Prédikun frá 23.02.2020 eftir Svönu H. Björnsdóttur

Prédikun Svönu Helenar Björnsdóttur í Seltjarnarneskirkju á konudag, sunnudag í föstuinngangi, 23. febrúar 2020

Biðjum með orðum sr. Hallgríms Péturssonar:

Vertu, Guð faðir, faðir minn / í frelsarans Jesú nafni / hönd þín leiði mig út og inn / svo allri synd ég hafni – í Jesú nafni, amen.

Í guðspjalli dagsins, sem er guðspjall Lúkasar, 18.31-34, segir svo:

„Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.“

Þessi frásögn minnir okkur á aðdraganda páskanna og inngang föstunnar. Frásögnin er inngangur að undri upprisu Jesú eftir krossfestinguna, sem á þeirri stundu hann einn vissi að biði hans.

Jesús reynir að búa lærisveina sína undir atburði komandi daga. Atburði sem öllu máli skipta fyrir okkur, kristið fólk, og eru kjarninn í kristinni trú. Atburði sem kristalla helgi mannsins og minna okkur á að Guð er nálægur hverjum manni í neyð hans og þjáningu.

En lærisveinarnir skildu ekki og skynjuðu ekki það sem sagt var.

Skiljum við það sem sagt er? Við sem sitjum hér í Seltjarnarneskirkju á þessum sunnudegi?

Við höfum öll upplifað að líða illa, kveljast og þjást. Við þekkjum sennilega flest hvernig er að vera einmana, veik, með verki, varnarlaus, veiklynd, áhyggjufull og kvíðin.

Nú, á inngangi föstunnar, erum við minnt á að Jesús kom til mannsins í neyð hans. Hann kemur til okkar þegar við þjáumst og hann skilur okkur ekki eftir ein og yfirgefin. Hann horfir ekki aðeins á okkur, vorkennir okkur og lætur okkur afskiptalaus. Nei, hann tekur í hönd okkar, leiðir okkur, gengur með okkur á vegferð okkar í lífinu. Meira að segja þegar við erum buguð af sorg og sjáum fátt annað en svartnætti annast hann okkur og hjálpar í kyrrð.

Í tilefni konudagsins ætla ég að vitna í góða konu sem við flest þekkjum og hefur komið hingað í Seltjarnarneskirkju til að flytja ljóð sín og tala við okkur um lífið. Það er Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld og kennari.

Í ljóðabók sinni „Klukkan í turninum“, sem út kom árið 1992, yrkir Vilborg biblíuljóð sem nefnist „Á sjöunda degi“, og er sprottið er úr daglegu starfi kennarans, nánar til tekið kennslu í kristnum fræðum. Í ljóðinu endursegir kennarinn „sköpunarsöguna“, þ.e. fyrri sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar. Vilborg beitir næmri kennslufræði til að skýra einstök atriði og vekja börnin til umhugsunar. Ljóðið hljóðar svo:

Og Guð skapaði heiminn á sex dögum
dagar Guðs eru ekki eins og virkir dagar hjá okkur
heldur ómælanlegir eins og eilífðin
þegar Guð hafði búið til alla skapaða hluti
hvað haldið þið að hann hafi þá gert?
Hann bjó til dýr segir einn
Hann bjó til blóm segir annar
Allar hendur eru á lofti
En Guð hafði skapað dýrin og blómin segir kennarinn
hvað gerði hann sjöunda daginn?
Þögn slær á bekkinn
Guð horfði á allt sem hann hafði gert
og sá að það var vel gert
og þá fann Guð að hann var þreyttur
hann fór að sofa
Börnin brosa
þau skilja að Guð hlaut að vera þreyttur
Öll nema Siggi litli
skuggi færist yfir andlitið
hann réttir hikandi upp höndina
og spyr óttasleginn:
Hvenær vaknar Guð?

--

Í grein er dr. Hjalti Hugason ritaði um biblíuljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, segir hann um þetta ljóð Vilborgar:

„Hér hverfist gamansöm biblíusögupæling með ungum börnum yfir í ágenga tilveruspurningu með ýmiss konar undirtónum: Hvenær vaknar Guð? Hvað gerist með mann og heim meðan Guð sefur? Er sofandi Guð raunverulegur Guð? Er hann nálægur og lætur hann sér annt um sköpun sína eða er hann afskiptalaus og fjarlægur? Sefur Guð aðeins eða er hann e.t.v. dauður? Í spurningu Sigga rúmast mörg brýnustu viðfangsefni guðfræðinnar á 20. og 21. öld.

Ljóðið gefur nokkra vísbendingu um hvernig Vilborg Dagbjartsdóttir notar ýmsa ritningarstaði í biblíuljóðum sínum til að tengja þá lifuðu lífi á þeim tíma sem ljóðin voru ort, koma á framfæri hugmyndum eða vekja spurningar um lífið og tilveruna.“

Einlægni barna er yndisleg, þau þora að segja það sem þau hugsa og hvað þeim finnst – þar til lífið hefur hamrað þau.

Stundum finnst okkur við gleymd og Guð fjarri. Hann hljóti hreinlega að sofa. Okkur finnst óskiljanlegt að illvirki skuli unnin og fólk meitt og jafnvel deytt án þess að Guð grípi inn í og stöðvi hryllinginn.

Guð greip inn í veraldarsöguna þegar undur upprisu Jesú varð. Hann sýndi það í verki að hann lætur sér annt um velferð mannsins. Ekki með því að hvítþvo og sótthreinsa aðstæður fólks, heldur með því að veita okkur stuðning og styrk á grýttum og oft torfærum lífsvegi okkar manna hér á jörð. Guð sendi okkur son sinn, Jesú, til að hjálpa okkur að standast áraun og freistingar.

Eða eins og skáldið Hallgrímur Pétursson segir í 4. Passíusálmi (Sálmur 337 í Sálmabókinni):

Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmislig.
Þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að Drottins náð.
Andvana lík, til einskis neytt,
er að sjón, heyrn og máli sneytt,
svo er án bænar sálin snauð,
sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.
Vaktu, minn Jesús, vaktu' í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki, þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.

--

Meðan allt leikur í lyndi líður lífið áfram átakalítið – og að því er okkur finnst sjálfsagt. Það er ekki fyrr en eitthvað bjátar á að við neyðumst til að staldra við, horfa gagnrýnum augum á líf okkar, endurmeta lífsgildin og endurskoða markmiðin sem við höfum sett okkur í lífinu.

Á slíkum stundum er gott að þekkja Jesús og geta rætt við hann um erfiðar tilfinningar. Hann hefur lofað að hlusta, heyra jafnvel ákall sem ekki verður fært í orð, orð sem ekki verður stunið upp. Með dauða sínum á krossi og upprisu á þriðja degi hefur hann gefið okkur fyrirheit um eilíft líf, fyrirgefningu synda og frelsun frá öllu illu.

Jesús er sjálft fagnaðaerindið, enn í dag.

Okkur, sem andann drögum á þessari jörð, hefur öllum verið gefið líf. Líf sem er dýrmætt og má nota á marga vegu, til góðs en einnig til ills. Það, hvernig við njótum lífsins er mjög háð viðhorfi okkar til lífsins. Vísindarannsóknir sýna að þeir sem temja sér þakklæti, jafnvel fyrir sjálfsagða hluti í lífinu, upplifa mun meiri hamingju en þeir sem venja sig á óánægju með alla hluti.

Fáir hafa orðað þetta betur en Vilborg Davíðsdóttir, í ljóði sínu Viðhorf. Ljóðið birtist í ljóðabókinni Síðdegi sem út kom árið 2010. Þar yrkir Vilborg:

Þú segir: Á hverjum degi
styttist tíminn
sem við eigum eftir.
Skref fyrir skref
færumst við nær
dauðanum
- en ég þræði dagana
eins og skínandi perlur
upp á óslitinn
silfurþráðinn
Á hverju kvöldi
hvísla ég glöð
út í myrkrið:
Enn hefur líf mitt lengst um heilan dag.

--

Guð gefur okkur ýmis verkfæri í lífinu, svo sem bæn, fyrirgefningu og þakklæti. Í stuttri prédikun sem þessari er ekki tími til að fjalla um öll verkfæri Guðs, en hér langar mig sérstaklega að nefna þakklætið því það er verkfæri sem hefur verið mér hugleikið um nokkurt skeið.

Páll postuli leggur áherslu á þakklætið í bréfi sínu til Þessaloníkumanna. Hann skrifar: „Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú.“

Það getur verið áskorun að þakka alla hluti. En þakklætið hefur reynst mér lærdómsríkt viðfangsefni, fært mig nær Guði og dýpkað samband mitt við hann.

Þetta er ritningarvers sem ég á oft í erfiðleikum með. Hvernig þakka ég fyrir óhöpp eins og sprungið dekk þegar ég er á leið í vinnu um miðjan vetur í niðamyrkri og klukkan er varla orðin átta. Hvernig þakka ég fyrir að veikjast, að börnin mín veikist, maki minn veikist, að einhver mér nákominn deyi, eða þegar ég dett og slasa mig – og svo framvegis.

Það samræmist ekki mannlegum skilningi mínum að þakka Guði fyrir margs konar ólukku og ófarir. Ég hugleiði þakklætið og segi við Guð: Elsku Guð, ég skil ekki að hægt sé að þakka fyrir alla hluti. Það er ofvaxið skilningi mínum. En ef það er hægt, þá vinsamlega hjálpaðu mér að skilja það.

Og eitt sinn, þegar ég var stödd á hóteli í útlöndum, heyrði ég sögu. Sögu af manni sem var á ferðalagi og náttaði í gistihúsi. Á meðan hann brá sér í burt til að sinna erindum kom þjófur og stal öllum peningunum hans. Þessi maður las upp úr dagbókinni sinn það sem hann hafði skráð eftir þennan atburð. Þar hafði hann ritað:

  • Guð, þakka þér fyrir að þetta var í fyrsta sinn sem ég er rændur.
  • Takk fyrir að það var ekki öllu stolið.
  • Takk fyrir að aðeins veraldlegum hlutum var stolið en ég lenti ekki í lífsháska vegna þessa. Líf mitt var ekki í hættu.
  • Takk fyrir að ég get fyrirgefið þjófinum.

Þessi saga snart mig djúpt og ég hugsaði, að svona manneskja vildi ég gjarnan vera. Manneskja sem jafnvel í óförum eða vonbrigðum getur þakkað Guði. Og Guð hefur gefið mér margs konar tækifæri til að æfa mig í þakklæti og æfa mig í að treysta honum.

--

Jesús Kristur er sjálfur undur trúarinnar og upprisa hans á þriðja degi er mesta undrið.

Fyrir það skulum við þakka sérhvern dag á meðan við lifum og drögum andann.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Amen.