Hugvekja frá 02.03.2014 eftir Davíð B. Gíslason

Hugleiðing í Gróttumessu, 2. mars 2014

Eftir Davíð B. Gíslason

 

Góðan daginn og gleðilegan mottumars. Fyrir þá sem vita það ekki þá heiti ég Davíð og er Gróttumaður, eins og séra Bjarni, og vonandi flestir hér í kirkjunni í dag.

Ég hef verið svo heppinn í gegnum tíðina að fá að taka þátt í mörgum af þeim möguleikum sem í boði er fyrir okkur hér á Seltjarnarnesi, oftast þó tengt Gróttu. Það er hægt að tala í allan dag um kosti og gæði Seltjarnarness en eitt af því sem mestu máli skiptir er tengsl og samstarf Gróttu við bæinn og þar með talið til dæmis við skólana og kirkjuna.

 

Við hjónin höfum nær alla tíð búið hér á Seltjarnarnesi og því er Nesið samofið okkur. Foreldrar okkar beggja bjuggu hér á Nesinu, mínir reyndar ennþá auk þess sem bæði amma mín, amma Magga og afi minn, afi Benni, búa á Skólabrautinni. Tengdaforeldrar mínir eru stutt frá þó þau hafi farið yfir borgarmörkin, eftir rúmlega 35 ára búsetu á Nesinu.

 

Við hjónin kynntumst á göngum Valhúsaskóla og á handboltaæfingum hjá Gróttu, höfum búið hér mestan hluta ævinnar og krakkarnir okkar fjórir eru öll að æfa handbolta í Gróttu, Eva Björk og Þorgeir Bjarki nú með meistaraflokkunum og Anna Lára og Benedikt Arnar í yngri flokkunum. Benedikt er svo líka í fótboltanum eins og hin hafa öll verið.

 

Ég byrjaði að æfa handbolta þegar ég flutti á Nesið 12 ára gamall. Það þykir mjög seint nú á dögum. Ég var kominn í meistaraflokk 15 ára og lék með Gróttu yfir fertugsaldurinn fyrir utan tvö ár þegar ég lék með einu Reykjarvíkurliði. Ég hef einnig tekið þátt í öðru starfi með Gróttu, var í stjórn Gróttu KR á sínum tíma, hef verið þjálfari hjá yngri flokkum félagsins, verið fararstjóri yngri flokka í ótal ferðum innanlands og erlendis, bæði í knattspyrnu og handbolta. Ég hef dæmt óteljandi leiki fyrir Gróttu og HSÍ og er núna í stjórn handknattleiksdeildarinnar. 

Það verður einfaldlega að viðurkenna að mér finnst þetta alltaf jafn gaman og líður kannski best upp í íþróttahúsi eða á ferðalagi með hóp á vegum Gróttu. Stemmningin sem myndast í góðum hópi félaga, upplifa sigra og ósigra, fagna og skemmta sér er alltaf góð.

Í gegnum Gróttu hef ég myndað bestu og sterkustu vinabönd mín og hef verið svo heppinn að fá að taka þátt í gegnum börnin mín og fylgjast með þeim þroskast í Gróttu með sínum vinum. Ég hef náð að kynnast jafnöldrum krakkanna minna mun betur en ég ella hefði haft tækifæri til og það hefur gefið mér mikið persónulega.

 

Við hjónin keppumst að því að sjá alla þá leiki sem krakkarnir okkar spila. Auðvitað getur það verið strembið þar sem þau eru og hafa verið oft á mörgum vígstöðvum jafnvel í einu og helgarnar stundum þéttskipaðar með nokkra leiki sama daginn en eins og ég sagði áðan þá finnst okkur ekkert skemmtilegra en að vera  með þeim í íþróttahúsum og fylgjast með þeim á vegum Gróttu. 

En hvernig er hægt að samrýma þetta allt saman, vinna, fjölskylda og íþróttatómstundirnar í Gróttu og hvaða þýðingu hefur þetta allt saman? Væri ekki betra að minnka þetta eitthvað og gefa sér meiri tíma í hvíld, lærdóm, vinnu eða bara taka því rólega?

 Þetta eru allt eðlilegar spurningar og vangaveltur og klárlega er enginn einn sannleikur í því en það eru ýmsir þættir sem skipta máli í þessu sambandi.

Ég held að ég verði að byrja á því að nefna þessa frábæru aðstöðu sem við höfum á Nesinu. Við njótum alls sem við viljum með nálægðinni við höfuðborgina en um leið er Nesið ekki stærra en það að við þekkjumst flest, sem gerir allt samstarf nánara. 

Nálægðin og smæðin hafa fleiri kosti. Það að krakkarnir okkar geti farið beint úr skólanum á æfingu hjá Gróttu, án þess að  svo mikið sem fara yfir götu, eru forréttindi sem  ekki allir búa við. Það er gott fyrir krakkana að vera með skipulagt verkefni eftir skólatíma og eykur það líkur og tækifæri þeirra til hreyfingar, sem veitir ekki af á þessum tölvutímum sem við lifum á. Við á Nesinu erum þannig laus við að þurfa daglega að skutla krökkunum sínum á æfingar eða á milli staða, eins og tíðkast í sumum nágrannasveitarfélögum, og slíkt getur haft áhrif á möguleika þeirra til þátttöku í íþróttum.

Þessu til viðbótar hefur samstarf Gróttu og skólanna verið til fyrirmyndar og til eftirbreytni fyrir önnur sveitarfélög þar sem leitast er við að gefa öllum kost á þessum tengingum skóla við íþróttir og að gefa krökkum tækifæri að taka þátt í fleiri en einni íþróttagrein án þess að þær skarist.

Ég hef mikla trú á því að við eigum að reyna allt sem við getum til að halda krökkunum í íþróttum sem allra lengst og held að þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi sé til að mynda ein besta forvörn sem hugsast getur.

Í íþróttastarfi snýst mikið um heilbrigða lífshætti og hreyfingu, hvatt er til rétts mataræðis og annað sem við viljum leggja áherslu á.  Hópeflið og samstarfið í slíku starfi skapar vinskap til framtíðar og þær skemmtanir sem fylgja slíku starfi eru oftast hófstilltari en utan þeirra þar sem félagar ná því besta út úr félagsskapnum innan þeirra marka sem hópurinn og félagið setur sér.  Á unglingsárunum getur skipt sköpum að eiga sterkan og góðan vinahóp þegar tækifærin aukast til muna.

En þá gæti einhver spurt: eru ekki þessar endalausu æfingar að taka alltof mikinn tíma t.d. frá lærdómnum?

Auðvitað er það einstaklingsbundið en ég tel að skipulagt íþróttastarf þroski einstaklinginn og æfi hann líka í að skipuleggja sig og nýta tímann. Ég held að allir séu sammála því að það engum hollt að eyða of miklum samfelldum tíma í heimalærdóm án þess að hreinsa hugann og hvað er betra en að fá útrás á æfingu eða leik þegar þú ert í prófum?

 

Auðvitað þurfa að vera einhver takmörk og þegar álagið er mikið í skólanum þá getur æfinga- eða keppnisálagið einnig verið mikið og þá reynir á börnin. Þarna þurfum við að hjálpa krökkunum að forgangsraða og nýta tímann og skipuleggja sig, en þetta er hægt, það eru endalausar sannanir fyrir því. Ég man meira að segja eftir því að hafa hlaupið fyrr úr prófi í lagadeildinni til að fara í leik þar sem ég kom beint í upphitun......man samt ekki hvernig leikurinn fór en ég féll alla vega ekki á prófinu, það man ég.

 En er þetta kannski allt bara tímaeyðsla? Hefur þetta einhverja þýðingu til framtíðar? Skiptir þetta einhverju máli því örfáir enda með íþróttina sem sitt ævistarf?

 Ég tel að þátttaka í hópíþróttum geti hjálpa fólki til framtíðar almennt. Þegar ég lít til kosta fólks sem sækir um vinnu hjá mér, þá lít ég til þátta eins og hvernig það starfar í hóp, hvernig það bregst við álagi og hvernig það nálgast krefjandi verkefni. Það er alveg ljóst að í íþróttum nær einstaklingurinn að þroska þessa þætti og geta slík smáatriði verið þau sem skipta máli og valda því að viðkomandi er valinn til starfsins umfram aðra, ef önnur starfsskilyrði eru sambærileg.

 Hópíþróttir krefjast þess að þú getir unnið með öðrum, brugðist við álagi, lagt þitt af mörkum og hjálpað öðrum til þess að ná markmiðum liðsins og þekkja hvernig það er að vera hluti af markmiði heildarinnar. Þetta eru allt atriði sem eru mjög mikilvæg í góðum starfsmönnum.

En þrátt fyrir alla þessa kosti íþrótta, sem ég hef talið upp hér, þá er ég ekki kominn að því sem ég tel mikilvægast og í raun grunninn að þessu öllu og ástæðuna fyrir því að við Brynhildur eyðum öllum okkar stundum í íþróttahúsum.

Fyrir utan hvað okkur finnst þetta skemmtilegt þá vitum við að í gegnum íþróttirnar og jú auðvitað skólann, eignast þú þína bestu vini, vini til framtíðar. Þetta eru aðilar sem þú leggur þig fram með, tekst á við áföll og sigra og vinnur úr erfiðleikum og ert með í blíðu og stríðu. Við viljum taka þátt í þessu með okkar krökkum og styðja við bakið á þeim.

 Í vetur hef ég komið oftar hér í Seltjarnarneskirkju en nokkur ár þar á undan, þökk sé fermingarundirbúningi Önnu Láru. Okkur Önnu Láru þykir báðum gott að koma í kirkjuna og eiga hér stund á sunnudögum auk þess sem Anna Lára hefur tekið þátt í félagsstarfinu í kirkjunni til viðbótar við fermingarfræðsluna sjálfa.

 Séra Bjarni nefnir oft að fólkið, sem hingað kemur og tekur þátt, sé hluti af því sérstaka samfélagi sem hér myndast á sunnudögum. Ég hef oft hugsað um þessa nálgun þar eð samfélagið, því hún er ekkert ólík því sem er í íþróttunum eða í fjölskyldum almennt. Við viljum öll vera hluti af liði og taka þátt í starfi af þessum toga og þegar við gerum það þá myndum við saman sérstakt samfélag eða sérstaka fjölskyldu.

 Af þessum ástæðum tel ég að Grótta sé hluti af minni stórfjölskyldu og því eru það forréttindi að fá að taka þátt í starfi Gróttu og tengjast þannig öllum þessum skemmtilegu og ólíku aðilum, börnum og fullorðnum sem leggja sitt af mörkum til að gera lífið skemmtilegra og fjölbreyttara. Vonandi gefast fleiri tækifæri til þess, enda eru þið öll frábær.

Áfram Grótta.