Ræða frá 01.03.2015 eftir Ragnar O. Rafnsson

Kæru gestir, 

 

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag,  á þessari fjórðu Gróttumessu.  Það er gaman að sjá hversu margir eru hér mættir og sérstaklega gaman að sjá hér hversu margir eru mættir merktir Gróttu.

Mér langar til að byrja á því að óska stelpunum okkar hjartanlega til hamingju með bikarmeistaratitilinn. Ótrúlega vel gert stelpur!

 

Gróttumessan er nú orðinn fastur liður í starfi beggja aðila. Mér finnst ákaflega merkilegt, hvað víð í ekki stærra samfélagi en Seltjarnarnesið, náum að mynda góð tengsl milli stofnana og félaga sem starfa á Nesinu.

Yfirbragðið hjá okkur í dag á að vera létt og fjölskylduvænt. Hér verða í dag ritningalestrar og bæn sem börn úr Gróttu sjá um, Barnakórinn Litlu snillingarnir syngja og verður Gróttulagið að sjálfsögðu flutt í lokin. 

 

En af hverju gróttumessa, af hverju að blanda saman trú og íþróttum, eru einhver tengsl?

Við sjáum það daglega í íþróttafréttum að menn signa sig fyrir leiki og þakka guði fyrir skoruð mörk.  Bæði kirkjan og íþróttafélagið eru lykil þættir í  samfélagslegu lífi okkur Seltirninga og dylst engum samfélagslegt hlutverk þeirra beggja. Að leiðabeina og móta börnin okkar og vera þeim ákveðin fyrirmynd. 

Starfið sem þjálfarar Gróttu og yfirþjálfari kirkjunnar Séra Bjarni er í raun ótrúlega  í keimlíkt. Þó svo að aðferðirnar sem þeir beita séu ekki alveg þær sömu og áskoranirnar mismunandi. T.d. er ég ekki viss um að Bjarni sé mikið að kljást við það að fóreldrar kalli til hans í miðri messu að hann ætti nú að gjöra svo vel að taka sig taki og gera betur. Eða að foreldrar komi til hans eftir messu eða hringi til hans kvöldið eftir messu: “ af hverju léstu ekki Jóa fara með ritninguna. Hann er langbesti upplesarinn í hópinum og þú lést hann bara sitja þarna á öðrum bekk!”

 

Um 90% allra barna á Seltjarnarnesi, láta ferma sig í kirkju og að sama skapi að þá er þáttaka þessara sömu barna einnig um 90 % í íþróttum hjá Gróttu. Ég vill meina að þessi mikla þáttaka barnanna á Seltjarnarnesi í íþróttastarfi og kirkjustarfi skili okkur þeim árangri sem náðst hefur í vímuvörnum og námi barnanna okkar. 

 

Með þeirri samfellu sem hefur skapast milli skóla, íþrótta og annara tómstunda ,sem skapast hefur með góðri samvinnu allra aðila í bæjarfélaginu, hefur myndast heilsteyptur dagur fyrir börnin okkar. Ég fullyrði að  fá, ef nokkur bæjarfélög á Íslandi þó víðar væri leitað, geta státað af jafngóðri og mikilli þáttöku barna í íþróttum og tómstundum.  Í þessu felst gríðarmikið forvarnarstarf sem verður seint metið til fjár. 

 

Það sem við lærum í íþróttastarfinu og í starfi kirkjunnar getum við nýtt okkur í okkar daglega lífi. 

En kæru gestir,  ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra.  Ég vona að við komum til með að eiga hér góða og fallega samverustund saman og eftir messuna býður sóknarnefndin okkur upp á kirkjukaffi og með því  inni í safnaðarheimilinu.

 

Takk fyrir.