Hugvekja frá 03.02.2013 eftir Svönu Helen Björnsdóttur

Hugvekja um Biblíuna
Flutt á Biblíudaginn 3.2.2013 í Seltjarnarneskirkju kl. 11.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Þannig heilsaði Páll postuli hinum nýstofnuðu kristnu söfnuðum fyrir tæpum 2000 árum síðan - og þannig heilsum við í kristnum söfnuðum enn þann dag í dag.
Í dag er Biblíudagurinn og í hugvekju minni mun ég tala um Biblíuna. Bók sem hefur fylgt mér frá æsku, bók sem hefur mótað líf mitt meira en flest annað, bók sem hefur verið mér vegvísir gegnum lífið, bók sem ég leita svara í, bók sem talar til mín á nýjan hátt í hvert skipti sem ég opna hana og les. Ef ég ætti að taka með mér eina bók á eyðieyju, þá tæki ég Biblíuna.
Biblían hefur verið kölluð Bók bókanna – Heilög Ritning – Orðið – Orð Guðs – Gamla Testamentið – Nýja testamentið. Allt eru þetta orð sem við eigum um Biblíuna.
Þó eru hvorki einstakar bækur Biblíunnar né ritningin í heild bókmenntaverk – í sjálfu sér. Biblían er samsafn bóka og frásagna. Hún kemur frá hjörtum lifandi fólks, fólki sem trúir á Guð. Hún lifir í hjörtum fólksins. Í Biblíunni er frásagnir byggðar á sögunni, sögulegum atburðum sem gerðust hér á jörðu. Í Biblíunni finnum við frásagnir af því hvernig Guð hefur stigið inn í hina raunverulegu sögu.
Sá sem les Biblíuna les um liðna atburði, um fortíðina. Við lestur Biblíunnar má víða finna snertifleti við samtímann og við getum reynt að heimfæra orð Biblíunnar upp á hann; en hún flytur þó ekki frásagnir inn í samtíma okkar.
Biblían er ekki sagnfræðirit og í frásögnum hennar er notað líkingamál sem tekur mið af þeim tíma þegar ritun fór fram. Ef rýna á í Biblíuna með sagnfræðilegum aðferðum er mikilvægt að hafa í huga að um er að ræða orð mennskra manna. Í orðum úr fortíðinni greinum við spurningu um þýðingu þeirra í samtímanum; rödd sem er æðri mannsröddinni ómar gegnum mennsk orð ritningarinnar. Einstakar bækur Biblíunnar beina okkur með einhverjum hætti að lifandi ferli sem gerir ritninguna að einni heild.
Vilji menn skilja ritninguna í þeim anda sem hún var skrifuð verður að taka tillit til innihalds og einingar í heild. Eining ritningarinnar er guðfræðileg staðreynd, henni hefur ekki verið þvingað utan frá á það sem í sjálfu sér er misleitt safn rita.
Þegar orð ná út fyrir andartakið sem þau eru sögð á, er hægt að tala um að þau beri í sér dýpri merkingu. Í ritum Biblíunnar finnum við slík orð – orð með dýpri merkingu. Við finnum boðskap sem hefur þroskast í sögu trúarinnar. Höfundur hvers rits, eða sá sem ritar frásögnina, er ekki aðeins að tala fyrir sjálfan sig. Höfundurinn talar frá sjónarhorni sameiginlegrar sögu sem nærir hann og felur í sér möguleika og sýn um næstu skref á vegferð lífsins.
Þetta ferli, að endurlesa í sífellu og finna nýja merkingu í orðum, hefði ekki verið – og væri ekki mögulegt – ef orðin sjálf hefðu ekki boðið upp á það.
Hér er komið að því sem kalla má innblástur. Höfundurinn talar ekki sem tiltekinn einstaklingur. Hann er hluti af lifandi samfélagi og hann segir frá sem hluti af framvindu sögunnar, sögu sem hvorki hann sem einstaklingur né samfélagið hefur skapað. Höfundurinn er leiddur áfram af æðri mætti. Orðin sem rituð eru hafa skírskotun og víddir sem ná út fyrir andartakið.
Í guðspjalli dagsins er Guðs ríki líkt við örsmátt mustarðskorn sem maður sáir í jörð. „Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“ Þannig er það sem orð Guðs, jafnvel örsmátt, lifnar við og verður - vonandi - að bragðmiklu og kraftmiklu orði í okkar hjörtum, í okkar lífi og í okkar verkum.
Ritningin kemur frá hjörtum lifandi fólks og finnur sér samsvörun í hjörtum annars lifandi fólks, mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð.
Höfundar Biblíunnar eru ekki sjálfstæðir rithöfundar í venjulegum skilningi þess orðs. Þeir eru hluti af hópi fólks sem við getum kallað þjóð Guðs. Þjóð Guðs, kirkjan, er þegn heilagrar ritningar. Það er í kirkjunni sem orð Biblíunnar eru alltaf lifandi. Þetta þýðir auðvitað að þjóðin verður að taka við sjálfsskilningi sínum frá Guði, frá hinum holdi klædda Kristi. Hún verður að láta hann gefa sér fyrirmæli, leiða sig og leiðbeina sér.
Markmið trúarbragða er a.m.k. tvíþætt. Annars vegar að svara spurningum um uppruna og hins vegar að svipta hulunni af framtíðinni, opna“glugga“ inn í framtíðina ef svo má að orði komast.
Í guðspjöllum Nýja Testamentisins opinberar Guð sig á nýjan hátt og ólíkan þvi sem er í Gamla Testamentinu. Hann stígur þar fram sem Jesú, sonur Guðs. Í formála Jóhannesarguðspjalls segir (Jóh. 1:18): „Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.“
Hvaðan kom boðskapur Jesú og hvernig getum við skýrt tilvist hans í sögunni?
Boðskapur Jesú er ekki afsprengi neins mannlegs lærdóms. Hann á sér rætur í nánum tengslum við Föðurinn. Bænir hans eru samtöl Sonarins við Föðurinn. Þeir tala saman „augliti til auglitis“. Boðskapur Jesú er boðskapur Sonarins og án hinna innri róta væri boðskapur hans hroki. Það er í Jesú sem kærleikur Guðs birtist.
Niðurlag
Af hverju les ég, sæmilega skynsamur verkfræðingur sem uppi er árið 2013, Biblíuna – 2000 ára gamalt ritsafn? Svar mitt er: Af því ég leita sannleikans. Fyrirheit Jesú í Jóhannesarguðspjalli (8:32) er að „sannleikurinn gerir mig frjálsa“.
Guð kristinnar trúar segir mér að vissulega finni ég bæði sannleik og veruleik í þessum heimi; í sérhverju náttúrulegu fyrirbæri. Þó finn ég þar ekki allan sannleikann, né heldur þann sem mestu varðar. Í einlægri leit að sannleik geng ég til móts við skaparann – og hann gengur til móts við mig.
Sá skapari sem kristin trú boðar elskar heiminn. Ekki aðeins manninn og mannheim, heldur alla sköpun sína. Í Jóhannesarguðspjalli 3:16 segir: „Orðið var hold“. Hið mennska hold er eins og annað hold, eins og annað líf á jörðinni. Þegar orð Guðs eða hugur verður hold, hold sem gengur í dauðann og sigrar dauðann, má segja að hin jarðneska tilvera sé helguð og blessuð á ný.
Hvað segir ekki í Jesaja: „Allt hold er gras - og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras. Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“
Sá Guð sem Biblían boðar er í senn skapari og lausnari heimsins. Hann tekur sér stöðu með manninum og allri veröldinni. Slíkan Guð er mér vitanlega ekki að finna í öðrum trúarbrögðum en kristinni trú. Sá sem trúir á slíkan Guð hefur forsendur til að líta öðrum augum á náttúruna en hinn sem ekki þekkir hann.
Sannleikshugtakið, bæði sem hugmynd um eðli veruleikans og sem siðferðileg krafa, á sér rætur í trúnni. Sá Guð sem Biblían greinir okkur frá er sannleikans Guð. Veröld hans og sköpun byggir sannleik sem við mennirnir reynum stöðugt að ráða í. Guð krefst þess að við lútum því einu sem er satt. Þessi kristnu grundvallarviðhorf  hafa átt sinn þátt í að móta þá afstöðu sem vestræn vísindi byggja á.
Albert Einstein (f.1879, d. 1955) komst svo að orði: „Vísindi skapa þeir menn einir sem eru gagnteknir af þrá eftir sannleik og skilningi. En þessi tilfinning er runnin af rótum trúarinnar. Ennfremur verða menn að trúa því að þau lögmál sem gilda um efnisheiminn séu á viti byggð, þ.e. að mannlegt vit geti náð tökum á þeim.“
Max Planck (f.1858, d.1947), höfundur eðlisfræðikenninga um skammtafræði, var einlægur og ákveðinn kristinn trúmaður. Hann skrifaði mikið um innbyrðis afstöðu trúar og vísinda, m.a. í ritinu Religion und Naturwissenschaft sem út kom í Þýskalandi 1937. Max Planck segir: „Í hvaða átt og hversu langt sem við horfum, finnum við ekki neina mótsögn milli trúar og náttúruvísinda, heldur fyllsta samræmi, og það einmitt í þeim atriðum sem sker úr: Trú og vísindi útiloka ekki hvort annað, eins og margir halda eða óttast nú á tímum, heldur byggja hvort á öðru og þurfa hvort á öðru að halda. Ef til vill er beinasta sönnunin fyrir því að trú og vísindi eiga samleið, sú sögulega staðreynd að mestu náttúruvísindamenn allra tíma, menn eins og Kepler, Newton og Leibnitz voru gagnmótaðir af djúpu trúarþeli.“
Ég vil enda þessa hugvekju með að taka undir orð Alberts Einstein, sem átti manna mestan þátt í að bylta heimsmynd okkar með vísindauppgötvunum sínum. Hann sagði: „Mín trú er fólgin í auðmjúkri lotningu fyrir þeim óendanlega háleita anda, sem birtist í þeim einföldu smámunum sem við getum numið með veikum og einföldum skynfærum okkar. Þessi djúpa sannfæring innstu kenndar um nánd æðsta, hugsandi máttar, sem opinberi sig í hinum óskiljanlega alheimi, er mín hugmynd um Guð.“
Megi orð Guðs bera ávöxt í hjörtum okkar allra.