Hugvekja frá 01.01.2013 eftir Guðmund Einarsson

Guðmundur Einarsson

Nýjárshugleiðing flutt í Seltjarnarneskirkju á nýjársdag 2013

Enn eitt ár er liðið í aldanna skaut og nýtt ár gengið í garð. – Við slík tíma­mót nemur hugurinn jafnan staðar við það sem að baki er – minningar og atburðir liðins árs renna fyrir sjónir – ekki síst þeir sem tóku á okkur persónulega.

Það hafa orðið slys á árinu sem leið.  Þótt sjóslysum og umferðarslysum fækki stöðugt fyrir frábært starf þeirra sem vinna við slysavarnir, verða þau þó enn.  Á Íslandi hugsum við ekki hvað síst til þeirra sem hafa misst ættingja eða vini í sjóslysum eða öðrum slysum.  Megi Guð vera með þeim og styrkja þau.

Það eru líka margir – allt of margir – sem eiga í alvarlegum fjárhagsvanda eftir hrunið.  Við verðum að vona að þetta fólk verði látið njóta vafans ef einhver er þegar sýslað verður um umbætur og nýjungar í atvinnumálum.

Náttúruvernd er mikilvæg og umhverfisvernd ekki síður – loftslags­breytingarnar og þau vandamál sem þær skapa eru óræk vtini þess.  Alla virkjanakosti þarf að rannsaka í þaula svo enginn vafi sé um áhrif þeirra á náttúru og umhverfi.  En ef við ætlum að leysa vanda þeirra sem nú ganga atvinnulausir, verðum við að láta þá njóta vafans, ef einhver er, fremur en stokka og steina hversu fagrir sem þeir kunna að vera.

Ég las það einhvers staðar nýlega að vísindamenn hafi nú fundið út með óyggjandi hætti með aðferðum öreindafræðinnar, að tíminn getur aðeins stefnt í eina átt - hann getur ekki farið til baka - tímaflakk sem er vinsælt efni í vísindaskáldsögum, er því líklega ómögulegt.  Fyrir einhverjum kunna þetta að vera gömul tíðindi og ég minnist þess í áramótaræðum föður míns að um áramót sé dyrum læst og engu verði héðan af breytt um atburði hins liðna árs eða gjörðir okkar á því ári.  - Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. –  Það er sem sagt ekki eins og í tölvuleikjum þar sem hægt er að velja „replay“ og leiðrétta mistök eftir á.

Það er því eins gott að vanda til verka, haga okkur þannig að óþarfi sé að velja replay, en auðvitað er margt sem gerist án þess að við getum neinu um það ráðið.

En hvað boðar nýjárs blessuð sól?

Hvernig farnast okkur á hinu nýja ári?  Hvernig farnast þjóðinni, tekst henni að kjósa þannig að farsæl ríkisstjórn leiði hana næstu árin? 

Hvernig farnast heiminum: Lýkur stríðinu í Sýrlandi?  Næst að semja um frið milli Ísraelsmanna og Palestínumanna?  Verða ný átök í Egyptalandi – eða kannski milli Kína og Japans?  Næst árangur í baráttunni við loftslagsbreytingar?

Hvert og eitt okkar getur ekki ráðið miklu um þessa hluti, en við höfum viss umráð yfir okkar eigin lífi og okkar nánustu.

En hvert skal stefnt og er stefnan rétt?

Það er nú þannig að við sjáum ekki vel það sem fram undan er.  Það má líkja því við að ferðast í þoku.  Þeir sem stýrt hafa skipum vita að þá ríður á að hafa tæki sem gera kleift að ákvarða stefnuna sem siglt er í, og að hún sé rétt.  Að hafa radar, gps-tæki o.s.frv.  Þegar bíl er ekið í þoku er þetta erfiðara, en bílinn er þó hægt að stöðva ef óvissan um það sem fram undan er verður of mikil.  Tímann getum við hins vegar ekki stöðvað.  Við siglum áfram hvort sem okkur líkar betur eða verr.  En við getum nýtt tæki til að ákvarða stefnuna, líkt og skipstjórinn notar radarinn.

Okkar radar er trú okkar á Guð og leiðsögn Jesú Krists, og til að hjálpa okkur við þetta höfum við söfnuðinn og kirkjuna okkar, prestana - Þjóðkirkjuna.  Og það skiptir svo miklu að fá þetta tæki, trúna, strax á barnsaldri.

Í dag er áttundi dagur jóla.  Á þeim degi var Jesú nafn gefið. Jólin standa því enn og eru reyndar 5 dagar eftir af þeim.  Við erum umvafin jólaboðskapnum um áramótin.

Í nýjársprédikun föður míns, sr. Einars Guðnasonar í Reykholti, er hann hélt í kirkjunni í Stóra-Ási á nýjársdag árið 1966 vitnaði hann í ljóð sr. Matthíasar, og leyfi ég mér að gera það einnig nú.

Sálmaskáldið mikla, Matthías Jochumsson, dregur upp mynd í einu fegursta jólaljóði sem til er á íslenskri tungu, þar sem gildi trúarlegs uppeldis kemur skýrt fram.  Hann er að lýsa jólunum heima í Skógum - á fátæka æskuheimilinu - og boðun móður sinnar Þóru Einarsdóttur á jólaboðskapnum. Þar sjáum við hvernig á að gefa börnunum jól svo að þau – og Guðs sonur verði veruleiki í lífi barnsins er vari allt lífið.

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól,
man það fyrst, er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.

Kertin brunnu bjart í lágum snúð,
bræður fjórir áttu ljósin prúð,
mamma settist sjálf við okkar borð;
sjáið, enn þá man ég hennar orð:

„Þessa hátíð gefur okkur Guð,
Guð, hann skapar allan lífsfögnuð,
án hans gæsku aldrei sprytti rós,
án hans náðar dæi sérhvert ljós.

Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð,
Guð hefir kveikt, svo dýrð hans gætuð séð;
jólagleðin ljúfa lausnarans
leiðir okkur nú að jötu hans.“

Síðan hóf hún heilög sagnamál,
himnesk birta skein í okkar sál;
aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.

Margan boðskap hef ég hálfa öld
heyrt og numið fram á þetta kvöld,
sem mér kveikti ljós við ljós í sál, -
ljós, sem oftast hurfu þó sem tál.

Hvað er jafnvel höndum tekið hnoss?
Hismi, bóla, ský sem gabbar oss,
þóttú vinnir gjörvallt heimsins glys,
grípur þú þó aldrei nema fis!

Já, grípur þú þó aldrei nema fis!  Var það ekki einmitt þetta sem við upplifðum í hruninu.  Auðæfin sem virtust spretta upp allt í kring um okkur.  Bankarnir fengu innlán og lánuðu þær fjárhæðir fjór- eða fimmfaldar - lántakinn lagði svo hina margfölduðu fjárhæð inn, kannski með millilið vegna hlutafjárkaupa, og bankinn gat svo margfaldað  hana aftur og svo koll af kolli.  Þannig urðu til auðæfi sem voru í raun ekkert, nema loftið tómt.

Ég held að fátt eða ekkert geti orðið barni eins mikilvægt, stuðlað eins vel að farsælli framtíð, og veganesti eins og það sem sr. Matthías lýsir í  ljóðinu.  Það er því sérstaklega mikilvægt að börnunum sé gefið það veganesti sem kærleiksrík trú getur veitt.

Þess vegna er það einmitt svo mikilvægt að kirkjan hér í bæ skuli njóta þess mikla stuðnings sem raun ber vitni af hálfu bæjaryfirvalda.  Það verður seint ofþakkað.  Öflugt æskulýðsstarf og náið samstarf við skólana er gríðarlega mikilvægt fyrir framtíð barnanna okkar.

Ég leyfði mér áðan að vitna í prédíkun föður míns frá því fyrir tæpri hálfri öld.  Ég vil einnig leyfa mér að slá aðeins á léttari strengi og vitna í örsögu úr kennslubók eftir móður mína, Önnu Bjarnadóttur:  – Trúboði var í heimsókn í skólanum og hafði sagt börnunum frá Himnaríki og dásemdum þess.  Hann sagði síðan:  „Réttið upp hönd sem viljið fara til Himnaríkis.“ Allir réttu upp hönd nema Jói litli.  „Vilt þú ekki fara til Himnaríkis, Jói minn?“ sagði trúboðinn.  „Jú“ sagði Jói, „en ekki strax“.

Þjóðkirkjan hefur undanfarið þurft að verjast árásum úr ýmsum áttum og oft virðist umræða um hana byggð á lítilli þekkingu. Til dæmis heyrði ég um daginn á umræðu spekinga í útvarpinu þar sem rætt var um það að þjóðkirkjan hafi ekki neina kennitölu - og virtist sá er því hélt fram líta á það sem galla.  Að vísu hafi Biskpupsstofa kennitölu en ekki þjóðkirkjan.  Þetta kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, því þjóðkirkjan hefur svo margar kennitölur að ég veit satt að segja ekki hversu margar þær eru, en líklega eru þær jafn margar og sóknirnar í landinu.  Hver þeirra er jú sjálfstæð eining með eigin fjárhag og kennitölu.  Reyndar eru þær kannski miklu fleiri en það, því þjóðkirkjan er ekki einungis söfnuðirnir í landinu heldur við sem erum hvert og eitt hluti af henni.

Á tímum þar sem öfgar og ofstæki eiga víða leikinn, svo gripið sé til samlíkingar við skák, er sannarlega þörf fyrir þann klett sem Þjóðkirkjan er.

Hennar aðalsmerki eru hófsemi, víðsýni, umburðarlyndi og virðing fyrir trú og skoðunum annarra - allt í nafni kærleikans.

90. Sálmur Davíðs hefst á þessum orðum:

Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.........

Kristin trú hefur verið kjarni íslenskrar menningar í meira en þúsund ár og þjóðkirkjan er sá klettur sem þjóðin hlýtur að byggja á um langa framtíð.

Megi góður Guð vaka yfir framtíð kirkjunnar okkar, bæjarfélagsins og landsins alls. Megi friður og farsæld einkenna árið sem nú er hafið, bæði hér á landi og annars staðar.

Góðar stundir.