Hugvekja frá 24.02.2013 eftir Elín Hirst

Kæru kirkjugestir. Til hamingju með upphaf Góu og konudaginn.


Það er mér mikil ánægja að koma hingað í kirkjuna mína á Seltjarnanesi og flytja þetta ávarp eða hugvekju. Ég ákvað strax að hafa þetta dálítið persónulegt. Mig langar nefnilega til að segja ykkur frá því hvernig mín barnatrú, sem var meira svona utanaðbókar lærdómur, breyttist í trú með meiri skilningi.
Þannig var að árið 1993, þegar ég var 33 ára gömul, dóu móðurafi minn Vilhjálmur G. Bjarnason stofnandi Kassagerðar Reykjavíkur og amma mín sem ég er skírð í höfuðið á Elín Kristjánsdóttir með nokkurra mánaða millibili. Afi var þó 12 árum eldri en amma, en það er svo mismunandi hvað líkamar okkar eru gerðir til að endast lengi hér á jörðinni.
Mamma hringdi í mig og bað mig um koma strax því amma væri að deyja. Hún var 81 ára og lá á öldurnardeild Landskotsspítla og var komin með alzheimer sjúkdóminn.
Sem betur fer hafði ég verið dugleg að heimsækja hana, en í daglega amstrinu gleymast oft þeir sem eru aldraðir og sjúkir þrátt fyrir að þeir séu nánir ættingjar okkar. Oft veigrum við okkur líka við því að fara og hitta fólk sem liggur á banabeðinu; okkur finnst erfitt að horfa upp á það veslast upp og við vitum ekki um hvað við eigum að tala, eða við eigum að segja við þá sem eru dauðvona.
Þegar ég kom á Landakot var amma nýdáinn. Hún lá friðsæl í hvítu líni í sjúkarúminu og kveikt hafði verið á kertum á náttborðinu. Börnin hennar fjögur voru hjá henni, auk þess sem okkur barnabörnin dreif nú að.
Við amma höfðum alltaf verið afar góðar vinkonur. Hún var einstaklega hlý og natin gagnvart mér sem barni og unglingi. Aldrei rifrildi eða vesen eins og unglingar upplifa gjarnan gagnvart foreldrum sínum, foreldrum sem gengur yfirleitt ekkert nema gott eitt til. En tengslin við ömmu voru einhvernvegin svo afslöppuð og góð.
Ég gleymi því aldrei að þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn og fékk flensu en þá kom amma í leigubíl heim til mín með mjólkurgraut í potti, en mjókurgrauturinn hennar var uppáhaldið mitt og það vissi hún. Þvílík góðmennska.
En aftur að haustinu 1993 þegar amma dó. Þegar ég kom inn á sjúkrastofuna brá mér mjög. Ég hafði aldrei sé framliðna manneskju fyrr. Því sló niður í huga mér eins og skot að þetta væri ekki amma. Amma var farin en eftir lá líkaminn sem var ekki hún, heldur bara einhverskonar hulstur utan um hana. Næstu daga og vikur vék þessi hugsun varla frá mér og ég skildi ekki samhengi hlutanna. Ég ákvað því að biðja Guð í einlægni um að segja mér hvað trú væri og hvað væri eiginlega á ferðinni þegar dauðan bæri að höndum.
Og ég fékk svar. Fljótlega fékk í hendur bók sem fjallaði um andlega málefni og útskýrði fyrir mér að líkami okkar væri bara farartæki og það væri forgengilegt. Sál okkar, hið raunverulega sjálf, væri hins vegar eilíf og færi úr líkamanum á annað stað við andlátið. Þetta hafði ég aldrei gert mér í hugarlund.
Allt í einu fannst mér ég skilja betur hvað trú væri. Ég hafði verið svo upptekin af hinu efnislega að ég gat ekki greint það sundur frá hinu andlega en nú fór ég að geta það. Ég fann hvernig mér hlýnaði um hjartarætur við að hafa fengið þennan skilning og var Guði afar þakklát og hann varð partur að minu lífi, ekki bara ,,faðir vors þula“, sem ég hafði lært í barnæsku og hélt að nægði að fara með til að þóknast Guði, heldur einhver sem ég gat talað við sem vin og leitað ráða hjá.
Reyndar tel ég að Guð vilji framkalla það besta í okkur öllum og sé tilbúinn að leiðbeina okkur, ef við bara leyfum honum að koma til okkar og vera hjá okkur. Gefum okkur rými til að hugsa til hans og tala við hann.
Hjá flestu nútímafólki ,,er nefnilega alltaf á tali“, ef svo má að orði komast. Við erum svo upptekin í hinum efnislega heimi. Ímyndið ykkur. Við hugsum tugi þúsunda hugsana á sólarhring, og ef við skoðum þær eru þær flestar ónauðsynlegar og til draga okkur niður. Ég hvet ykkur sem hér hlýðið á mig í dag að taka tíu mínútur, hálftíma eða klukkustund í dag og kortleggja hugsanir ykkar. Hver stór hluti af þeim er jákvæður og uppbyggilegur. Hve stór hluti er neikvæður gagnvart okkur sjálfum eða öðru fólki. Því miður bregður manni við þegar maður skoðar hug sinn með þessum hætti.
Ég hef reynt að leggja meiri rækt við hið andlega og tengslin við guð á síðustu árum, eins og áður segir. Ég bið Guð oft um það að leiðbeina mér um það hvernig ég geti þjónað honum með því að láta gott af mér leiða. Ég vona að ykkur finnist ég vera með eitthvað væmnistal, því ég tala beint frá hjartanu, en mér finnst Guð hafa svarað mér og fært mér ótal verkefni sem eru einmitt í þessu anda. Mér finnst ég líka fá ríkulega umbun.
Ég hef tekist á við ýmsar hindranir á vegi mínum t.d. í vinnunni, en ávallt finnst mér koma í ljós að Guð er að beina mér inn á nýjar brautir, þar sem ég get lagt meiri hönd á plóg.
Undanfarna mánuði hef ég tengst Seltjarnarnarneskirkju góðum böndum og er mjög ánægð með það kirkjustarfa sem hér fer fram undir forystu sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju og séra Bjarna Þórs Bjarnasonar.
.....
Tveggja ára sonardóttir mín er heilluð að af barnastarfinu í kirkjunni og hingað reynum við að koma sem oftast á sunnudagmorgnum. Eitt af því fyrst sem hún sagði þegar hún byrjaði að tala fyrir utan mamma og pabbi, var kirkja. Fyrst skildi ég slls ekki hvað barnið var að segja en svo allt í einu varð mér það ljóst þegar hún benti upp á Valhúshæðina þegar við ókum Norðurströndina einn daginn og sagði gigkja. Svo fór hún að syngja lög sem við höfðum heyrt í barnastarfinu, ,,Daginn í dag,, Ég er hermaður Guðs, og Djúp og breið. Hún er alveg heilluð af þessu starfi og það þykir mér gott. Auðvitað skilur hún ekki hvað hér fer fram en hún finnur hlýjuna og hvað er gott að vera í kirkjunni.
Ég er afar þakklát fyrir þá fyllingu sem trúin gefið mínu daglega lífi. Ein aðferðin sem ég nota er að til að reyna að tengjast guði er að iðka andlegt jóga, en jóga þýðir tenging við hið æðra og gengur út á það að ná fram þeirri friðsæld í huganum sem gerir honum kleift að tengjast Guði. Það er ekkert sem fullvissar mig um að þessi tenging eigi sér í raun stað nema mín eigin trú. Jóga er aðferð til að tengjast Guði og tilheyrir öllum trúarbrögðum. Þótt ég iðki jóga er ég kristin og trúi á boðskap hinnar lútersku evangelsísku kirkju, þjóðkirkju okkar Íslendinga.
Forfeður mínir voru mjög trúað fólk. Reyndar voru langafi og langamma mín í föðurætt, svolitlir uppreisnarseggir í trúmálum,á þeim tíma. Þau bjuggu í Vesturheimi lengivel og voru Unitarar og þegar þau fluttu til Íslands gengu þau í söfnuði séra Haraldar Níelssonar og voru miklir spíritistar eins og hann. Langafi minni vitjað síðan föður ömmu minnar, Þóru Mörtu Stefánsdóttur, eftir andlát sitt með óskjalfráði skrift og ég á mjög merkilegar heimildir um þessi bréf þar sem lífinu í öðrum heimi eftir dauðan er lýst mjög nákvæmlega.
Elín og Vilhjálmur, móðuramma mín og afi sem ég sagði ykkur frá í upphafi voru líka mikið kirkjufólk. Þeirra kirkja var Langholtskirkja; amma lét mjög til sín taka í kvenfélaginu og afi var lengi vel formaður byggingarnefndar en það tók þau langan tíma að safna fyrir Langholtskirkju og reisa hana og á meðan ég var að alast upp var alltaf messað í safnaðarheimilinu.
Sem sagt að mér stendur trúrækið fólk. Ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að slást í hópinn. Árið 1993 þegar amma dó, og ég var villuráfandi sauður gerðist eitthvað sem veitti mér þann skilning sem ég þarfnaðist til að upplifa það sem við köllum trú.
Takk kærlega fyrir.