Ræða frá 14.05.2015 eftir Þóreyju Dögg Jónsdóttur

Drottinn Jesús Kristur!
Þakka þér fyrir öll þau sem komin eru á efri ár.
Allt það dýrmæta fólk sem gefið hefur af sér og miðlað okkur af dýrmætri reynslu sinn og þekkingu og gefið af tíma sínum í okkar þágu og þjóðfélagsins alls.
Blessaðu allt þetta góða fólk. Launaðu þeim, uppörvaðu þau og styrktu, veittu þeim gleði von og frið.
 Leyfðu þeim að finna að þau eru óendanlega dýrmæt í þínum augum. Lát engan líta smáum augum á elli þeirra.
Tak frá þeim allan kvíða og ótta, og hjálpa þeim að hvíla örugg í þínum náðarfaðmi.
Já, í þér einum, sem megnar að viðhalda lífinu um alla eilífð. Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

            Kæru vinir, gleðilegan uppstigningardag! Þetta er sannarlega gleðidagur hjá okkur í kirkjunni og við höfum margt að þakka fyrir.

Hinn fyrsti uppstigningardagur lærisveinanna var sannarlega dagur andstæðna. Hann var bæði dagur sorgar og gleði. Þennan dag  yfirgaf Jesús lærisveina sína endanlega. Hann hvarf þeim sýnum og þau sáu hann ekki meir. Þennan góða mann og Guð sem þau settu allt sitt traust á. Hann var þeirra vonarstjarna, þau sáu framtíð sína bjarta með hann í fararbroddi. Hann hafði verið krossfestur og dáinn og grafinn, en hann reis upp. Lærisveinar hans voru rétt í þann mund að átta sig á upprisunni þegar uppstigningin átti sér stað. Það er því auðvelt að ímynda sér alla þeirra undrun. En eins og segir í guðspjallinu sem lesið var hér áðan, þá blessaði hann þau og á meðan hann var að því, var hann numinn upp til himins. Hann yfirgaf þau. Skildi þau eftir í óöruggum heimi þar sem fylgjendur hans voru í lífshættu hvern einasta dag. Þau þurftu jafnvel að fara í felur með trú sína og ást á honum. Kristnir menn voru ofsóttir og teknir af lífi fyrir það eitt að trúa á hann. Nú gátu þau ekki lengur leitað skjóls hjá honum eins og áður hafði verið, ekki leitað til hans þegar þau þurftu leiðbeiningar í erfiðum heimi. Þau voru ein að því er virtist. Og þó samt ekki, eins og fljótlega átti eftir að koma í ljós.

Nú eru liðnir 40 dagar frá páskum. Margar hefðir fylgja páskunum og ein af þeim er að borða páskaegg. Eftir því sem við eldumst verður eggið smá saman aukaatriði, en málshátturinn sem inni í egginu er fær aukið vægi. Eitt árið kom úr mínu eggi málsháttur sem mér þótti í fyrstu nokkuð skondinn, en eftir því sem leið á, og lífsárum mínum fjölgaði, fannst mér hann bæði heimskulegur og niðrandi. Þetta var málshátturinn „ tvisvar verður gamall maður barn“. Ég hef ekki enn tekið eftir því að gamalt fólk verði aftur börn, að það gangi í barndóm og verði óvitar. Að vísu getum við öll orðið óvitar að nýju, en það er þá alltaf vegna veikinda eða slysa, en ekki einhvers lífslögmáls eins og kemur fram í málshættinum. En við nánari skoðun hans, þá er nú líklega fyrst og fremst átt við líkamann og líkamsburðina. Þegar við komumst á eftir ár missum við þrek og styrk og verðum minna sjálfbjarga á sumum sviðum og að því leyti getur okkur svipað til barns. Hvað líkamann varðar, er þetta því miður lífsins lögmál, sem enginn, sem kemst á það lífsskeið að geta talist aldraður, kemst undan.  Aðeins að þessu leyti er hægt að taka undir það „að tvisar verði gamall maður barn“. Og það má í vissum tilfellum einnig heimfæra þetta á sálarlífið. Við þurfum yfirleitt ekki að gera mikið til að kalla fram bros hjá ungabarni, og það þarf oft enn minna til að kalla fram tár á kinn. Það sama er hægt að segja um hinn aldraða. Það þarf ekki mikið meira en örlítinn vinarvott eða greiða til að gleðja og kalla fram bros hjá þeim sem háð hafa langa lífsbaráttu og þekkja erfiðleika í raun. Einnig er yfirleitt stutt í samkennd þeirra lífsreyndu og þá falla oft tár yfir vonsku heimsins.

Uppstigningardagur er í íslensku þjóðkirkjunni dagur aldraðra. Á þessum degi er eldri borgurum gert hátt undir höfði og athyglinni beint að þeim, sem lagt hafa grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við í dag. Guðsþjónustur eru af þessu tilefni haldnar í mörgum kirkjum landsins. Þetta er dagur eldri borgara og þeir setja mark sitt á athafnirnar með því að taka virkan þátt í þeim, eins og t.d. í Seltjarnarneskirkju hér í dag.

Það er falleg hefð hjá íslensku þjóðkirkjunni að tileinka öldruðum einn dag í kirkjuárinu. En er það nóg? Nei, ef eldri borgurum væri aðeins sinnt þennan eina dag í kirkjunni, þá væri það ekki nóg. Enda er það alls ekki þannig. Þó það sé aðeins þessi eini dagur sem er sérstaklega tileinkaður öldruðum, líkt og æskulýðurinn fær aðeins einn dag á kirkjuárinu, þá er ekki þar með sagt að eldri borgarar komi ekkert við sögu alla hina daga kirkjuársins.

Ég heyrði eitt sinn sögu af kaþólskum presti. Í kirkjuna þar sem hann þjónaði, mætti á hverjum sunnudegi fámennur hópur eldri kvenna. Þessar gömlu konur aðstoðuðu prestinn á ýmsan hátt við messuhaldið og þær voru í raun uppistaða kirkjugesta. Maður einn hafði áhyggjur af lélegri messusókn hjá presti og benti honum á, að konurnar væru nú flestar nokkuð við aldur. Og spurði svo: Hvað ætlar þú að gera þegar þeirra nýtur ekki lengur við?  Prestur hafði nú ekki miklar áhyggur af framtíðinni og svaraði: Þegar að því kemur, þá verða bara komar aðrar gamlar konur í þeirra stað! Þessa sögu er afskaplega auðvelt að heimfæra á íslensku þjóðkirkjuna. Aldraðir eru kirkjunnar dyggasti hópur og án þeirra væri hún ekki svipur hjá sjón.

  Það fer fram mjög mikið og gott starf fyrir eldri borgara í vel flestum söfnuðum landsins. Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar og Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæmanna vann á liðnu ári að stefnumótun fyrir kirkjulegt safnaðarstarf meðal eldri borgara. Tilgangurinn var, að setja í orð þau markmið sem Þjóðkirkjan vill hafa í kirkjulegu starfi með eldri borgurum. Þ.e. að móta af fagmennsku samfélag þar sem fólk hittist til að sinna félagslegum, andlegum og trúarlegum þörfum í öruggu og vingjarnlegu umhverfi. Það sem liggur hvað sterkast á bak við þessi orð er hugsunin um að rjúfa einangrun eldri borgara. Það er nefninlega ekki nóg að hafa falleg og göfug plön um að best sé fyrir aldraða að búa sem lengst á sínum eigin heimilum í stað þess að búa á dvalarheimilum. Kannanir sýna vissulega, að margir aldraðir kjósa að vera sem lengst heima. Búa í sínu eigin húsnæði og ráða sínum málum sjálf á meðan heilsan leyfir. Það ber að sjálfsögðu að koma til móts við slíkar óskir, en það þarf þá líka að gæta þess, að fólk einangrist ekki, þannig að það verði jafnvel eins og fangar á eigin heimilum. Marga hef ég hitt í mínu starfi með eldri borgurum, sem kysu ekkert frekar en að vera í samfélagi við aðra. Að eiga þess kost að búa á dvalarheimili þar sem hægt er að spjalla, fara daglega í einhverja afþreyingu, að vera saman. Að vera ekki ein!

Kirkjan hefur reynt af fremsta megni að koma til móts við þarfir eldri borgara í því starfi sem hún býður upp á. Á hverjum einasta degi vikunnar, að frátöldum laugardögum, geta eldri borgarar á höfuðborgarsvæðinu tekið þátt í samveru í einhverri kirkjunni. Úti á landsbyggðinni eru einnig fjölmargar samverur í boði þó þær séu vegna fámennis og fjarlægðar, ekki eins oft í boði og á höfuðborgarsvæðinu. Þessar samverur sem eldri borgarar sækja, eru innblásnar af vináttu og kærleik og þar fer ýmislegt fram. Þar er sungið, spilað, spjalla, föndrað, smíðað, eldað, dansað, stunduð handavinna, fræðst um menn og málefni, hlustað á fyrirlestra, farið í ferðalög og svo mætti lengi lengi telja. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og það er aldrei leiðinlegt og aldrei nein lognmolla. Bara tóm hamingja og gleði.

Ég tel mig vera einstakleg lánsama að fá að starfa með eldri borgurum. Það er mjög gefandi að vera í þeirra hópi. Ég er í grunninn alveg á móti þessari eilífu flokkun í aldurshópa sem viðgengst í þjóðfélaginu. Við erum öll flokkuð allt frá því að við erum börn, þar til við komum að lífslokum. Margir af yngri kynslóðinni reikna með að lífið hljóti að vera búið eftir sextugt. Til þess aldurshóps, og svo ég tali nú ekki um þá sem eldri eru, sé ekkert að sækja. Nema jú, kannski vesen og fyrirhöfn.

Ég las um daginn grein eftir unga stúlku sem vinnur á dvalarheimili fyrir aldraða. Hún var búin að fá sig full sadda af neikvæðum athugasemdum frá jafnöldrum sínum vegna vinnu sinnar og spurninga um það, hverngi hún geti unnið á svona stað, það hljóti að vera hræðilega leiðinlegt og niðurdrepandi. Hún skrifaði eitthvað á þessa leið:  „Vinnan mín er yndisleg á allan hátt. Ég fæ að vera í samskiptum við þá sem eru ekki af minni kynslóð og ég upplifi frá þeim mikinn kærleik og hlýju. Ég öðlast visku og þekkingu sem fylgir mér út lífið. Eftir hvern vinnudag kem ég heim reyndari, og með einhvern nýjan fróðleik í farteskinu, sem mun nýtast mér til æviloka. Og það merkilegt er, að heimilismenn á dvalarheimilinu eru flestir mun jákvæðari og glaðlyndari en margir jafnaldrar mínir“. Það gladdi mig að lesa þessi orð, og ég varð mun bjartsýnni um samskipti kynslóðanna. Við lestur greinarinnar kom upp í hugann skemmtilegt ljóð sem ég hafði nýlega  lesið. Ljóið rammar einmitt inn þá hugsun, að það er hugurinn sem ræður aldri okkar, en ekki aðeins líkamlegt atgerfi. Ljóðið er eftir H.S. Fritsch og er hér í þýðingu Árna Grétars Finnssonar og heitir Hver er aldur þinn:

 

Andans auður aldri ræður.

Ef dauðar eru draumsins glæður

og vonin situr í sárum,

ef latur ert og logni feginn

og lítur ei oftar fram á veginn,

þá gamall ert að árum.-

En ef þú birtu lífsins lítur,

ef þú gáska og gleði nýtur

og grætur gleðitárum,

þá skipta ei sköpum áranna fjöld,

þá skipta ei máli nein afmælishöld,

þú síungur ert að árum.

 

Það er stór þáttur í starfi mínu að reka orlofsbúðir fyrir aldraða á Löngumýri í Skagafirði. Í paradísinni Skagafirði þar sem morgun- og kvöldsólin lætur  himinn og jörð renna saman í eitt. Langamýri er í eigu íslensku þjóðkirkjunnar og þar fer fram mikil starfsemi á vegum hennar. Þangað sækja margir hópar sér til uppbyggingar og hvíldar, td. Krabbameinssjúkir, ekkjur og ekklar, sykursjúk börn, ásamt hinum ýmsu handavinnuhópum, sem leggja undir sig staðinn jafnt sumar sem vetur. Og enn er ég þó ekki farin að nefna þann hóp sem nýtir Löngumýri hvað best. En það eru eldri borgarar. Í áratugi hefur íslenska þjóðkirkjan farið með eldri borgara í skipulagðar orlofsferðir sér til uppbyggingar og endurnæringar. Síðast liðin 12 ár hefur verið farið til dvalar í Skagafjörðinn. Það verður einnig gert í sumar. Í boði eru fjórar ferðir á tímabilinu frá 7. júní – 10. júlí. Hægt er að velja á milli þess að dvelja í fjórar nætur, fimm nætur eða sex nætur. Í þessa orlofsdvöl eru allir eldri borgara velkomnir. Gestir okkar eru frá sextugu og uppúr og koma af landinu öllu. Á Löngumýri er öll aðstaða til fyrirmyndar, allt aðgengi mjög gott og frábært starfsfólk. Þar eru heitir pottar, fallegar gönguleiðir og einstök náttúrufegurð. Það er nóg að gera allan daginn og mikið fjör. Við t.d. stundum  morgunleikfimi, göngutúra, förum i  leiki, við borðum kjarngóðan íslenskan mat og  förum í skemmtilega dagsferð. Já og ekki má gleyma skemmtikvöldunum okkar, sem haldin eru hvert kvöld á meðan dvölinni stendur. Þá heimsækja okkur skagfirskir skemmtikraftar sem halda uppi fjörinu eins og þeim einum er lagið.  Og ég get alveg sagt ykkur það, að okkur leiðist ekkert á Löngumýri.

Ég hef sagt það áður og held áfram að segja það, að mér finnst þetta eitt göfugasta verkefni íslensku þjóðkirkjunnar. Þessi dvöl er hugsuð til að rjúfa einangrun aldraðra, gefa þeim tækifæri til að dvelja á fallegum stað, í gefandi og nærandi félagskap og í öruggu umhverfi. Hún er hugsuð til að rjúfa einangrun og einsemd einstaklinga, eins og konunnar sem sagði eitt sinn við mig: „Ég get ekki beðið eftir því að koma á Löngumýri. Vera innan um aðra, heyra mannamál, að það sé yrt á mig, að einhver borði með mér, bara vera innan um annað fólk, að ég sé hluti af hópnum“  Einsemd þessarar konu var nístandi og ég veit það fyrir víst að hún er því miður langt frá því að vera ein í þessum aðstæðum.

Ég hef kynnst mörgum dvalargestum Löngumýrar og allir sem einn, eru í senn þakklátir og fegnir þessu framtaki kirkjunnar. Aðstandendur þeirra sem dvelja hjá okkur hafa haft samband og lýst yfir ánægju sinni með að þetta standi þeim til boða og þeirri góðu tilfinningu sem fylgir því, að vita af ástvinum sínum í örygginu hjá okkur.

 

Það er ekki bara öldruðum mikilvægt að vera í samskiptum við annað fólk, heldur okkur öllum. Að vera ekki yfirgefin. Að vera ekki ein. Jesús yfirgaf vissulega, eins og áður sagði, hjörð sína á uppstigningardag. Það vakti upp sorg og söknuð. En þetta var líka gleðidagur, dagur andstæðna. Því áður en hann sté upp til að vera hjá sínum himneska föður gaf Jesús þeim von og sagði þeim frá fyrirheiti föður síns um að senda þeim heilagan anda. Þvílík gjöf og þvílík náð. Þau tóku því gleði sína á ný, því nú vissu þau, að þótt hann væri ekki með þeim með sama hætti og áður, þ.e. í holdi, þá væri hann þeim samt alltaf nærri í heilögum anda. Þau væru því ekki ein. Hann yrði ávallt með þeim. Jesús hvatti ætíð fylgjendur sína til að halda hópinn, vera saman og eiga samfélag. Hann lofaði okkur því, að hvar sem tveir eða þrír kæmu saman í hans nafni, þá yrði hann þar mitt á meðal.

Slíkt samfélag höfum við í kirkjunni og á meðan við göngum veg Krists í samfélagi við aðra, þá erum við aldrei ein. Ég vil því hvetja þig til að koma og taka þátt. Taktu þátt í starfinu í kirkjunni þinni. Það mun gera þér gott.

Þó hinn fyrsti uppstigingardagur hafi verið lærisveinum Krists hvorttveggja í senn þungbær og gleðilegur, þá er okkar uppstigningar-dagur í dag, einungis hlaðinn gleði og við skulum njóta hans í samfélagi heilags anda. Þannig er Jesús nærri, þannig erum við aldrei ein.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.