Sálmar eftir Þorgils Hlyn Þorbergsson

GUÐSPJALLSSÁLMUR (Jh 8.2—11)

 

Til Jesú kona kölluð var,

því kveða átti dóm upp þar

hvort sækja bæri saka til

því sek hún virtist hér um bil.

 

Í musteri hann mælti orð

um miskunn Drottins hér á storð,

er fróðir menn nú fundu hann

sem fræddi lýð um Guð og mann.

 

Það var svo augljóst, klárt og kvitt,

að konu þá þeir fengu hitt.

„Er kona þessi sýknuð, sek?

nú samviskuna upp þú vek.

 

Hér lögmál Guðs því greinir frá

að grýta slíka konu má

sem áðan Drottins boðorð braut.“

En blíður Jesús niður laut.

 

Á jörð þau orðin Jesús reit,

sem jafnvel enginn maður veit

þá Kristur þennan kvað upp dóm

og kunngjörði með hægum róm:

 

 

„Af yður sá, hver syndlaus er

skal sækja fyrsta steininn hér,“

hann sagði og í sandinn kraup

nú svitinn kaldur af þeim draup.

 

Þeir stjarfir, hræddir, stóðu í röð

og steinar féllu á gráa tröð,

loks gekk í burtu einn og einn

og eftir stóð þar Jesús hreinn.

 

Hann spurði: „Ert þú saka sýkn?“

Hún sagði: „Já, mér veit þú líkn.“

Hún fór í Drottins friði burt

um fyrirgefning hafði spurt.

 

„Í friði Drottins farðu nú

og framar ekki syndga þú,

ég sýkna vil þig sökum af.“

Hann syndir allar fyrirgaf.

 

Hvort farísea, fræðimenn,

á förnum vegi hittir enn,

ó, ljúft í eigin lít þú barm

og leið hinn veika þér við arm.

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson orti 

(út frá Jh 8.2—11)  27. 06. 2005

 


 

 

 

Hve ljúft er lifnar gróður

og létt við sumri hlær

frá Guði kemur góður

og gleðiríkur blær.

Er skepnur dansa’ og skoppa

og skríkir fugl á kvist,

þá börnin hlæja’ og hoppa

þau hrifin lofa Krist.

 

Þér, Drottinn, dýrð er sungin

um dásemd þína og gjöf!

Út rósin rauð er sprungin

upp reis úr kaldri gröf.

Þín miskunn, ást og mildi

og máttarverkin stór

þinn funa flýja skyldi

úr fimbulkulda snjór.

 

Lát bjarmann sólar bjarta

mér beina til þín inn,

og hreinsa, Guð, mitt hjarta

ég helgan anda finn,

svo ljúft mig langi að tala

og lesa orð þitt kært,

þinn kross mér kann að svala

loks kenni hliðið skært.

 

Gef ávöxt iðju minni

hún ætíð lofi þig

allt heppnist hverju sinni

þinn helgi andinn mig,

að græðling gefa megi

svo grænt þar vaxi tré

að víki ei af vegi

og vondur eigi sé.

 

 

 

Martin Behm (1604), 1606. Lag:  Johann Steurlein, 1575. Geistlich Nürnberg 1581

Þorgils Hlynur Þorbergsson, sálmurinn er þýddur úr þýsku 05. 06. 2000 og lagfærður 15. 03. 2013