SELTJARNARNESKIRKJA

Í haust- og vetrarbyrjun er gott að hugleiða birtu og mildi sumartímans, sem senn er að baki og þakka alvöldum Drottni, sem allt hefur gefið.   Sumarið hefur verið yndislegt og starfsfólk Seltjarnarneskirkju hefur nýtt tímann vel til að undirbúa vetrarstarfið sem hefst sunnudaginn 6. september með fjölskyldustund kl. 11:00 í umsjón Pálínu Magnúsdóttur æskulýðsfulltrúa kirkjunnar og okkar ágæta starfsfólks í barnastarfinu.  Eins og tíðkaðist síðasta vetur er upphaf sameiginlegt fram að ritningartextum, þá ganga börnin og þau sem vilja fylgja þeim út úr kirkjunni í fylgd ljósbera og sameinast á neðri hæð kirkjunnar þar sem sunnudagaskólinn heldur áfram.  Starfsfólk Seltjarnarneskirkju vill sýna kostgæfni og trúmennsku, vilja og hæfni til samstarfs við Seltirninga við að gera kirkjustarfið enn öflugura í vetur.   Því munum við bjóða upp á fjölbreytt guðsþjónustulíf til að ná til fólks á ýmsum aldursskeiðum og nýta þau tækifæri sem athafnir á krossgötum ævinnar veita.  Söfnuðurinn er kirkjan og því vill starfsfólk Seltjarnarneskirkju veita öllum skilyrði til vaxtar og þroska í trú, von og kærleika í daglegu lífi og störfum, enginn er undanskilinn, öllum opinbert og öllum opið.
Við vonum að þið verðið dugleg að koma til okkar í vetur og takið fullan þátt í starfi kirkjunnar. Kirkjan lifir ef við erum dugleg að sækja hana og hún verður ríkari af gleði og kærleika.
„Gæt þessa dags, hann er lífið sjálft,“, segir í fornum texta.  Íhugum þau tækifæri sem dagurinn í dag mun gefa okkur og íhugum um leið að ...

Lífið er tækifæri, gríptu það.                                                                                          
Lífið er dýrmætt, gættu þess.
Lífið er fegurð, dáðu hana.                                                                                          
Lífið er auðlegð, varðveittu hana.
Lífið er gjöf, njóttu hennar.                                                                                          
Lífið er kærleikur, gef þig honum á vald.
Lífið er leikur, leiktu hann.

Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika.                                                      
Lífið er loforð, láttu það rætast.
Lífið er áskorun, taktu henni.                                                                                          
Líf er sorg, sigraðu hana.
Lífið er skylda, gerðu hana.                                                                                   
Lífið er söngur, syngdu hann.


Höfundur:  Móðir Teresa