Prédikun frá 22.03.2015 eftir sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur

Náð Guðs er með okkur. Mikið er gaman að vera hér og takk fyrir
að bjóða mér, séra Bjarni og góði söfnuður, og fyrir að
bjóða Kvennakirkjunni að halda hérna guðþjónustu sína á hverju
ári. Kirkjan vinnur í ýmsum hópum og á ýmsum sviðum og varpar
fram ýmsum spurningum. Núna erum við að hjálpast að við að svara
spurningum um þær margvíslegu trúarstefnur sem streyma um
þjóðfélag okkar. Við ætlum að tala um Maríu hérna í dag og
það gæti verið liður í samtalinu um sættir milli trúarstefna.
Þegar mótmælendakirkjan og rómverskkaþólska kirkjan tala um
hugsanlega sameiningu er það nefnilega afstaðan til Maríu og til
páfans sem greinir þær að. Kaþólska kirkjan lítur á Maríu sem
dýrling og segir að hún hafi bæði verið getin í syndleysi og
stigið upp til himna eins og Jesús. Lúterska kirkjan tekur það
víðs fjarri, hún hafi verið yndisleg manneskja og móðir Jesú og
það sé vissulega undursamlegt og nóg.

María fékk boðið um að verða móðir Guðs og hún tók því.
Hún vissi alltaf að Jesús drengurinn hennar var frelsari heimsins og
geymdi öll orðin um það í hjarta sínu. Hún ól hann upp í
Nasaret, sendi hann í skólann, þvoði litlu kinnarnar hans og kyssti
á sárin þegar hann meiddi sig og tók á móti honum og systkinum
hans og Jósef manninum sínum í fallega og góða málsverði. Hún
sá um að þeim liði vel. Hún hlustaði á Jesúm 12 ára gamlan í
musterinu og þegar hann byrjaði köllunarstarf sitt hvatti hún hann.
Hann vann fyrsta kraftaverk sitt af því að hún bað hann um það.
Þú manst hvar það var, í Kana, nálægt Nasaret og þau voru þar
bæði í brúðkaupi. Það var ekki nóg vín, það hefði eins
getað verið að það væri ekki nóg af kökum eða aðalréttinum.
Kannski komu fleiri en voru beint boðin, fólk mætti bara í fagnaði
þarna. María sá að það myndi varpa ævinlegum skugga á minningar
þessa unga fólks að það var ekki nóg af veitingum. En hún vissi
að Jesús sonur hennar gæti leyst þau undan skugganum, hún vissi
hver hann var, hún bað hann og hann brást við og gerði fyrsta
kraftaverkið.

Það stendur að hann hafi sagt: Hvað viltu mér, kona? Ætli hann
hafi virkilega verið svona hranalegur við hana mömmu sína? Nei,
áreiðanlega ekki, hvorki fyrr né síðar. Hann hefur sagt: Finnst
þér það, mamma mín? Þau tvö skildu hvort annað. Hún fylgdi
honum alltaf og vissi alltaf að hann var sá sem Ritningin sagði að
myndi koma. Hann var frelsari allrar veraldarinnar. Þegar hann fór að
lokum til Jerúsalem þar sem hann vissi að hann yrði krossfestur fór
hún með honum og þegar hann hékk á krossinum í hádagsins hita í
óbærilegri kvölinni leit hann niður til hennar og Jóhannesar vinar
síns og sagði: Nú skuluð þið taka hvort annað að ykkur. Þegar
hann var farinn til himna og kom í anda sínum í loftstofuna í
Jerúsalem á hvítasunnunni var hún þar og tók á móti kraftinum
sem hann gaf öllu fólkinu sínu til að bera fagnaðarerindið til
ystu endimarka jarðarinnar.

Það er talað um Maríu sem fyrimynd allra kvenna í hlýðni.
Fyrirmynd þess að konur eiga að vera hlýðnar, kærleiksríkar og
fórnfúsar svo að menn megi njóta sín og ráða yfir konum og
börnum. En þegar kvennaguðfræðingar, bæði í lútersku kirkjunni
og kaþólsku fóru að tala um Maríu töluðu þær um kjark hennar.
Hún var bæði kærleiksrí og auðmjúk og afar máttug. Þegar
engillinn sagði að hún yrði móðir andmælti hún honum. Hún
rökræddi við engilinn. Og í lofsöng sínum sem séra Bjarni las
hér áðan úr 1. kafla Lúkasarguðspjalls boðar hún stórkostlegan
byltingarboðskap úr Ritningunni: Guð tvístrar þeim beita valdinu
með ofbeldi og gefur smælingjunum mátt sinn.

María vék aldrei nokkurn tíma frá trúfestinni við þá miklu
ákvörðun Guðs að koma í Jesú svo að hann yrði Kristur, frelsari
allrar veraldar. Hún vissi að hann, sonur hennar opnaði öllum veg
til eilífs lífs og kæmi aftur og gerði allt nýtt. Hún vissi að í
honum var Guð komin til fólksins síns.

Við stöndum með Maríu, í dag og alla daga. Í traustinu til Guðs
sem kom í Jesú. Margvísleg trúarbrögð koma nær okkur og
margvíslegar stefnur ráðast að öllum trúarbrögðum. Trúarbrögð
veraldarinnar verða að standa saman um frið heimsins. Kristin kirkja
hefur enn sem fyrr það óendanlega mikla hlutverk að boða trúna á
Guð sem kom í Jesú. Það skilur hana frá öllum öðrum
trúarbrögðum og mun alltaf gera. Í öruggri trú á köllun sína
til að boða frelsið i Jesú Kristi talar kristið fólk óhikað og
fordómalaust við fólk annarrar trúar. Guð vinnur eins og hún vill
og þar sem hún vill - hún hefur kallað okkur til að boða Jesúm
Krist. Við förum heim með þá vissu í dag eins og alltaf og
þökkum Guði fyrir elskulegt og styrkjandi samfélag okkar hérna í
dag og samfélag allrar kristinnar kirkju fyrr og síðar um víða
veröld. Guð blessar okkur. Amen