Prédikun frá 14.06.2020, Sigurður Már Hannesson

Prédikun í Seltjarnarneskirkju, 1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
14. júní, 2020

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sálmarnir 37

3Treyst Drottni og ger gott, þá muntu óhultur búa í landinu.

4Njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.

5Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Svo ritar sálmaskáldið í 37.sálmi Saltarans. Treyst Drottni og ger gotter boðað, öllum þeim sem á hlýða. Ágætt er að ígrunda það velhvað það að gera ‚hið góða‘; hvernig við förum að því að fylgja Kristi í okkar daglega lífi. Guðspjall dagsins, dæmisaga Jesú um ríka manninn og þann fátæka, varpar góðu og þörfuljósi á þær vangaveltur.

Jesús dregur þar upp mynd af miklum andstæðum; af einstaklingum sem eru að vissu leyti í eins ólíkum aðstæðum og hugsast getur. Hann málar mynd af ríkum manni; lýsingarnar af ríkidæmi hans og auð fara stigmagnandi með hverju orðinu. Hann er maður sem lifði sérhvern dag í vellystingum og dýrlegum fagnaði. Og ríkulegum klæðnaði hans er einnig lýst. Í þriðju biblíuþýðingu okkar Íslendinga, Steinsbiblíu, fráfyrri hluta 18. aldar, sem gjarnan er sögð okkar sísta biblíuþýðing, sökum þess hve dönskuskotin hún er talin vera; þar er fötum ríka mannsins lýst svo: (að)hann klæddist purpura og kostulegum lín klæðum.

Svo fáum við að kynnast Lasarusi, sem er vægast sagt í bagalegum aðstæðum. Hann er í raun hin fullkomna ímynd einstaklings sem er hjálpar þurfi. Hann er veikburða; þakinn sárum, hann er hungraður og örbjarga, og liggur fyrir dyrum ríka mannsins. Gríski frumtextinn bendir reyndar til þess að Lasarusi hafi verið komið fyrir á þeim stað þar sem hann lá; honum hent þangað og hann svo skilinn eftir; yfirgefinn.En eitt virðist Lasarus hafa átt, sem ríka manninn skorti, það er, trú sína og traust á Drottinn. Sú staðreynd er falin í nafni Lasarusar, en hann er í raun eina persóna dæmisagna Jesú sem gefið er nafn. Nafnið Lasarus þýðir Guð hjálpar, og undirstrikar það enn frekar þá miklu gjá sem skilur að ríka manninn og Lasarus; að ríki maðurinn treysti á eigur sínar og veraldleg gæði, en Lasarus treysti Drottniog það var reiknað honum til réttlætis.

Og Jesús segir frá því hvernig Lasarus beið þess að fá að seðja sig á því sem féll af borði ríka mannsins. Fólk hefur velt því fyrir sér hvað það hafi verið sem féll þar af borðinu, og flestum dettur eflaust í hug að þar sé átt við mylsnur og matarleifar kræsinganna sem ríki maðurinn gæddi sér á. Biblíurýnendur hafa þó stundum bent á horfin sið í þessu samhengi, sem sagður er hafa verið algengur á þessum tíma, sem tíðkaðist aðeins á hinum allra auðugustu heimilum. Það er, að sökum þess að borðað var með höndunum, voru brauðhleifar hafðir til hliðar við borðhaldið, sem matargestir gátu svo þurrkað og þrifið óhreinar hendur sínar með. Brauðbitunum var svo fleygt í burtuÞví telja sumir að það hafi verið þessar „brauð-þurrkur“, sem Lasarus beið eftir að fá að seðja sig á. Ímyndið ykkur bara matarsóunina! Slíkur siður væri nú aldeilis ekki vel liðinn í dag, í okkar samfélagi!

En matarsóun var ekki helsti löstur ríka mannsins, og ekki ástæða örlaga hans. Og mikill auður hans, einn og sér, var það ekki heldur. Í dæmisögunni kemur heldur ekkert fram sem bendir til þess að ríki maðurinn hafi verið neitt sérstaklega kvikindislegur í garð Lasarusar; hann lætur til að mynda aldrei reka hann í burtu frá dyrum sínum og bannar honum ekki að eta það sem fellur af borði sínu. Ríki maðurinn lætur Lasarus bara hreinlega algjörlega í friði; hann skiptir sér ekkert af honum. Yfirsjón ríka mannsins virðist nefnilega vera einmitt sú, að hann veitir þessum þurfandi einstaklingi enga athygli; þessari hjálparvana manneskju sem hann sér eflaust daglega og þarf hugsanlega að stíga yfir til að komast leiðar sinnar. Hann gefur honum engan gaum; lætur sem svo að hann sé aðeins sjálfsagður hluti af umhverfinu. Það er einmitt afskiptaleysið sem ríki maðurinn er sekur um.

Þá veltum við því eflaust fyrir okkur: „hvað hefði ríki maðurinn getað gert betur?“Einfalda svarið, og það sem fyrst kemur upp í hugann, er væntanlegaþað, að hann hefði mátt gefa aðeins af þessum mikla auð sem hann bjó að. Í fyrri ritningalestri þessa sunnudags,úr fimmtu Mósebók, erum við einmitt minnt á mikilvægi þess „að gefa“, þar sem stendur:

„Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.“

En hversu mikið? Hversu mikið eigum við að gefa? Írski rithöfundurinn og trúvarnarmaðurinn C.S. Lewis veltir þeirri spurningu fyrir sér í bók sinni, Mere Christianity, sem byggir á útvarpserindum Lewis, sem hann hélt í breska ríkisútvarpinu í miðri síðari heimstyrjöld. Lewis finnur raunar ekkert fullnægjandi svar við spurningunni, annað en það að kristinni manneskju beri að gefa svo að hún finni fyrir því. Í öðrum orðum, að okkur beri að gefa þar til okkur munar um það.

En það er auðvelt og mannlegtað skjóta sér undan skyldunni, og gjarnan er maður með afsakanirnar sér á reiðum höndum til af afsala sér ábyrgðEf til vill má ímynda sér, að ef ríki maðurinn í dæmisögunni væri uppi á okkar tímum, og lifði við það velferðarkerfi, sem við búum að í dag, og þær miklu og góðu stofnanir sem hlúa að þeim okkar sem þurfandi eru hverju sinni, hefði hann eflaust hugsað með sjálfum sér: „ég borga mína skatta, er það ekki nóg? Er ekki betra að leyfa fagfólkinu að sjá um þetta fólk? Það eru nú til allskonar þjónustur og úrræði sem hann Lasarus getur nýtt sér.“ Það er auðvelt að koma ábyrgðinni yfir á aðra en það er einmitt andstæðan við boðskap dæmisögunnar. 

Og ef til vill hefur ríki maðurinn hugsað: „og hvað með allar fátæku ekkjurnar og munaðarleysingjana? Er ekki nær að hjálpa þeim fyrst?“ Fræg er sagan af konunni, sem gekk hús úr húsi í sveitinni sinni og safnaði fyrir góðgerðarsamtök. Á einum bænum var alltaf svarað í svipuðum dúr, þar sem neitun var falin bak við aðra þörf; Ef hún safnaði peningum fyrir hjálparstarf erlendis, var svarað, að miklu frekar þyrfti að safna peningum fyrir allt það þurfandi fólk sem hér heima býr. En þegar hún safnaði fyrir innlent hjálparstarf, þá var svarið alltaf á þá leið, að betur færi að safna fyrir öllu sveltandi fólkinu í þróunarlöndunum, þar sem neyðin er nú svo mikil. Ráð konunnar var þá það að taka með sér tvo bauka í næstu söfnun; einn fyrir erlent- og einn fyrir innlent hjálparstarf.

Líkt og áður sagði, þá er einfalda svarið við spurningunni, um hvað ríki maðurinn hefði getað gert betur, að opna fjárhirslur sínar og gefa Lasarusi af sínumikla auð. En eins og við öll vitum þá eru fjármunir ekki það eina sem við getum gefið af okkur til þess að bregðast við neyð náungans. Við getum jú einnig rétt út hjálparhönd, gefið tíma okkar og við getum sýnt það í verki að okkur sé umhugað um aðra. 

Persóna og gjörðir ríka mannsins í dæmisögunni eru að mörgu leyti andstæðan við það sem birtist okkur í einni af þekktustu dæmisögum Jesú um miskunnsama Samverjann. Í frásögninni liggur slasaður og hjálparlaus maður í vegkantinum.Og menn, sem kalla sig guðhrædda, sveigja þar fram hjá honum og láta sér fátt um finnast. Þar til að Samverjinn, sem tilheyrði þjóð sem óvinveitt var Gyðingum, gekk þar hjá. Samverjinn réttir slasaða manninum hjálparhönd sína og lætur sér annt um hann; flytur hann á gistihús og hlúir að honum og sér svo til þess að hann fái alla þá aðhlynningu sem hann þarfnast. Samverjinn sýndi því allt annað en afskiptaleysi með gjörðum sínum og umhyggju.

Það að gefa af sér er að mörgu leyti í eðli sínu það að berskjalda sig, að leggja niður sín borgarvirki. Þegar við ljúkum upp hendinni fyrir náunganum, gefum af tíma okkar, eða opnum okkar hjörtu, þá erum við oft á tíðum að gefa tækifæri á því að einhverjir misnoti góðmennsku okkar.Og við vitum öll að við þurfum að vera varkár„Ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.“, segir Kristur í 10. kafla Matteusarguðspjalls. En í varnarleysinu og í því að opna sitt hjarta fyrir náunganum, þar má finna gríðarlegan styrk. Það sjáum við best þegar við lítum á Krist á krossinum. Þar sjáum við manneskju, eins berskjaldaða og varnarlausa og hugsast getur – En þar sjáum við líka frelsara okkar sem hefur gefið af sér eins mikið og mögulegt er.

Erfiðleikarnir eru miklirum heim allan. Og ógerlegt er að taka allar fréttir af eymd og óréttlætiþessa heims inná sig. En tækifærin til að gera hið góðabirtast okkur víða, ef við höfum augun opin fyrir þeim.

Það er gott að geta gefið af sér. Gott er að gefa fjármuni, jafnvel betra er að gefa sinn tíma, en ef til vill er allra best að gefa kærleika sinn, umhyggju og athygli, því að þá fylgir allt hitt. 

Ef við segjumst fylgja Kristi þá reynum við að líkjast heldur miskunnsama samverjanum í breytni okkar og viðhorfi, heldur en ríka manninum í dæmisögunni. 

Það að fylgja Kristi þýðir ekki að við eigum að draga okkur til hlés og úr því samfélagi sem við búum í. Það að varðveita Guðs orðá okkar hjörtum þýðir ekki að við eigum að leyfa óréttlæti að viðgangast. 

Okkur ber að rétta fram okkar hjálparhönd til náungans, tala gegn óréttlæti þessa heims og boða trú, von og kærleika Guðs inn í allar aðstæður.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda,

svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Sigurður Már Hannesson