Prédikun frá 09.11.2014 eftir Sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup.

Predikun í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 9. nóvember 2014.

40 ára afmæli Seltjarnarnessafnaðar.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Ég þakka af alhug fyrir þær hlýju móttökur, sem ég fæ nú eins og ævinlega þegar ég kem í þessa kirkju þar sem ég þjónaði í 14 ár. Faðmlög og hlýjar kveðjur ylja afar mikið og það má segja að ég þekki nánast alla sem eru hér inni í dag nema fermingarbörnin af því að þau voru ekki fædd þegar ég fór héðan!

Ég vil óska söfnuðinum hér á Seltjarnarnesi hjartanlega til hamingju með 40 ára afmælið. 40 ár er sérstakt tímabil og hefur djúpa merkingu í Biblíunni. Í annarri Mósebók er talað um að Ísraelsþjóðin hafi etið manna í eyðimörkinni í 40 ár og í fimmtu Mósebók er talað um að Drottinn hafi verið með þjóðinni í eyðimörkinni í 40 ár og í sömu bók er sagt: “Ég leiddi ykkur um eyðimörkina í 40 ár.” Árin 40 virðast hafa enn dýpri merkingu í Gamla testamenntinu því að í síðari Samúelsbók er sagt að Davíð konungur hafi ríkt í 40 ár og í fyrri konungabók er sagt frá því að Salómon hafi verið konungur í 40 ár.

Talan 40 er merkileg og hefur líka táknræna merkingu í Nýja testamentinu. Jesús fastaði í 40 daga í eyðimörkinni og Jesús var sýnilegur lærisveinum sínum í 40 daga eftir upprisuna.

En 40 ár eru afstæður tími. Fyrir 40 árum var árið 1974. Þá vorum við Íslendingar að halda upp á 1100 ára afmæli Íslnadsbyggðar. Það var sól allt sumarið og mikil hátíðahöld víðs vegar um landið. Abba vann Eurovision með laginu Waterloo og ég var að byrja í 5. bekk í Menntaskólanum í Reykjavík. Á þessum árum var ég heimagangur hér á Seltjarnarnesi á Skólabraut 61 eins og það hét þá hjá Jóni Gunnlaugssyni lækni og konu hans Selmu Kaldalóns tónskáldi, en Jón var eins og fram hefur komið hér í dag í undirbúningsnefndinni um stofnun sérstakrar sóknar hér á Seltjarnarnesi ásamt Kristínu Friðbjranardóttur, sem er með okkur hér í dag og herra Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands.

Þau Jón og Selma höfðu mikil áhrif á mig á þessum árum og voru afar ráðagóð við okkur unga fólkið og má segja að þau hafi haft meiri áhrif á mig en nokkur annar fyrir utan foreldra mina.

Þetta haust árið 1974 gerðist atburður í lífi mínu sem breytti mér. Þann 29. september var fyrsta konan vígð prestur á Íslandi sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Þessi atburður hafði mikil áhrif á mig. Kona gat orðið prestur! Konur gátu gert allt! Ég fékk köllun!

Ég hafði tilheyrt Nessöfnuði frá því að ég fæddist, sótt þar barnastarf og fermingarfræðslu og Nessöfnuður sýndi mikinn skilning á því þegar Seltjarnarnessöfnuður var stofnaður. Þá þjónaði söfnuðinum sr. Frank M. Halldórsson, sem er hér með okkur í dag og sr. Jóhann Hlíðar hafði tekið við af sr. Jóni Thorarensen og síðar kom sr. Guðmundur Óskar Ólafsson til starfa þar.

Það er ekki fyrr en árið 1986 sem Seltirningar fengu sinn fyrsta prest, en það voru forréttindi að fá að vera fyrsti presturinn sem þjónaði hér við þennan nýstofnaða söfnuð. Fyrst vorum við hérna niðri í kjallaranum með allt safnaðarstarf. Þar voru tveir árgangar fermdir, þau sem voru fædd 1973 og 1974. Það var stórkostlegt að fá síðan alla kirkjuna í notkun árið 1989 fyrir 25 árum.

Hér er stórkostleg aðstaða fyrir safnaðarstarf, enda hefur alltaf verið öflugt safnaðarstarf hér. Sr. Sigurður Grétar, sem er hér með okkur í dag, tók við keflinu af mér og nú þjónar sr. Bjarni hér af miklum dug.

En til hvers þarf góða aðstöðu fyrir safnaðarstarf?

Til hvers þarf söfnuð?

Til hvers þarf svo veglega kirkju?

Svarið er í guðspjalli dagsins.

Guðspjall kristniboðsdagsins er skírnarskipunin eða kristniboðsskipunin, sem eru orð sem Jesús talaði til lærisveina sinna á uppstigningardag, 40 dögum eftir upprisuna. Guðspjöllin hafa að geyma margar fallegar frásagnir frá þessu tímabili, þessum 40 dögum. Ein er sagan um það þegar Jesús birtist Tómasi og leyfði honum að setja fingur sinn í naglaförin og síðusárið og Tómas bar upp fallegu trúarjátninguna: Drottinn minn og Guð minn.

Svo er það sagan sem gerist við Tíberíasvatn, þegar Jesús stendur á ströndinni og er að grilla fisk og brauð og svo er það loks sagan af því þegar hann birtist vinum sínum á uppstigningardag og felur þeim þetta mikla hlutverk að fara út um allan heim, skíra fólk og kenna því það sem hann hafði kennt þeim.

Þetta var fólk sem tók hlutverk sitt alvarlega. Þau fóru og sögðu öðrum frá, síðan sögðu þau öðrum frá og síðan hefur boðskapurinn um Jesú Krist borist frá einni kynslóð til annarrar allt til þessa dags, sem við vöknuðum til hér í morgun.

Það er vegna skírnarskipunarinnar sem kirkjan starfar. Kirkjan starfar til þess að koma boðskapnum um Jesú Krist áfram til næstu kynslóðar. Þess vegna skulum við kenna börnunum okkar að biðja, kenna þeim biblíusögur og kenna þeim að elska náungann.

Kirkjan hefur ef til vill aldrei borið jafnmikla ábyrgð og núna. Hún ein segir frá Jesú. Foreldrar kenna börnun sínum að biðja og kirkjan styður við þau í því mikla hlutverki með barna- og
æskulýðsstarfi og því er það mikilvægasta starf sem kirkjan vinnur. Kirkjan ber líka ábyrgð á kristniboði bæði hér heim og erlendis.

Hér á Seltjarnarnesi hefur verið sérstakur söfnuður í 40 ár. Hér hefur staðið vígð kirkja í 25 ár. Megi góður Guð blessa kirkjustarfið, allt starfsfólkið hér, sóknarprestinn og söfnuðinn um alla framtíð.

Hér er Guðs hús – hér er hlið himins. Komum öll hingað sem oftast til að njóta nærveru þess Guðs sem elskar okkur og boðar okkur kærleika. Í Jesú nafni Amen.