Ræða frá 18.01.2015 eftir Sigrúnu Eddu Jónsdóttur

Ræða Sigrúnar Eddu Jónsdóttur, formanns Soroptamistaklúbbs Seltjarnarness, sem hún flutti  sunnudaginn, 18. janúar 2015.

 

Góðir kirkjugestir - góðan dag á þessum fallega janúarmorgni í upphafi nýs árs þegar aðeins er farið að lengja daginn og birta.

Það er gott að hugsa til þess þegar nýtt ár er gengið í garð að það er að vissu leyti nýtt upphaf.  Hver áramót gefa manni færi á að hugleiða árið sem liðið er og hugsa til þess hvort það er eitthvað sem við viljum gera á annan hátt, hvort við viljum breyta jafnvel einhverju í fari okkar eða í því sem við erum að gera.  Það er sem betur fer alltaf tækifæri til við erum aldrei of sein að bæta okkur eða breyta af leið.  Mér finnst alltaf gott að staldra aðeins við um áramót og verð oft örlítið meyr þegar nýtt ár gengur í garð þegar ég horfi yfir hópinn, fjölskyldu og vini og hugsa til baka til ársins sem er að líða og jafnframt fram á við til ársins sem er að koma og hvað það muni bera í skauti sér.  Það er gott að fá nýtt upphaf - kannski viljum við engu breyta en flest höfum við líklega upplifað það að við höfum gert eitthvað sem við erum ekki alveg sátt við eða færst of mikið í fang og þá er tækifærið til að hugsa hvort að við viljum halda áfram á sömu braut eða hvort við viljum færa okkur yfir á aðra braut sem okkur hugnast betur.

Guðspjallið í dag fjallar um yfirtollheimtumanninn Sakkeus sem var nú ekki of vel séður þar sem hann var helst til gráðugur og rukkaði menn um háan skatt og var því ekki vinsæll meðal íbúa.  En Sakkeus langaði mikið að sjá Jesús en þar sem hann gekk um götur Jeríkó en þar sem hann var heldur lágvaxinn tók hann á það ráð að klifra upp í tré svo hann gæti betur séð Jesú.  Jesú tók eftir honum upp í tré og kallaði á hann til sín og sagði að í dag bæri honum að vera í húsi hans.  Aðrir sem til sáu tóku þessu allir  illa þar sem þeir töldu Sakkeus bersyndugan og ætti það ekki skilið.  Eftir að hafa rætt við Jesú tók Sakkeus þá ákvörðun að hann myndi breytast til betri vegar, vildi gefa helming eigna sinna til fátækra og vildi greiða öllum sem hann hafði tekið of mikið af ferfalt til baka og hét því að hann yrði sanngjarnari maður þaðan í frá. 

Þó að fólkinu hefði ekki fundist að Sakkeus ætti það skilið að Jesú kallaði á hann sá Jesu eitthvað í honum sem fékk hann til þess.  Það var ekki að ástæðulausu sem Jesú kallaði á hann, kannski var Sakkeus bara einmana maður sem hafði lokast inn í yfirtollheimtumanninum og  hélt að hann hefði enga aðra leið til að llifa lífinu.  Það var ekki víst að hann langaði til að vera illa séði skattheimtumaðurinn.  Kannski þurfti hann bara smá kærleika og athygli til að opna augun fyrir því hvernig hann var orðinn og um leið og hann sá það ákvað að hann að beyta sér og verða betri maður.

Þekkjum við ekki öll einhvern sem við höfum sett í flokk með Sakkeusi, einhvern sem er neikvæður og við teljum að sé ekki sanngjarn og við höfum ekki allt of miklar mætur á.  Gæti ekki verið að viðkomandi sé bara óöruggur og hann hafi sett upp grímu til að enginn sjái hversu óröggur hann er og  hversu illa viðkomandi líður.  Það gæti verið að það eina sem þyrfti til væri að gefa sig á tal við viðkomandi og veita honum athygli og sína áhuga á honum sem manneskju.  Ég hef lent  í því að hafa verið búin  að flokka einhvern í bás og talið að viðkomandi væri neikvæður og vildi ekki taka þátt í því sem væri að gerast í vinnunni, í vinahópnum eða í samfélaginu og ætlað algerlega að láta viðkomandi eiga sig.  En ákveðið svo að gefa mig á tal við viðkomandi og gefa honum tækifæri.  Ég hef þá iðulega komist að því að viðkomandi manneskja er allt öðru vísi en ég  var búin að ákveða og ástæðan fyrir neikvæðninni bara sú að það vantaði smá athygli  eða kærleika og við það eitt að sína smá umhyggju  breyttist  algerlega ásýnd og hugarfar.  Ég þekki þetta einnig í umgengni við vini mína að einhver vinkonan  er alveg þver og vill ekki taka þátt í  viðburði með okkur hinum, en ef maður gefur sér smá tíma til að hringja aðeins í vinkonuna og hlusta og sína henni áhuga getur viðmótið gerbreyst. Ástæðan var bara sú að henni fannst hún hafa gleymst, það var bara nóg að sína umhyggju.  Hefur maður ekki sjálfur verið í þessum sporum að verða aðeins þver og gerbreyst við að einhver sýndi manni áhuga.  Hver þekkir ekki það að barn neitar að vera með í leik en svo eingöngu með þvi að veita barninu athygli og spjalla þá gerbreytist allt og skömmu síðar er barnið miðpunkturinn í leiknum.  Við erum öll eins, við þurfum bara smá kærleika og athygli til að blómstra og njóta okkar.  Ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að Sakkeus var eins og hann var, hann vantaði smá kærleika og umhyggju til að breytast í betra mann.

 Soroptimistaklúbbur Seltjarnarness er hluti af alþjóðlegum samtökum Soroptimista  en nafnið útleggst á íslensku sem BJARTSÝNISSYSTUR.  Meginmarkmið samtakanna er að hvetja til aðgerða og skapa tækifæri til að breyta lífi kvenna og stúlkna, hvetja til jafnræðis og jafnréttis; skapa öruggt heilsusamlegt umhverfi; auka aðgengi að menntun; efla leiðtogahæfni og hagnýta þekkingu til sjálfbærrar framtíðar.

Meðal okkar verkefna í ár er að meðal annarss að styrkja Gæfuspor,  námskeið sem er ætlað að byggja upp konur sem lent hafa í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.   Við fengum til okkar  skjólstæðing af námskeiði Gæfuspora í heimsókn í haust sem sagði okkur frá átakanlegu lífi sínu þar sem hún hafði búið við ofbeldi frá 4 ára aldri á heimili sínu. Þar kristallaðist í frásögn þeirrar konu sem er nú á fertugsaldri og hafði búið við niðurlægingu og ofbeldi alla sína ævi, hvernig hún öðlaðist nýtt líf við það að komast á námskeið þar sem henni var sýndur áhugi, hún upplifði kærleika og að vera virt sem manneskja.  Þessi kona upplifði það í fyrsta sinn að einhver hlustaði á hana og virti skoðanir hennar. Hún hafði misst allt álit á sjálfri sér og sjálfsmyndin mjög brotin áður en hún tók þátt í námskeiðinu hjá Gæfusporum en þarna stóð þessi hugrakka kona fyrir framan stóran hóp kvenna og sagði sögu sína og hvernig hún hafði öðlast trú á sjálfa við það eitt að einhver hafði trú á henni og sýndi henni áhuga.  Hún lýsti því hvernig smátt og smátt hún fór að bera virðingu fyrir sjálfri sér og styrktist við hverja viku undir handleiðslu leiðbeinenda á námskeiðinu sem sýndu henni áhuga og athygli.  Við Soroptimistasystur sátum agndofa og hlustuðum og okkur fannst við þessa áhrifamiklu frásögn að við gætum komið að því að gera eitthvað gott og það er góð tilfinning.

Mig langar að þakka sr. Bjarna fyrir að bjóða okkur í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness að fá að taka þátt í messunni í dag, það er okkur sérstök ánægja að geta tekið þátt í þessu góða starfi sem fer fram í kirkjunni okkar.

En stöldrum við kæru kirkjugestir og gefum okkur tíma í annríki dagsins til að veita þeim sem eru í kringum okkur smá athygli, sínum þeim áhuga og kærleika, jafnvel þeim sem við þekkjum ekki neitt. 

Það getur skipt sköpum en reynir ekki mikið á.  Það er mikið til í því  að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. 

Ég vona að árið 2015 verði okkur öllum ánægjuríkt og farsælt.

Sigrún Edda Jónsdóttir

Formaður Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness