Biblíuleshópur í Seltjarnarneskirkju

bibliuleshopur
Miðvikudagskvöldið 31. október mun biblíuleshópi verða hleypt af stokkunum í Seltjarnarneskirkju. Hópurinn mun hittast hálfsmánaðarlega á miðvikudagskvöldum kl. 20.  Sigríður Nanna Egilsdóttir mun leiða þetta starf.
Fyrra korintubréf verður lesið og rætt á þessum kvöldum. Hver biblíulestur stendur yfir í tvo klukkutíma með góðri kaffipásu.
Allir hjartanlega velkomnir.

Fræðslumorgunn og guðsþjónusta 21. október

Ólafur Valur Sigurðsson, fyrrverandi skipherra, sagði frá ferð sinni  á skútu frá Seattle til Alaska í Bandaríkjunun á fræðslumorgni. Frásögn Ólafs var í senn skemmtileg og fræðandi. Fræðslumorguninn var fjölsóttur og við þökkum Ólafi Vali kærlega fyrir framlag hans.

Guðsþjónustan var fjölsótt. Konur í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness tóku þátt. Ávarp flutti Hrafnhildur B. Sigurðardóttir. Petrína Ó. Þorsteinsdóttir og Sólveig Pálsdóttir lásu ritningarlestra. Björk Hreinsdóttir og Sigríður Siemsen lásu bænir. Ásrún Kristjánsdóttir og Ósk Ingvarsdóttir tóku á móti kirkjugestum. Ingibjörg Bergsveinsdóttir las ljóð eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur frá Brautarholti, en klúbburinn gaf út bókina Minningar eftir hana fyrir nokkrum árum. Í forkirkju var sýning um Guðrúnu þar sem ljóðabækur hennar og verk voru til sýnis, en hún var vel að sér til munns og handa. Ingibjörg svaraði nokkrum spurningum um líf og störf Guðrúnar, en hún er dóttir hennar.

Sóknarprestur þjónaði í athöfninni ásamt Ólafi Finnssyni er leysti Friðrik Vigni af í þessari athöfn. Félagar úr Kammerkór kirkjunnar sungu sálma og jafnframt lag eftir Bodil Guðjónsson við texta Guðrúnar Jóhannsdóttur er heitir Bæn. Sunnudagaskólinn var á sama tíma í kirkjunni. Konur í Soroptimistaklúbbnum buðu upp á glæsilegt kaffihlaðborð. Við þökkum fyrir þjónustu þeirra.

Fræðslumorgunn og fjölmenn guðsþjónusta

Fræðslumorgunn 14. október
Hjónin Bjarni Torfi Álfþórsson og Erla Lárusdóttir sögðu frá hjólaferð frá Passau í Þýskalandi til Vínarborgar í Austurríki, er þau fóru í á nýliðnu sumri. Þau lýstu ferðinni í máli og myndum á frábæran hátt. Við þökkum þeim fyrir það. Fjölmenni var á fræðslumorgni.
-
Fjölmenn guðsþjónusta 14. október
Fjölmenn guðsþjónusta var haldin 14. október í Seltjarnarneskirkju. Sóknarprestur þjónaði ásamt organista og félögum í Kammerkór kirkjunnar. Fermingarbörn lásu lestra og bænir, Kobrún Sara Kjartansdóttir, Júlanna Ström, Tómas Óli Magnússon og Oddur Þórisson. Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, nemandi í Söngskólanum söng einsöng. Sunnudagaskólinn var haldinn á sama tíma og kom Klói í heimsókn og gaf börnunum kókómjólk og blöðrur. Glæsilegar kaffiveitingar, vínarbrauð og skúffukaka var í boði Björnsbakarís, sem við þökkum kærlega fyrir.