Prédikun frá 20.01.2013 eftir sr. Kristján Val Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti.

Ummyndun
Predikun í Seltjarnarneskirkju 20.janúar 2013
 
Bænin
Drottinn Jesús Kristur,
send ljóma dýrðar þinnar í hjörtu okkar
svo að við getum borið vitni um ljós þitt
í miðju myrkri þessa heims.
Því að þú lifir og ríkir
með föður og anda
og hefur á öllu vald
til eilífðar.

Guðspjallið
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.
Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mark 9.2-9)


Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kæri Seltjarnarneskirkjusöfnuður.
Fyrst af öllu vil ég þakka ykkur og sóknarprestinum fyrir að bjóða mér hingað í dag. Mér er sýndur með því meiri heiður en ég á að venjast og alveg örugglega meiri en ég á skilið. Ég verð eiginlega dálítið vandræðalegur við það eitt að hugsa um það. Kærar þakkir  fyrir að auka gleði mína yfir lífinu.

Við höfum heyrt frásögn guðspjallsins  af ummynduninni á fjallinu. En þessi síðasti sunnudagur eftir þrettánda er ekki aðeins ummyndunarsunnudagur, heldur  einnig bænadagur á vetri. Það verður alltaf þegar sunnudagar eru svo fáir að 4. sd. eftir þrettánda  fellur niður, en það er dagurinn þegar við heyrum frásögnina um það þegar Jesús kyrrir vind og sjó. Sá sunnudagur er, þegar hann er haldinn, ekki löngu fyrr en vetrarvertíð hófst eða hefst, þann 3. febrúar.
Guðspjallið á þeim degi sem segir frá því að Jesús var með í bátnum og svaf reyndar þótt ókyrrð væri, og reis ekki upp og hastaði á vindinn og öldurnarnar fyrr en ótti lærisveinanna vakti hann, var og er gott nesti fyrir piltana sem voru að búa sig undir að fara á vertíð, meðan það var enn fast og almennt hugtak.  Þeir bjuggu sig undir að halda til til móts við ógnir hafsins, og á árum áður sérstaklega, vel vitandi um að ekki var ólíklegt  einhver þeirra kæmi ekki heim aftur. Piltar komu margir af Norðurlandi og Suðurlandi hingað á þessar slóðir. Þeir voru sendir til að draga björg í bú, eða þeir komu af eigin hvötum til að brauðfæða sitt fólk.
Meðan trúin var enn meir en nú ríkjandi þáttur í lífsviðhorfum fólks í þessu landi  var í hugarheimi sjómannanna sú vissa  að Jesú myndi koma á móti þeim og bjarga þeim í háskanum,  annað hvort til hafnar  eða inn í himinn sinn. Það staðfesti guðspjall bænadags á vetri.

Jóhann, faðir langömmu minnar kom norðan úr Húnavatnssýslu laust fyrir miðja nítjándu öldina, bláfátækur með konu og barn, til að róa til fiskjar héðan frá nesinu. Svo varð hann bóndi fáein ár að Bollagörðum þar sem langamma mín kom í heiminn. Ég á sem sagt ættir að rekja hingað á Seltjarnarnesið og er stoltur af því, enda hélt ég lengi  að ég væri ekkert nema eyfirskur þingeyingur. 
Annars er þessi kafli sögunnar sorgarsaga. Fólkið mitt flutti norður í Eyjafjörð og Jóhann þessi féll frá tæplega fertugur, og langamma mín dó rúmlega þrítug frá tveim ungum börnum. Afi minn var þá þriggja ára. Tólf ára varð hann munaðarlaus þegar faðir hans drukknaði í sjóróðri á Eyjafirði.

Á öllum öldum hefur fólk sagt frammi fyrir hörmungunum eins og Job: (1.21) Drottinn gaf og  Drottinn tók. Lofað veri nafn Drottins, eða það hefur sagt: Það er enginn Guð. Bara góður maður á fjalli og lítið barn í jötu.
sr. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason langafi séra Maríu konu prestsins ykkar, séra Bjarna, missti konu sína og tvær dætur þegar bíll sem þau voru í fór ofan í Tungufljót og þær drukknuðu. Sigurbjörn var spurður: Hvar var Drottin?  „Drottinn var í djúpinu,“ svaraði hann.

Í sálmum Davíðs segir: (42.8)
Eitt djúpið kallar á annað
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

Frásögnin um ummyndunina á fjallinu kallast á við frásögnina um skírn Jesú. Með sama hætti í bæði skiptin opnast himininn og rödd Guðs kveður við: Þessi er minn elskaði sonur, …
Í mynd guðspjallsins um skírn Jesú sjáum við hann þar sem hann stendur ofan í vatninu og himininn er opinn yfir honum. Hann er mitt á milli djúpsins fyrir neðan og djúpsins fyrir ofan.  Í því, þar, á því augnabliki, sjáum við ekki aðeins hann, heldur ímynd mannsins yfirleitt.  Mynd okkar sjálfra.

Við stöndum sérhvern dag á mærum leyndardómsins  fyrir neðan sem ógnar okkur með  hættu og dauða og  leyndardómsins fyrir ofan sem vill og mun  opnast og láta yfir okkur streyma kraft sem er ekki okkar,  er við tökum okkur stöðu við hlið Drottins.

Við getum ekki forðað okkur undan valdi dauðans og við ráðum því ekki hvernig eða hvenær himininn opnast yfir okkur svo að við megum þiggja blessunina að ofan.
En í skírn Jesú megum við sjá að í manninum Jesú frá Nasaret mætist hæð og dýpt. Þar sameinast ríki dauðans og eyðingarinnar og ríki himinsins og eilífðarinnar.  Múrinn milli lífs og dauða rofnar og himinn og jörð verða eitt í honum sem við nefnum manns son og Guðs son.
Þetta er  birting Guðs dýrðar.  Að yfir okkur sem höfum djúpið með ógn sína undir okkur, opnast leyndardómur djúpsins fyrir ofan okkur og yfir okkur streymir ekki vatnsflóð dauðans heldur kraftur himinsins.

Austurkirkjan, eða rétttrúnaðarkirkjan kennir að í ummyndun Krists hafi allur heimurinn ummyndast. Þess vegna er heimurinn aldrei fjarri Kristi eða andstæður honum. Allt vatn á jörðu helgaðist í skírn Jesú Krists. Allt land, allt sköpunaverkið helgaðist í ummyndun hans á fjallinu.

Við heyrum í guðspjallinu orðin: ... er þeir litu í kring sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.
Hvað merkir það? Að sjá Jesú. Hvað er það? Að sjá Jesú einan er trúararreysla sem sest að í skilningnum. Að sjá Jesú er að öðlast þekkingu á honum. Postulinn Páll orðar það með þessum hætti:
Því að Guð sem sagði: Ljós skal skína fram úr myrkri!, hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists. 2.Kor. 4.6

Á sunnudegi ummyndunarinnar og fyrirbænarinnar fyrir vetrinum og vetrarvertíðinni, þá heyrum við frásögn af því þegar lærisveinarnir þrír fengu að sjá það sem dauðleg augu annars sjá ekki.
Að sjá Jesú er að sjá hið eilífa. Að sjá Jesú er reynsla skilningarvitanna og skynseminnar og trúarinnar og er algjörlega óháð hinni venjulegu sjón. Hinn blindi sér Jesú, jafnt sem hinn sjáandi.
Að sjá hann er eins og að sjá ljós í myrkri. Að sjá myrkrið ljóma og dimmuna breytast í birtu líkt og þegar morgunn rís úr skammdegisnóttinni. Það er ljós sem líka er þekking.

Ljósið þitt sé ég með luktum augum
ljósið þitt Jesú, ert þú.

Kæri söfnuður.
Hvað var það sem þeir þrír sem voru með Kristi á fjallinu sáu ?  Guðspjallið segir: Hann ummyndaðist fyrir augum þeirra, þeir féllu fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.
Er þeir líta upp sjá þeir ekki aðeins Jesú heldur einnig Móse og Elía. Við heyrum í guðspjöllunum að spurt er hvort Jesús sé ef til vill Móse eða Elía endurborinn. Þetta er svar við því. Það er hann ekki. Hann er fyrri en allt sem er.

En þessi sýn kveikir spurningu hjá postulanum Pétri. Hann segir: Hér er gott að vera, eigum við ekki að byggja hér tjaldbúð?  Þetta er atburður á mærum himins og jarðar, hins himneska og jarðneska. Pétur skilur hann jarðneskum skilningi. Við skynjum hið himneska með jarðneskum hætti.

Hvað merkir orðið ummyndun?
Hinir fornu kirkjufeður gáfu skýringu á því. Þeir sögðu: Ummyndun er ekki efnisbreyting heldur formbreyting. Kristur er hinn sami en hann tekur á sig aðra mynd.
Fyrir okkur sem neytum brauðs og víns í helgu sakramenti líkama og blóðs Jesú Krists gildir hið sama. Við höfum tekið í arf kenninguna um að það sé áfram brauð og vín en beri í sér kraft hins upprisna Drottins og nálægð hans. Í brauði og víni, með því og undir því. Hliðstætt gildir um skírnina. Við verðum Krists, við verðum börn Guðs í skírninni. Við erum hin sömu, en samt er til þess ætlast að náunginn geti séð Krist í því sem við erum og gerum.

Kæri söfnuður.
Ummyndunarsunnudagurinn er á mörkum jólatímans og föstutímans. Sunnudagarnir eftir jól og þrettánda hafa þá meginhugsun að sýna fram á að Jesús er Guð. Allur kraftur Guðs er í honum. Honum er falið allt vald á himni og á jörð.

Af samhengi guðspjallsins í dag verður ljóst að undanfari þess sem hér er sagt frá er að Jesús hafði kunngjört lærisveinunum að hann myndi fara upp til Jerúsalem til þess að þjást þar og deyja. Þetta voru þeim skelfileg tíðindi. Þegar kemur að þeim atburðinum á fjallinu sem sem sagt er frá í dag höfðu lærisveinarnir glímt í sex daga við efa og áhyggjur. Í dag kemur svarið.

Jesús tekur þrjá með sér á fjallið. Það eru þeir sömu þrír og fóru með honum þegar hann vakti upp tólf ára dóttur Jairusar. Hina sömu mun hann svo taka með sér  þegar hann biðst fyrir í Getsemane. Við sjáum af þessu að þetta eru þeir sem eru í innsta hring lærisveinanna. Aðeins þeim er á fjalli ummyndunarinnar sýnt innihald og kjarni opinberunarinnar um að Kristur eigi að líða og deyja. Það sem þeir sjá á fjallinu er að
andspænis dauðanum skín í gegn um jarðneskan líkama Jesú, dýrð hins himneska líkama sem Kristur mun fá í upprisunni.
Hið komandi, það sem verður, það er. Það er þegar orðið. Það kemur og styrkir þjón Guðs á vegi hlýðninnar til dauða. Til hliðar við hann stíga fram Móse og Elía eins og vottar hinna síðustu tíma (Opb. 11.3 -14) og þeir tala við Jesú, samkvæmt Lúkasi (9.31) um brottför hans sem hann skyldi fullna í Jerúsalem.

Ljósið sem skín frá andliti og líkama Krists er dýrðin sem verður sýnileg hinum líðandi þjóni og geislinn sem í upprisu hans varpar birtu á allt líf hans. Þess vegna mega lærisveinarnir ekki segja frá þessu fyrr en hann er upprisinn.

Í myndlist kristinnar kirkju er að finna eins og í listum yfirleitt, leiðir til að segja hið ósegjanlega. Einkum í myndlist austurkirkjunnar, íkonografíunni sem svo er kölluð, er táknið um hinn himneska veruleika, möndlulaga form: Mandorla. Ummyndunin á fjallinu er þar sett í slíka möndlu. Hún segir þeim sem sér: Hér sérðu inn í himininn. Kristur kemur til þín frá himni til jarðar. Hér er tákn um það. En þessi sýn hefur tvær víddir. Þú sérð inn í himininn. Himinninn horfir á þig.

Með sama hætti má skilja tákn vatns í skírn og brauðs og víns í kvöldmáltíðinni. Hinn himneski veruleiki verður jarðneskur veruleiki. Okkur er það gefið að mega sjá það. Og mörg okkar hafa  í óvæntum aðstæðum lífs og sálar reynt einmitt það, þegar það birtist sem annars ekki sést. Kristur birtist. Orð hans lýkst upp. Huldar dyr opnast.

Kæri söfnuður.
Dýrð Guðs er hér. Nú og hér.  Hún umlykur okkur öll í því skyni að við megum ummyndast sjálf meir og meir til myndar Krists á jörðu, uns við fáum að líta hann augliti til auglitis í dýrð himinsins.
Skref fyrir skref stígum við þangað. Í skírninni, í trúnni og trúariðkuninni. Í bæninni, í lestri og íhugun Guðs orðs, og í breytninni. Í vængjaðri göngu fullvissunnar og í eyðimerkurgöngu efans. Fallin til jarðar, og uppreist að nýju. Með Jesú einan fyrir augum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.