Ræða frá 19.05.2019, Alma D. Möller, landlæknir

Kæru kirkjugestir.

Ég vil byrja á því að þakka Seltjarnarneskirkju og séra Bjarna Þór fyrir samstarfið við að heiðra minningu Bjarna Pálssonar á þennan myndarlega hátt nú þegar liðin eru 300 ár frá fæðingu hans.

Bjarni Pálsson var svo gæfusamur að fá að feta menntaveginn en hann fór aðeins 15 ára gamall í Hólaskóla og svo til Kaupmannahafnar árið 1747. Þar nam hann læknisfræði og náttúrufræði og stundaði námið af kappi. Hlé varð á námi þegar hann og Eggert Ólafsson voru sendir í rannsóknaferðir til Íslands eins og frægt varð. Bjarni lauk læknaprófi árið 1759 og varð þá fyrsti sérmenntaði læknir landsins. Hann var skipaður landlæknir árið 1760 og var honum falin umsjón með heilbrigðismálum landsins, að lækna og líkna, mennta lækna og yfirsetukonur, vera lyfsali og sinna sóttvörnum. Bjarni lést árið 1779, farinn að kröftum.

Guðspjall dagsins sem við hlýddum á hér á undan tónar vel við þennan dag sem við tileinkum Bjarna Pálssyni og ævistarfi hans. Þar var rætt um kærleikann og að enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vin sinn. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig líf þessa fyrsta sérmenntaða læknis landsins og fyrsta landlæknis hefur verið. Þá bjuggu hér 40 þúsund manns, örbirgð var mikil, sýkingar algengar og bjargráð takmörkuð. Hann hefur án efa þurft að leggja líf sitt í sölurnar þegar hann vitjaði sjúkra en í ævisögu hans segir að „trautt héldu honum veður, sjór eða úrtölur, er hans var vitjað til veikra“. Bjarni þótti hafa góða þekkingu á læknisfræði samkvæmt mælikvarða þess tíma og var duglegur, hjálpfús og ósérhlífinn. Vitað er að hann hafði vald á fjölda læknisverka, skurðaðgerðum þar á meðal.

Jóhannes guðspjallamaður talar um að fara og bera ávöxt sem einnig á vel við í dag því og það ber svo sannarlega að þakka þann mikla ávöxt sem starf Bjarna Pálssonar hefur skilað íslensku þjóðinni. Hann lagði í raun grunninn að íslenskri heilbrigðisþjónustu. Hann er brautryðjandinn sem fór að mennta íslenska lækna þjóðinni til blessunar. Hann stóð vörð um vandaða menntun lækna en námið tók þá þegar fimm til átta ár. Biskupar vildu hinsvegar láta hann kenna prestsefnum í eitt til tvö ár og gera þannig prestana að læknum. Það tók Bjarni ekki í mál, vildi koma upp vel lærðum læknum en ekki skottulæknum - með fullri virðingu fyrir prestum.

Ég ætla ekki að rekja lífshlaup Bjarna, það var gert svo ágætlega hér í fyrirlestri á undan messu og auk þess má vísa í minningarorð mín á heimasíðu landlæknis.

Mig langar að fara orðum um stöðu mála í dag. Heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem eru aukinn kostnaður og eftirspurn eftir þjónustu, vegna þess að við lifum lengur sem auðvitað er ánægjuefni en einnig vegna fjölgunar þeirra sem hafa langvinna sjúkdóma. Samhliða því gengur erfiðlega að manna kerfið og vinnufærum, eins og við skilgreinum í dag, mun fækka hlutfallslega. Þessi staða er að óbreyttu ekki sjálfbær og það þarf að bregðast við með víðtækum hætti. Því er það allra mikilvægasta til lengri tíma litið að bæta lýðheilsu og minnka þannig eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu.

Þegar skoðað er hvaða þættir hafa áhrif á lífslengd þá er þáttur heilbrigðiskerfisins einungis 20%. Svokallaðir áhrifaþættir heilbrigðis, þ.e. þeir þættir sem við höfum mest um að segja sem einstaklingar vega 40%. Þar erum við m.a. að tala um hreyfingu, næringu, svefn, geðrækt og það að forðast áfengi og tóbak. Félags- og umhverfisþættir eiga 40% af ævilengd en þar er um að ræða til dæmis menntun, tekjur, samgöngur, atvinnu og margt fleira. Við Íslendingar erum heppin þjóð, við erum rík og búum við meiri félagslegan jöfnuð en margar aðrar þjóðir þótt við þurfum svo sannarlega að gera betur í þeim efnum en jöfnuður er afar mikilvægur áhrifaþáttur heilsu. Það er því þannig að heilsa er ekki einungis málefni heilbrigðiskerfisins, hún er mál samfélagsins alls og þarfnast víðtækrar aðkomu.

Bjarni Pálsson hefur eflaust skynjað þessa mörgu áhrifaþætti heilsu enda var hann fjölfróður og hafði áhuga á hverju því sem gæti komið að gagni við að „hefja land og lýð“. Það hefur án efa verið fyrirmynd að lýðheilsustarfi okkar tíma. Til dæmis er því lýst hvernig hann lagði sig eftir atvinnuháttum sem minnir á eitt verkefna Embættis landlæknis um heilsueflandi vinnustaði.

Ágætu kirkjugestir. Við sem störfum í heilbrigðisþjónustu vinnum mikilvægustu og mest gefandi störf í heimi, við að bjarga mannslífum, við að bæta heilsu og líf fólks. Það gerum við með því að beita gagnreyndum vísindum og aðferðum, en einnig með því að gefa af okkur til skjólstæðinganna, miðla von og geisla öryggi og trausti. Því þurfum við að vera vel stemmd í vinnunnu og hlúa vel að okkur sjálfum og samstarfsfólki.

En - við getum ekki gefið það sem við höfum ekki. Þetta segi ég vegna þess að vaxandi kulnun, streita og kvíði víða í samfélaginu er mikið áhyggjuefni og hér er starfsfólk í heilbrigðisþjónustu ekki undan skilið eins og nýleg könnun meðal lækna leiddi í ljós. Læknirinn er sá sem  líknar og læknar og þarf að vera boðberi kærleikans og umhyggjunnar eins og miskunnsami Samverjinn var. Hjálpsemi og náungakærleikur eru boðskapur sem fellur ekki úr gildi.

Það þarf því að beita öllum tiltækum ráðum til að sporna við vaxandi kulnun. Við þurfum öll að sameinast um að skapa þannig umhverfi að heilbrigðisstarfsfólk geti mætt stolt til vinnu og farið enn stoltari heim. Við þurfum að hlúa að eigin heilsu og líðan; hreyfa okkur, borða skynsamlega, sofa vel, rækta geðið og viðhafa góð samskipti, efla en líka hvíla andann og umgangst áfengi og lyf með mikilli varúð. Almennt held ég að samfélagið allt þurfi að hægja á sér eða eins og rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir sagði: „Gerðu færra, gerðu eitt í einu, gerðu það hægar. Hafðu lengra bil á milli gjörða“.

Bjarni Pálsson fór ekki varhluta af áhyggjum yfir læknisstarfinu og var trúmaður og tilfinninga. Það var siður hans er hann kom úr vitjun að ganga einn til kirkjunnar í Nesi, læsa að sér, varpa sér flötum, þakka guði þegar vel gekk en ákalla hann um hjálp þegar miður gekk. Þarna fékk Bjarni styrk og stuðning í sínu krefjandi embætti.

Mig langar að nefna mikilvægt meðal gegn kvíða, kulnun og streitu en það er góður svefn, án lyfja. Lýðheilsuvísar Embættis landlæknis sýna að Íslendingar sofa allt of lítið. Til dæmis sofa um 42% ungmenna í 8-10. bekk minna eða jafnt og 7 klst. að jafnaði en ættu að vera 9 klst. Tæp 30% fullorðinna sofa minna eða jafnt og 6 klst. að jafnaði en ætti að vera 7-8 klst. Rannsóknir og vísindin styðja nú að þessi séu áhrif góðs nætursvefns og ég les upp úr nýrri bók um efnið: „Góður svefn lengir líf. Hann bætir minni og sköpunargáfu. Bætir útlitið og hjálpar okkur að halda kjörþyngd. Virkar fyrirbyggjandi gegn krabbameinum og heilabilun. Eflir ónæmiskerfið. Lækkar áhættu á hjarta- og heilaáföllum auk sykursýki. Stuðlar að hamingju og vinnur gegn þunglyndi og kvíða“.

Kæru kirkjugestir. Framundan eru miklar áskoranir, ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur í samfélaginu öllu og breytingar óumflýjanlegar. Við horfum fram á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar sem mun, að óbreyttu, hafa víðtæk áhrif á jörðina, hagsæld og heilsu. Við verðum að horfa fram á við og reyna að halda í við framtíðina. Hallgrímur Helgason orðar þetta snildarlega í bók sinni 60 kg af sólskini en hér eru menn að þrátta um hvort byggja eigi bryggju á Siglufirði (og þá verð ég að fá að koma því að að Siglufjörður er heimabær minn og þar þjónaði faðir Bjarna sem prestur árin 1696-1712). En Hallgrímur skrifar: „Á meðan menn deildu við fundarborð færðist það sama borð inn í framtíðina, án þess að deildendur tækju eftir“. Við höfum sem sé takmarkaðan tíma til að velta vöngum en verðum að bregðast við. Við verðum öll að leggja okkar að mörkum og vera ósérhlífin eins og Bjarni Pálsson var, byrja á að líta í eigin barm og skoða hvað hver og einn getur gert til að hlúa að umhverfinu og eigin heilsu. Þannig stuðlum við að betri framtíð og verðum samfélaginu öllu til gagns.

Bjarni Pálsson var fyrsti landlæknirinn. Sú sem hér stendur er 19. í röð þeirra og nú starfa hjá embættinu ríflega sextíu manns. Ég tel fara vel á því á þessum vordegi að enda á ljóði eins af starfsmönnum Embættis landlæknis, Lauru Scheving Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingi en ljóðið heitir Dýrmætt er hvers dags að njóta og er með viðlagi eftir Jóhannes úr Kötlum:

Dýrmætt er hvers dags að njóta,

dægrin ei þá framhjá þjóta.

Þakklæti lát hug þinn móta.

Þel sé ætíð friðsælt þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt.

Birtu skaltu öðrum bera.

Blessun þeim þú reynast vera.

Góðverk er þér gott að gera,

þá gleði fyllist lífið þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt.

Líf þitt leggðu Hans í hendur.

Líttu, Hann við hlið þér stendur!

Horfðu heim á himins lendur.

Hugarfar sé heilnæmt þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt.