Hugvekja frá 01.01.2014 eftir Brynjar Níelsson

 Ræða Brynjars Níelssonar, alþingingismanns sem hann  flutti í messu, 1. janúar 2014.

 

Í upphafi hvers árs huga margir að framtíðinni og velta því fyrir sér hvað hún  muni bera í skauti sér. Flestir hugsa um það sem næst þeim er, hver verður afkoma mín, mun fjölskyldunni líða vel, hvernig mun börnunum farnast og svo framvegis.  Það er eðlilegt af því að það skiptir okkur miklu máli í hinu daglega lífi. Við hugsum sjaldnar um það, hvernig samfélagi við lifum í og af hverju það er eins og það er.

Samkvæmt ýmsum hamingjustöðlum, sem okkur eru kynntir reglulega, eru Íslendingar iðulega á toppnum eða þar um kring og finnst gott að búa á Íslandi. Eflaust byggist sú hamingja að miklu leyti á því að við búum í öruggu umhverfi, menning og menntun er á háu stigi hér á landi, spilling minni en gengur og gerist og við í sameiningu gætum að þeim sem minna mega sín. Við erum því í góðum málum, eins og þekktir óreglumenn segja gjarnan í skemmtiþætti í sjónvarpi, sem fylgt hefur okkur í tugi ára.

En mótast slíkt samfélag af sjálfu sér? Svarið er augljóst, það gerist ekkert að sjálfu sér í mannlegu samfélagi. Það er eitthvað sem mótar menningu, listsköpun, vísindin og lögin. Í okkar samfélagi er það ekki síst kristin trú og kristin arfleifð. Það er að mínu áliti mikil gæfa að kristin trú hefur verið ráðandi þáttur í lífi okkar Íslendinga nánast frá upphafi byggðar hér á landi.

En er sjálfgefið að kristin trú og kristin gildi verði áfram þessi ráðandi þáttur í lífi okkar?  Fyrir rúmum 20 árum voru  92% landsmanna í þjóðkirkjunni og  flestir þeir, sem ekki tilheyrðu henni, voru skráðir í aðra kristna söfnuði. Nú um  stundir  tilheyra 76% landsmanna þjóðkirkjunni og hefur þjóðkirkjufólki fækkað verulega allra seinustu misseri. 

Með aukinni upplýsingatækni má segja að hver og einn einstaklingur sé orðinn fjölmiðill. Það er auðvelt að skjóta úr launsátri og rægja aðra með nútímatækni. Trúin, kirkjan og kristileg gildi eru ekki undanskilin rægingarherferð af þessu tagi. Í raun hafa margir beitt sér af alefli með þessi vopn í hendi gegn kristinni trú og kirkjunni. Þeir halda því fram að trúin sé blekking og hindurvitni og í raun ekkert annað en leifar af frumstæðri hugsun sem þekkingin afhjúpi.

Þetta er ekkert nýtt og hægt er að nefna marga heimspekinga og hugsuði, eins og þeir kölluðu sig, sem síðustu 200 árin eða svo hafa spáð því, að dagar kristinnar trúar væru taldir. Þessar framtíðarspár reyndust ekki réttar. Það er nefnilega svo, eins og Sigurbjörn Einarsson biskup, sagði í útvarpserindi  fyrir rúmlega 30 árum, að þeir menn, sem af miklum móði veitast að því, sem þeir telja blekkingar, eru sjálfir hrapallega blekktir.

Því er enn haldið fram að þekking og vísindi fari ekki saman við trú og kristindóm. Þetta séu andstæður og trúin sé því ekkert annað en hindurvitni og hleypidómar sem samræmist ekki heilbrigðri skynsemi.  Vísindin og þekkingin hafi sannað að sköpunarsagan í upphafsriti Biblíunnar sé markleysa.

Það er fráleitt að reyna að gera sköpunarsöguna að markleysu, og þar með Biblíuna alla, með því að leggja á hana raunvísindalegan mælikvarða. Í sama erindi  og vitnað var í hér áðan komst Sigurbjörn Einarsson biskup svo að orði: „Við hefðum verið og værum heldur fátækir, ef ekki mætti tala um heiminn, lífið og náttúruna nema samkvæmt vísindalegum formúlum. Við yrðum þá að hætta að lifa veruleikann og túlka þá lifun í skáldskap og annarri list, að ég ekki nefni trú.“

Annar merkur maður, raunvísindamaðurinn Albert Einstein, sem þekkti eðlis-og efnafræði heimsins betur en flestir aðrir, sagði einhvers staðar að heimurinn væri þannig samsettur að æðri máttarvöld hlytu að hafa komið að sköpun hans.

Arno Penzias, sem hlaut Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknarniðurstöður í eðlisfræði um uppruna efnisheimsins, fannst sá vísindasigur lítilvægur í samanburði við spurningar, sem vísindin geta aldrei svarað: Hvað er lífið, hvað er dauðinn, hvað er rétt og rangt og hvernig eiga menn að hafa samskipti hverjir við aðra? Það er lífið sem er veruleikinn, afstaðan milli manna er mikilvægari en nokkur rannsóknarniðurstaða.

Kristin trú er fyrst og fremst trú mannsins á Guð en hún er jafnframt tiltekið viðhorf til veruleikans eins og við lifum hann. Hún mótar líka afstöðu manna hvers til annars.

Ég sagði hér fyrr í ræðu minni að fullyrðingar um að trúin væri blekking og hindurvitni væru ekki nýjar af nálinni. En af hverju er ég þá að rifja upp það sem Sigurbjörn Einarsson biskup sagði fyrir 33 árum um þekkingu og trú og hvaða þýðingu hefur það núna? Höfum við einhverja ástæðu til að ætla að kristin trú og kristin gildi verði ekki áfram ráðandi þáttur í lífi okkar? Hefur eitthvað breyst og þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur? Já, það hefur ýmislegt breyst og við þurfum að hafa áhyggjur.

Þótt frá upplýsingaröld hafi verið til menn sem hafa talið trú blekkingu, sem vísindin og þekkingin myndu eyða, eru það nýmæli, a.m.k. hér á landi, að stofnuð hafi verið félög, beinlínis í þeim tilgangi að berjast gegn kristinni trú. Með nýrri upplýsingatækni er auðveldara að láta til sín taka og hafa meðlimir í þessum félögum látið einskis ófreistað í ófrægingarherferð sinni gegn kristinni trú, kirkjunni og kristnum gildum. En það sorglega er, sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af, að málflutningur þessi hefur fengið að hluta til undirtektir hjá stjórnvöldum, bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg og jafnvel fleiri sveitarfélögum.  Lokað hefur verið á mestallt samstarf milli skóla og kirkju, bæði leikskóla og grunnskóla, og heimsóknir í kirkjur eru ekki heimilar nema sem þáttur í trúarbragðafræðslu í skólanum. Til dæmis má Gideonfélagið ekki lengur gefa grunnskólabörnum Nýja testamentið. Kynning á guðsorði heitir í dag innræting. Það er eins og kristin trú sé kaunn eða æxli á þjóðarlíkamanum en ekki næringin sem þessum sama líkama er nauðsynleg.

Í grunnskólalögum segir meðal annars að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika og kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Í aðalnámskrá er lögð sérstök áhersla á menningarlæsi. Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli og markmið í námskrá hefur verið þrengt verulega að kristinfræðikennslu í skólum og kirkjunni alfarið úthýst úr skólum landsins.

Trú er ekki bara trúin á Guð, skapara himins og jarðar. Hún er ekki síst menning, siðferðisviðmið og samfélagsmótandi gildi og hefðir. Kristin trú og kristin gildi hafa gert okkur að þeirri þjóð, sem við erum, og mótað samfélag okkar, sem við erum stolt af.

Þegar stjórnvöld leitast við að afkristna þjóðina er stuðlað að upplausn samfélagsins og afmenningu þess. Það gerist ekki á einni nóttu en þegar heilu kynslóðirnar fá takmarkaða kristinfræðslu og finna jafnvel helst fyrir neikvæðni í garð kristinnar trúar mun það ekki eingöngu hafa áhrif á menningu og takmarka menningarlæsi, heldur munu siðferðisviðmið breytast og kristin gildi þynnast út. Æðruleysið, kærleikurinn og fyrirgefningin eru okkur nefnilega ekki í öllum tilvikum í blóð borin.

Kristið fólk getur ekki horft sljóum augum á þessa hættulegu þróun í íslensku samfélagi. Það þarf að spyrna við fótum og taka slaginn með æðruleysið og kærleikann að vopni. Það er eins í þessu og öllu öðru, við tryggjum ekki eftirá. Ég efast ekki um að allt það ágæta fólk, sem lætur sig kristni og kirkju varða, og allir þeir foreldrar og uppalendur, sem vilja ala börn sín upp í kristinni trú og gildum, vilja leggja sitt af mörkum til að sporna við þeirri óheillaþróun sem ég lýsti hér áðan. Okkar hlutverk er að benda á þær afleiðingar, sem við teljum að sú þróun leiði til, og standa fast í ístaðinu þegar vegið er að sannfæringu okkar í þessum efnum. Við þurfum ekki að vera feimin við það, málstaðurinn er góður og hann er og hefur verið landi og þjóð til heilla. Boðskapur kristninnar er heldur ekki útilokandi á nokkurn hátt, heldur er hann kærleiksboðskapur, fagnaðarerindi, sem setur manngildi og kærleika í öndvegi. Erindið er sígilt, boðskapurinn um Guð sem elskar heiminn, kærleikann sem fellur aldrei úr gildi og um vilja Guðs sem er lýst í Galatabréfinu sem hinu góða, fagra og fullkomna. Það er von mín að þessi boðskapur verði leiðarljós íslenskrar þjóðar til framtíðar.

Gleðilegt ár.