Frábær ferð fermingarbarna í Skagafjörð

 

Dagana 28.-30. október var efnt til ferðar fermingarbarna á Seltjarnarnesi í Skagafjörð. Söfnuður Seltjarnarneskirkju á vinasöfnuð í Skagafirði, sem er söfnuður Sauðárkrókskirkju. Þessi ferð var liður í vinastarfi safnaðanna tveggja.

 

Haldið var af stað á mánudagsmorgni og ekið norður á Löngumýri í Skagafirði með stuttri viðkomu í Staðarskála í Hrútafirði. Á Löngumýri gisti hópurinn sem taldi 45 fermingarbörn í tvær nætur. Sóknarprestur, sr. Bjarni Þór Bjarnason, fylgdi hópnum ásamt 7 fylgdarmönnum, þeim Guðmundi Einarssyni, formanni sóknarnefndar, og sóknarnefndarmönnunum Ólafi Egilssyni og Steinunni Önnu Einarsdóttur. Þá komu með þrír feður fermingarbarna, þeir Gísli Sigurðsson, Þórarinn Arnarson og Árni Stefán Björnsson. Auk þess kom með 19 ára gömul systir einnar fermingarstúlkunnar, Auður Edda Erlendsdóttir. Við þökkum öllu þessu góða fyrir frábært framlag þess í ferðinni.

 

Á Löngumýri var gott að dvelja undir styrkri stjórn Gunnars Rögnvaldssonar, forstöðumanns. Maturinn sem konurnar í eldhúsinu sáu um var einstaklega góður.

 

Fyrra kvöldið komu fermingarbörnin af Króknum í heimsókn á Löngumýri ásamt fermingarbörnum sr. Döllu á Miklabæ og sr. Gísla í Glaumbæ. Voru fermingarbörnin 120 talsins við það tækifæri. Samveran hófst með máltíð þar sem ljúffengum tacoréttum voru gerð góð skil. Þá var kynning og loks horfðu allir saman á frönsku stórmyndina ,,Intouchables.” Þá var helgistund í lokin. Sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á Sauðárkróki mætti með fermingarbörnum sínum ásamt sr. Gísla Gunnarssyni í Glaumbæ er mætti með fermingarbörnunum sem eru nemendur í Varmahlíðarskóla. Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum kom í heimsókn ásamt manni sínum, sr. Gylfa Jónssyni. Hún ávarpaði hópinn og var það sérlega ánægjulegt.

 

Fermingarbörnin sóttu alls fjóra fræðslutíma meðan á dvölinni stóð. Tveir þeirra fjölluðu um Gamla testamentið og tveir um Nýja testamentið. Sóknarprestur, Ólafur Egilsson, Guðmundur Einarssonar og Steinunn Anna Einarsdóttir sáu um fræðsluna, og fékk hvert þeirra 11 fermingarbörn til að fræða. Gekk sú fræðsla afar vel. Í upphafi fræðslunnar fengu fermingarbörnin Biblíuna að gjöf, sem Ólafur Egilsson átti hugmyndina að. Hann aflaði fjármagns upp á 250 þúsund krónur frá velunnurum kirkjunnar til að festa kaup á biblíunum. Við þökkum Ólafi kærlega fyrir framtak hans. Fermingarbörnin kunnu vel að meta þessa góðu gjöf.

 

Meðan á dvölinni stóð var boðið upp á ferðir í sund og í íþróttahúsið í Varmahlíð. Síðara kvöldið fór hópurinn á Sauðárkrók og hitti þar fermingarbörnin, sóknarprest, sr. Sigríði Gunnarsdóttur og formann sóknarnefndar, Pétur Pétursson, Álftagerðisbróður. Einnig var organisti safnaðarins þar, Rögnvaldur S. Valbergsson. Sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju bauð öllum viðstöddum upp á glæsilega pizzaveislu á veitingastaðnum Króki. Þar á eftir var kvöldvaka og helgistund í Sauðárkrókskirkju sem sóknarprestur sá um.

 

Það var glaður og ánægður hópur sem hélt suður á Seltjarnarnes á miðvikudagsmorgni eftir vel heppnaða ferð. Og ekki má gleyma bílstjóranum okkar, honum Hilmari Hilmarssyni, sem reyndist okkur vel, eins og fyrr. Við þökkum honum fyrir hans mikilvæga framlag.