu. Hingað kemur fólk alla daga vikunnar til að hittast og eiga samfélag. Má þar nefna karlana sem koma saman í karlakaffið, en það nýtur mikilla vinsælda. Svo eru það þriðjudagsstundir eldra fólks sem hittist vikulega í kirkjunni til að hlusta á fræðsluerindi, spjalla og drekka saman kaffi. Bænastundir, æskulýðsstarf, mömmumorgnar, sunnudagasskóli og þeir hópar aðrir sem hér hittast í næði til að eiga samfélag.

Leikskóladeildin á jarðhæð kirkjunnar sér til þess að hér er líf og fjör alla virka daga. Það er ekki að ástæðulausu að Seltirningar kalla kirkjuna sitt annað heimili. Hér eru allir velkomnir og hér er tekið vel á móti öllum.

--

Kvenfélagið Seltjörn er eitt þeirra félaga sem starfa hér á Seltjarnarnesi og hafa auðgað samfélag Seltirninga. Félagið er stofnað 4. apríl 1968 og verður því 54 ára eftir rúman mánuð. Kvenfélagið Seltjörn hefur stutt starf Seltjarnarneskirkju með ráðum og dáð. Kvenfélagskonur gáfu Seltjarnarneskirkju 250 stóla þegar kirkjan var vígð árið 1989. Þær gáfu einnig eina af þremur kirkjuklukkum, glerlistaverk Ingunnar Benediktsdóttur í fordyri kirkjunnar árið 2006, fermingarkirtlana og ýmsan búnað í eldhúsið, m.a. uppþvottavélina, nokkrar pípur í orgelið og flygilinn ásamt fleiri félögum á Nesinu.

Kvenfélagskonur hafa einnig á ýmsan annan hátt lagt gott til samfélagsins á Seltjarnarnesi, m.a. í gegnum hjálparsjóð sinn. Nú síðast gáfu kvenfélagskonur axlapúða inn á allar deildir hjúkrunarheimilisins Seltjarnar.

Ég þakka innilega fyrir hið trausta og góða samband sem er milli kvenfélagsins Seltjarnar og Seltjarnarneskirkju.

--

Í tilefni konudagsins ætla ég að vitna í Vilborgu Dagbjartsdóttur, skáld og kennara, sem við mörg þekktum og kom hingað í Seltjarnarneskirkju til að flytja ljóð sín og tala við okkur um lífið.

Í ljóðabók sinni „Klukkan í turninum“, sem út kom árið 1992, yrkir Vilborg biblíuljóð sem nefnist „Á sjöunda degi“, og er sprottið úr daglegu starfi kennarans, nánar til tekið kennslu í kristnum fræðum. Í ljóðinu endursegir kennarinn „sköpunarsöguna“, þ.e. fyrri sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar. Vilborg beitir næmri kennslufræði til að skýra einstök atriði og vekja börnin til umhugsunar. Ljóðið hljóðar svo:

Og Guð skapaði heiminn á sex dögum
dagar Guðs eru ekki eins og virkir dagar hjá okkur
heldur ómælanlegir eins og eilífðin
þegar Guð hafði búið til alla skapaða hluti
hvað haldið þið að hann hafi þá gert?
Hann bjó til dýr segir einn
Hann bjó til blóm segir annar
Allar hendur eru á lofti
En Guð hafði skapað dýrin og blómin segir kennarinn
 
hvað gerði hann sjöunda daginn?
Þögn slær á bekkinn
Guð horfði á allt sem hann hafði gert
og sá að það var vel gert
og þá fann Guð að hann var þreyttur
hann fór að sofa
Börnin brosa
þau skilja að Guð hlaut að vera þreyttur
Öll nema Siggi litli
skuggi færist yfir andlitið
hann réttir hikandi upp höndina
og spyr óttasleginn:
Hvenær vaknar Guð?

--

Í grein sem dr. Hjalti Hugason ritaði um biblíuljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, segir hann um þetta ljóð hennar:

„Hér hverfist gamansöm biblíusögupæling með ungum börnum yfir í ágenga tilveruspurningu með ýmiss konar undirtónum: Hvenær vaknar Guð? Hvað gerist með mann og heim meðan Guð sefur? Er sofandi Guð raunverulegur Guð? Er hann nálægur og lætur hann sér annt um sköpun sína eða er hann afskiptalaus og fjarlægur? Sefur Guð aðeins eða er hann e.t.v. dauður? Í spurningu Sigga rúmast mörg brýnustu viðfangsefni guðfræðinnar á 20. og 21. öld.

Ljóðið gefur nokkra vísbendingu um hvernig Vilborg Dagbjartsdóttir notar ýmsa ritningarstaði í biblíuljóðum sínum til að tengja þá lifuðu lífi á þeim tíma sem ljóðin voru ort, koma á framfæri hugmyndum eða vekja spurningar um lífið og tilveruna.“

Einlægni barna er yndisleg, þau þora að segja það sem þau hugsa og hvað þeim finnst – þar til lífið hefur hamrað þau.

Stundum finnst okkur við gleymd og Guð fjarri. Hann hljóti hreinlega að sofa. Okkur finnst óskiljanlegt að illvirki skuli unnin og fólk meitt og jafnvel deytt án þess að Guð grípi inn í og stöðvi hryllinginn.

En Guð er eins og sáðmaðurinn í guðspjalli dagsins. Hann er stöðugt að störfum. Dæmisagan lýsir ferns konar viðhorfum hjarta okkar. Þessi fjögur hjartaviðhorf lýsa ekki aðeins mismunandi fólki, heldur lýsa þau fjórum hliðum á einni manneskju. Þau lýsa ferns konar jarðvegsskilyrðum okkar eigin hjarta. Allt er mögulegt: Stundum líkjumst við alfaraleið, stundum grýttri jörð. Í önnur skipti líkjumst við kjarrlendi eða góðum frjósömum jarðvegi.

Guð greip inn í veraldarsöguna þegar undur upprisu Jesú varð. Hann sýndi það í verki að hann lætur sér annt um velferð mannsins. Ekki með því að hvítþvo og sótthreinsa aðstæður fólks, heldur með því að veita okkur stuðning og styrk á grýttum og oft torfærum lífsvegi okkar manna hér á jörð. Guð sendi okkur son sinn, Jesú, til að hjálpa okkur að standast áraun og freistingar.

--

Jesús Kristur er sjálfur undur trúarinnar og upprisa hans á þriðja degi er mesta undrið.

Fyrir það skulum við þakka sérhvern dag á meðan við lifum og drögum andann.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður, syni og heilögum anda. – Amen.