Húsfyllir í kaffihúsaguðsþjónustu 4. nóvember

Húsfyllir var í kaffihúsaguðsþjónustu 4. nóvember í Seltjarnarneskirkju. Fermingarbörn tóku þátt í athöfninni og lásu lestra og bænir. Þau tóku á móti fólki er það kom til kirkju. Litlu snillingarnir og Gömlu meistararnir sungu tvö lög undir stjórn Ingu Bjargar Stefánsdóttur og Friðriks Vignis Stefánssonar. Félagar úr Kammerkórnum sungu. Silja Björg Kjartansdóttir lék á fiðlu og Tómas Helgi Kristjánsson, er fremdist í kirkjunni í vor söng einsöng. Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur þjónaði ásamt starfsfólki sunnudagaskólans.

Fermingarbörnin sáu um kaffihús í safnaðarheimilinu að lokinni athöfn og söfnuðu peningum fyrir innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar með því að taka á móti frjálsum framlögum. Alls söfnuðust tæplega 85 þúsund krónur. Fermingarbörnin gengu um beina og báru fram skúffuköku með þeyttum rjóma, en þau komu sjálf með allar veitingar að heiman. Friðrik Vignir lék kaffihúsatónlist og félagar úr Kammerkórnum sungu. Við þökkum fermingarbörnum og fjölskyldum fyrir framlag þeirra.

Frásögn og myndir frá Ekvador og Galapagoseyjum

Hrafnhildur B. Sigurðardóttir flutti frábæran fyrirlestur á fræðslumorgni 4. nóvember um ferð til Ekvador og Galapagos í máli og myndum. Fyrirlesturinn var vel sóttur og við þökkum Hrafnhildi fyrir.