Vel heppnuð safnaðarferð í Skagafjörð

 

Hún var vel heppnuð safnaðarferðin í Skagafjörð dagana 20.-21. apríl síðastliðinn. Rúmlega 30 manns fóru í ferðina.

Haldið var af stað frá Seltjarnarneskirkju kl. 9 á laugardagsmorgni. Hilmar Hilmarsson ók hópnum á lúxusrútu sinni. Hilmar er Skagfirðingur og var sláturhússtjóri á Sauðárkróki á árum áður. Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar sagði hópunum frá ýmsu er tengdist Borgarfirði.  Hópurinn áði í Staðarskála í Hrútafirði. Að því loknu var ekið í blíðskaparverði í Skagafjörðinn þar sem sr. María Ágústsdóttir sagði æsku sinni í firðinum.  Komið var við á Víðimýri og hin fagra torfkirkja skoðuð.

Einar Einarsson bóndi á staðnum tók á móti hópnum og sagði frá kirkjunni. Hópurinn söng ,,Son Guðs ertu með sanni” við undirleik Friðriks Vignis Stefánssonar, organista.  Þá var farið á Löngumýri þar sem Gunnar Rögnvaldsson, staðarhaldari,  tók á móti hópnum,  og fólki var skipað niður á herbergi. Um þrjúleytið var haldið aftur af stað og kirkjan á Flugumýri var skoðuð á leiðinni heim að Hólum. Þar söng hópurinn ,,Ástarfaðir himinhæða” við undirleik Friðriks. Á hinu forna frægðarsetri Hólum fór hópurinn í heimsókn til sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskups og eiginmanns hennar, sr. Gylfa Jónssonar. Móttökur voru frábærar, rjúkandi kaffi og glæsilegt meðlæti. Söngurinn hljómaði á heimili þeirra við undirleik

sr. Gylfa. Sr. Solveig Lára var sóknarprestur á Seltjarnarnesi um 14 ára skeið. Vígslubiskup sýndi hópnum Auðunarstofu og flutti fyrirlestur í Hóladómkirkju. Þá söng hópurinn ,,Son Guðs ertu með sanni” við undirleik sr. Gylfa í kirkjunni.  Eftir þessa góðu heimsókn var ekið aftur á Löngumýri. Um kvöldið snæddi hópurinn afar ljúffenga þrírétta máltíð, graflax í forrétt, lambalæri með öllu tilheyrandi í aðalrétt og franska súkkalaðiköku í eftirrétt. Lambalærið var frá Einari bónda í Flatatungu. Lísa á Varmalæk eldaði af sinni alkunnu snilld. Undir borðum var mikið sungið við harmónikkuleik Friðriks og gítarundirleik Gunnars staðarhaldara. Þá flutti sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á Sauðárkróki,  ræðu. Brynjar Pálsson, formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju og Björn Björnsson, ritari sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju, fluttu gamanmál. Það voru sælir Seltirningar sem gengu til náða eftir góðan dag.

Daginn eftir snæddi hópurinn morgunverð á Löngumýri, sérlega glæsilegan og rausnarlegan. Um kl. 10.30 var hópurinn kominn á Sauðárkrók. Farið var í skoðunarferð um Krókinn undir leiðsögn sr. Maríu.  Kl. 11 hófst messa í Sauðárkrókskirkju. Sr. Sigríður þjónaði fyrir altari en sr. Bjarni Þór Bjarnason prédikaði. Að messu lokinni handsöluðu formenn sóknarnefndanna vináttusamning safnaða Sauðárkrókskirkju og Seltjarnarneskirkju. Guðmundur formaður afhenti Brynjari Pálssyni ljósmynd af Seltjarnarneskirkju. Þá var gestum boðið í súpu og brauð í safnaðarheimilið sem er í Gamla spítalanum. Súpan var kjötsúpa með mexókósku ívafi og brauðið heimabakað. Steinunn Hallsdóttir eldaði súpuna. Fluttar voru þakkarræður undir borðum. Sóknarprestarnir gerðu það. Gestir voru leystir út með gjöfum, bók um sögu Sauðárkrókskirkju og platta með mynd af kirkjunni. Að því loknu var ekið af stað og komið við á Reynistað, þar sem Ólafur Egilsson ávarpaði hópinn og sagði frá tengslum Thorvaldsen myndhöggvara við staðinn. Þá var haldið í Glaumbæjarkirkju. Á leiðinni þangað talaði Kristín Claessen um tengsl sín við Reynistað. Á Glaumbæ tók sr. Gísli Gunnarsson á móti hópnum. Hann fræddi fólkið um sögu staðarins. Þá var haldið af stað og áð í Staðarskála á heimleiðinni. Komið var á Nesi um kl. 19.30.

Það sem einkenndi þessa ferð var einstaklega gott veður, frábærar móttökur og ljúffengar veitingar. Við þökkum innilega fyrir allt saman og hlökkum til að taka á móti vinum okkur frá Sauðárkróki einn daginn.