Ræða frá 11.12.2016 eftir Ragnar Aðalsteinsson

Hugleiðingar á aðventu 2016 eftir Ragnar Aðalsteinsson

Seltjarnarneskirkja 11.12.2016.

 Við höfum það oft að leik okkar að geta uppá hvaða afstöðu Jón Sigurðsson, forseti, hefði til umdeildra úrlaunarefna dagsins, ef hann væri nú okkar á meðal. Ég ætla í dag að víkja orðum mínum að öðrum manni, enda viðeigandi á aðventunni. Sá er eins og þið hafið ugglaust þegar getið ykkur til Jesús frá Nasaret.

Í guðspjöllunum er að finna margvíslegar heimildir um hann og afstöðu hans til manna og málefna. Mikilvægt er að hafa í huga, að það er sama hvort við rýnum í grísku harmleikina eða guðspjöllin; vandi mannsins er á margan hátt hinn sami nú og hann var fyrir 2500 eða 2000 árum.

Rétt er að rifja upp, að Ísrael var hersetið af Rómverjum á dögum Jesús eins og önnur lönd umhverfis Miðjarðarhafið. Heimtu Rómverjar skatta af heimamönnum. Til að gera skattheimtuna skilvirkari voru landsmenn skráðir í manntal. Skráning í Ísrael skyldi fara fram í heimabæ fjölskylduföður. 

Þegar hér er komið sögu bjuggu Jósef og María í Nasaret í Galíleu. Jósef var skylt að mæta til skráningar í heimabæ sínum Betlehem, sem er nokkru fyrir sunnan Jerúsalem í Júdeu. Þangað var löng og erfið ferð. Ætla má að ferðin hafi tekið um það bil eina viku. Ferðin varð ekki umflúin enda þótt María væri þunguð og vænti brátt barns síns. Þegar hjónin komu loksins til Betlehem fengu þau húsaskjól og þar fæddist Jesús.

Í Ísrael ríkti á þessum tíma konungurinn Heródes. Vitringarnir úr austri sögðu honum að nýr konungur Gyðinga væri fæddur. Hann óttaðist nýjan konung og þar með missi eigin valds. Hann sendi því menn sína af örkinni að leita uppi hinn nýfædda konung og drepa hann. Þar sem leitin af hinum nýfædd konungi Gyðinga bar ekki árangur gaf hann þau fyrirmæli að deyða skyldi öll börn yngri en tveggja ára. Af þessu má sjá að Jesús er var vart fæddur þegar hann lendir í árekstri við valdið og valdhafanna. Slíkir árekstrar áttu eftir að einkenna líf hans.

Foreldrum Jesús var ljóst að líf barnsins var í veði. Þau gripu til þess örþrifaráðs að flýja með barnið frá Ísrael til Egyptalands. Þar með er fjölskyldan komin í aðstæður sem við þekkjum vel í dag, foreldrar með börn á flótta undan eigin valdhöfum.

Fjölskyldan á flótta af ástæðuríkum ótta við að vera ofsótt af valdhöfum eigin lands, svo vitnað sá til orðalag í Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Ekki fer neinum sögum af því að fjölskyldunni hafi verið illa tekið í Egyptalandi eða sætt þar ofsóknum eða illri meðferð. Enn síður að Egyptar hafi krafist þess að mega endursenda flóttamennina til síns heimalands. Það hefur ekki gilt neitt Dyflinnarsamkomulag ríkja á milli á þessum tíma.

Þegar um hægðist í Ísrael eftir dauða Heródesar hélt fjölskyldan eftir fáein ár í Egyptalandi aftur heimleiðis til Nasaret. Efst í huga þeirra hefur að öllum líkindum verið löngunin til að komast aftur í heimahagana. Langflestir flóttamenn eru haldnir þessari löngun og vilja ekkert frekar en komast aftur heim þegar þar verður lífvænlegt.

Jafnvel þótt Jesús hafi verið ungur er hann var flóttamaður í Egyptalandi má ætla að flóttinn hafi sett mark sitt á hann, þó ekki væri nema af upprifjunum foreldranna á óttanum við ofsóknir valdhafanna, sem hrakti þau að heiman til dvalar með ókunnugum.

Samfélagið í Ísrael var ekki einsleitt. Meðal íbúanna voru Samverjar. Þeir bjuggu í Samaríu, sem er á milli Galíleu og Júdeu og ekki ólíklegat að Jósef og María hafi farið um Samaríu á leið sinni frá Nasaret til Betlehem árið sem Jesús fæddist til að uppfylla lagaskyldu um skráningu í manntal.

Samverjar voru útskúfaðir og fyrirlitnir af Gyðingum. Það var ekki aðeins að trú þeirra væri að hluta skurðgoðadýrkun, heldur veittu þeir glæpamönnum á flótta undan réttvísi Gyðinga skjól.

Í guðspjöllunum eru tvær sögur af Samverjum, sem mig langar að rifja upp, ekki síst til að lýsa afstöðu Jesús til þeirra sem sættu ámæli og fyrirlitningu hans eign fólks, Gyðinga.

Fyrri sagan er um samversku konuna, sem Jesús hitti við vatnsbrunninn er hann var á ferð um Samaríu. Kona þessi var alein við brunninn, en ekki í fylgd annarra kvenna eins og tíðkaðist. Það segir okkur, að hún hafi ekki aðeins verið samversk og þess vegna fyrirlitin af Gyðingum, heldur einnig að hún hafi verið útskúfuð af eigin fólki. Skýringin er sú, að konan hafði verið gift fimm mönnum og bjó nú með þeim sjötta. Samverska konan tilheyrði eiginlega þremur minnihluta hópum. Hún var kona, hún var samverji og að auki var hún útskúfuð kona í eigin samfélagi.

Jesús var aleinn þegar hann hitti konuna við brunninn. Lærisveinarnir höfðu brugðið sér til borgarinnar til að afla vista. Þessi umrædda staða konunnar truflaði ekki Jesús. Hann tók hana tali og bað hana gefa sér vatn að drekka. Konan undraðist ávarp Jesús og svarar: "Hverju sætir að þú sem ert Gyðingur biður mig um að drekka, samverska konu". Þarna birtast andstæðurnar okkur. Gyðinglegur karlmaður og samversk kona. Konan leggur áherslu á tvennt, að hún er samversk og að hún er kona. Hún gerir sér grein fyrir því að samtal þeirra telst ekki viðeigandi af þessum ástæðum. Í framhaldinu spannst samræða þeirra um hið lifandi vatn, en um vatnið úr brunninum sagði Jesús svo glæsilega: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta". Um hið táknræna og trúarlega í samræðunni um hið lifandi vatn ætla ég ekki að fjalla. Þegar lærisveinarnir sneru aftur furðuðu þeir sig á að Jesús var að tala við konu.

Í þessari sögu birtist með skýrum hætti sannfæring Jesús um að allir menn séu fæddir jafnir og jafnir að mannlegri virðingu og viðurkenna beri, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og sé þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum eins og segir í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Síðari samverjasagan sem mig langar til að minnast á er að sjálfsögðu sagan af miskunnsama Samverjanum, dæmisagan sem Jesús sagði þegar lögvitringurinn spurði hann hver væri náungi hans. Maður nokkur var á ferð til Jeríkó þegar hann féll í ræningja hendur. Þeir rændu hann og misþyrmdu svo hann var dauðvona. Prestur og levíti gengu þar um og sveigðu hjá. Þá bar að samverskan mann. Hann hjúkraði hinum særða og flutti hann á gististað og sá til þess að hann fengi næga umönnun. Sagan fjallar um samábyrgð manna. Hún segir okkur ekki síður, að ala ekki á fordómum gagnvart fólki af annarri trú og annarri menningu. Gyðingurinn dauðvona mátti síst af öllu búast við því af samverskum manni, að hann bjargaði lífi hans. Við skulum ekki hæðast að, rógbera, smána eða ógna öðrum vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eins og það er orðað í hegningarlögunum.

Dæmisagan kennir okkur að mannúðin á víða heima og getur birst okkur á hinn óvæntasta hátt. Við getum ekki byggt dóma okkar um aðra á því hvaðan þeir koma og hver menning þeirra er og trú. Allir sem þurfa eiga rétt á umönnun okkar og hjálp, ekki síst þeir sem hingað koma í leit að vernd undan ofsóknum heima fyrir eins og þegar Jesús og foreldrar hans leituðu verndar í Egyptalandi á flótta undan valdsmönnum í Ísrael.

Það sem þessi dæmi segja á ekki síður við á okkar dögum en fyrir 2000 árum. Við getum af þeim lært.