Hugvekja frá 23.02.2014 eftir Yrsu Sigurðardóttur

Hugvekja Yrsu Sigurðardóttur, rithöfundar og verkfræðings, sem hún flutti á konu- og biblíudaginn 23. feb. 2014

Kæru kirkjugestir, Séra Bjarni.

Ég vil fá að byrja á því að óska viðstöddum konum til hamingju með daginn. Og karlmönnunum til hamingju með konurnar í lífi þeirra. Konudeginum skal fagna, við konur getum glaðst yfir því að vera konur, og karlmenn yfir samferðinni með okkur gegnum lífið. Dagurinn markar einnig upphaf Góu, daginn er tekið að lengja svo um munar og golan farin að hvísla loforði í köld eyru - þess efnis að vorið sé væntanlegt. Það er því ærin ástæða til þess að gleðjast.

Því ætla ég ekki að ræða nokkuð það sem neikvætt getur talist – til þess er þetta of góður dagur. Ég mun einblína eingöngu á hið jákvæða og sem betur fer er það nú þannig að af nógu er að taka.

Eitt af því sem gleður mitt hjarta er hversu vel lukkaðar ungar konur eru í dag. Þær eru réttsýnar, ákveðnar, hugrakkar, gáfaðar, ráðagóðar og stefnufastar og virðast ekki munu láta neitt stoppa sig í að sjá drauma sína rætast. Og án þess þó að glata hinu góða og milda í sjálfum sér. Með þeim sjáum við vonandi að baki þeirri leiðu tilhneigingu að kona verði að tileinka sér fas karlmanns til þess að ná langt. Þess á ekki að þurfa og virðast ungar konur nú til dags átta sig á því. Þær hafa allt til þess að bera til að takast á við lífið á sínum eigin forsendum.

Ég hef gott dæmi fyrir augum - unglingsdóttir mín fikrar sig hægt og rólega nær því að verða fullorðin manneskja. Einn dag í einu. Af umgengni við hana og vinkonur hennar verð ég að segja að þessi kynslóð stúlkna er mun betur heppnuð en mín eigin. Það skal ekki misskiljast sem svo að mín kynslóð hafi verið óalandi og óferjandi. Því fer fjarri. En við stóðum þessari nýju og efnilegu kynslóð stúlkna að baki. Heimur versnandi fer er nefnilega ekki lögmál. Samt er það svo að umræða um ungt fólk er oft á neikvæðu nótunum, allt það slæma dregið fram og það oftar en ekki blásið upp. Þau eru of mikið í tölvunni, lesa lítið, eyða of miklu, borða óhollt og þar fram eftir götunum. Neikvætt sjónarhorn á unglinga er til dæmis mjög áberandi í kringum fermingar, þá stökkva ávallt einhverjir fullorðnir fram á völlinn og halda því fram að unglingarnir séu eingöngu að þessu vegna gjafanna. Sama fólk heldur svo upp á jól þegjandi og hljóðalaust, gefur og þiggur gjafir án þess að tengja hátíðarhöldin við græðgi.

En sú mynd sem vill birtast af unglingum í fjölmiðlum blasir ekki við mér. Dóttir mín og vinkonur hennar halda þétt hópinn. Þær styðja hvor aðra þegar eitthvað bjátar á, þær sinna námi af samviskusemi og njóta almennt lífsins án þess að láta aðra segja sér hvernig því sé best viðkomið.

En ég ætla ekki að standa hér og láta eins og ég sé svona miklu betri uppalandi en mínir eigin foreldrar. Það væri hræsni af verstu sort. Við maðurinn minn höfum bara verið heppin, umhverfið er ef til vill barnvænna og dóttir okkar notið þess að hafa afa sína og ömmur til taks öll sín uppvaxtarár. Slík samskipti kynslóðanna verða seint ofmetin.

Annað sem hefur orðið til þess að móta ungar stúlkur á Seltjarnarnesi er frábært barna- og unglingastarf Gróttu. Það kennir krökkunum að erfiði skilar árangri, þau læra kammeraterí og þá skipulagningu og hæfileika til forgangsröðunar sem þarf að temja sér þegar dagskráin er þétt.

Þegar dóttir mín byrjaði í sex ára bekk fékk hún heim með sér miða sem tilkynnti að nú væri handboltastarf vetrarins að hefjast. Auglýst var eftir stelpum í liðið. Á miðanum stóð að starfið yrði afar skemmtilegt og að haldin yrði pizzuveisla og bingókvöld. Dóttir mín vildi ólm skrá sig og ég tel mig muna það rétt að hver einasta stúlka í bekknum hafi einnig gert það. Það kom raunar smá bakslag í íþróttaáhugann þegar hún hafði mætt á þrjár æfingar - en þá kom hún heim og sagðist vilja hætta. Þegar ég gekk á hana og spurði hversvegna sagði hún mér að þetta væri hálfgert svindl, það væru aldrei neinar pizzur og ekkert bingó. En úr þeim misskilningi var greitt og hún hélt áfram að mæta.

Eftir að hafa æft handbolta í tæp tíu ár skipti hún yfir í fótbolta. Stelpuliðið var nýtt og flestar óvanar að sparka í bolta. Eftir fyrsta keppnisleik liðsins kom dóttir mín heim og ég spurði hvernig hefði gengið. Bara vel var svarið. Við töpuðum tíu núll. Þessum heldur mikla ósigri, undanfari margra áþekkra þetta fyrsta ár, tóku stúlkurnar með jafnaðargeði. Aðalatriðið var raunverulega ekki að vinna heldur að vera með. Þess ber að geta að vegur þeirra óx fyrir tilstilli mikillar eljusemi og þær enduðu með að standa jafnfætis öðrum liðum, vinna og tapa á víxl.

Framtíðin er þessara ungu stúlkna og kynsystra þeirra um allt land. Framtíðin er einnig ungu drengjanna sem hafa vaxið úr grasi þeim við hlið. Ég held að við höfum engu að kvíða.

En dagurinn í dag er einnig dagur Biblíunnar. Í fyrstu leist mér síður en svo á að fjalla um þetta tvennt í eina og sama ræðustúfnum. Konur eru ekki beinlínis áberandi í Biblíunni, af þeim tvöþúsund og sexhundruð nafngreindu manneskjum í textum hennar eru einungis eitthundrað og áttatíu konur. En ef betur er skoðað kemst maður að því að þótt þær fari lágt þá eru þær í það minnsta settar fram sem manneskjur. Konurnar í biblíunni eru nefnilega gæddar öllum sömu manneskjulegu eiginleikum og mennirnir, þær gera rétt og þær gera mistök. Þær eru góðar og þær eru vondar. Sama konan getur sýnt báða þessa eiginleika. Eins og gengur og gerist. Þýsk-ameríska fræðikonan Edith Hamilton sem uppi var á síðustu öld og sérhæfði sig í klassískum textum, taldi til að mynda Biblíuna einu bók veraldar sem rituð var fyrir 20. öldina sem áleit konur manneskjur, hvorki betri né verri en karlmenn. Sem telst nú hitta naglann nokkuð vel á höfuðið.

Ef horft er eingöngu til Nýja testamentisins er afar áberandi að Jesú leit á konur sem jafningja, á pari við menn. Þar finnst ekki eitt tilvik þar sem hann gerir lítið úr konu, smánar konu, skammar konu eða umgengst þær sem þær væru einvíð staðalímynd. Það er afar, afar merkilegt í ljósi þess hver staða kvenna var fyrir rúmum tvöþúsund árum. Mannkynssagan væri án efa fallegri og mildari ef fleiri hefðu farið að hans fordæmi í framhaldinu.

En ég lýk þessu með því að óska öllum viðstöddum aftur til hamingju með konudaginn – og biblíudaginn. Ég skil ykkur svo eftir með stutt viskubrot varðandi konur og menn/ ketti og hunda sem ég hef lengi haldið upp á. Nefnilega: Konur og kettir gera það sem þeim sýnist. Hundar og menn ættu að slaka á og sætta sig við það.

Takk fyrir mig.

Yrsa