Menningarkvöld LVS 22. október

Listvinafélag Seltjarnarneskirkju (LVS) efnir til menningardagskrár í kirkjunni fimmtudagskvöldið 22. október kl. 20. Þar verður boðið upp á sögulegan fróðleik og fagra tónlist.

Dr. Hjalti Hugason prófessor í kirkjusögu mun segja frá Guðmundi biskupi góða sem Gvendarbrunnar, bæði hér við Reykjavík og víðar um land, eru kenndir við.  Guðmundur góði Arason lést árið 1237, 86 ára gamall, eftir allróstusama ævi.  Hann hefur verið sagður tvímælalaust einhver umdeildasti og merkilegasti biskup sem hér hefur setið og ríkt.

Dr. Hjalti Hugason er núverandi forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar Háskóla Íslands.  Hann varði doktorsritgerð um Bessastaðaskólann 1805-1846 við Uppsalaháskóla og hefur verið mjög virkur í rannsóknum á íslenskri kirkjusögu, ritstýrði m.a. hinu mikla verki “Saga kristni á Íslandi”, sem kom út á þúsund ára afmæli kristninnar á Íslandi árið 2000, og var sjálfur aðalhöfundur fyrsta bindis.

Frábær tenórsöngvari, Þórarinn Jóhannes Ólafsson, sem stundaði framhaldsnám við Conservatorio A. Boito á Ítalíu og hefur nýlega lokið einsöngvaraprófi úr McGill háskólanum í Kanada, mun syngja íslensk og erlend lög. Kristinn Örn Kristinsson, meðleikari við Söngskólann í Reykjavík, lærður m.a. í Bandaríkjunum, leikur á píanó.  -- Þórarinn hefur áður sungið hér í kirkjunni við messu og vakti þá hrinfingu bæði fögur söngrödd hans og túlkun.

Njótum ánægjulegrar kvöldstundar í kirkjunni með fjölskyldu og vinum!  Kaffi á boðstólum í safnaðarheimili kirkjunnar í hléi milli atriða.      AÐGANGUR ÓKEYPIS.  FJÖLMENNUM!