Ræða frá 07.06.2015 eftir Steingrím Bjarna Erlingsson

Sjómannadagur 7. júní 2015

 

Góðan og gleðilegan Sjómannadag!

 

Þegar Bjarni prestur kom til mín og bað mig um að flytja hugleiðingu í kirkju okkar Seltirninga á Sjómannadegi þá varð ég strax við beiðni hans og fannst mikið til þess koma, en örstuttu seinna kom önnur tilfinning yfir mig og var hún sú að rosalega heldur hann að ég sé gamall. Í mínum huga er sá er hugleiðingu Sjómannadagsins les er eldri maður, og það maður er margar hefur fjörurnar sopið, tekið þátt í allavega 2 þorskastríðum og upplifað síðutogara eða að hafa verið sjómaður á „Sjanghai“ tímabilinu en þá þurfti að manna togaraflota Íslendinga með hreppsómögum og tukthúslimum og þeim sem svo óheppnir urðu að þurfa einhverja hluta vegna að gista hjá lögreglu vegna fyllirís og vöknuðu svo á Grænlandsmiðum í þriggja mánaða saltfisktúr.

Já, hér hugsaði ég , hvers vegna dettur Bjarna presti í hug að biðja mig kornungan manninn á þessum hátíðlega frídegi okkar sjómanna að flytja hugleiðingu dagsins, hann hlýtur að hafa klikkað sá sem hann spurði fyrst, og kannski klikkaði einnig sá sem hann spurði svo. Allavega þegar ég hélt áfram að hugsa um þennan heiður sem var verið að sýna mér svo óverðskuldað svona við fyrstu sín þá rifjaðist nú upp minn eigin ferill sem sjómaður og inniheldur hann meðal annars Smuguveiðar í stríði við Norðmenn og hversu andstyggilega langir þeir túrar voru og einmanalegir, ekkert að sjá nema múkka og önnur íslensk skip að toga í halarófu á einhverri ósýnilegri línu sem Norsk varðskip vöktuðu og klárir til að taka okkur ef þeim fannst okkur yfir hana fara. Einnig var ég vélstjóri á fyrsta íslenska togaranum sem togaði með tveimur trollum í einu, ég var vélstjóri á Sunnu frá Siglufirði sem fyrst íslenskra skipa fór og stundaði rækjuveiðar á Flæmingjagrunni. Ég var um borð í togara þegar síðasta Loranstöðin var aflögð og tímabil GPS hóf innreið sína. Ég var ásamt öðrum áhafnarmeðlimum forundran að geta hringt heim af Selvogsbanka úr síma eða NMT á sínum tíma og upplifði breytingu á mínum háttum slíka að nýr heimur opnaðist, og var hægt að fá fréttir að heiman núna eins hratt og þær gerðust, slík var upplifunin.

Videomenning setti einnig svip á minn sjómannsferil, og get ég sagt ykkur að leikkonan Demi Moore skipar stóran sess í mínu lífi en ákveðin mynd með henni gekk stöðugt í heilan mánuð í messa Sléttbaks EA frá Akureyri þegar við stunduðum þorskveiðar í Smugunni og ekkert var að hafa. Get ég með fullri sannfæringu sagt hér frá því að fæðingarblettur á kinn hennar er alvöru og ekki teiknaður eins og umræða þess tíma á síðum slúðurblaða snérist um. 

Þarna skildi ég líka betur sögu afa míns Steingríms Bjarnasonar Stýrimanns og síðar fisksala þegar hann sagði mér frá þeirri breytingu sem á hans lífi varð við að eignast gúmmístígvél og hvernig augu gamla mannsins opnuðust með tilþrifum við lýsingu á þeirri stórkostlegu uppfinningu fyrir sem gúmmistígvéin voru. NMT síminn og Video gerðu fyrir mig það sem Gúmmistígvél gerðu fyrir afa minn, eða léttu okkur lífið um borð.

Einnig rifjaðist upp fyrir mér öll skiptin sem ég kom í land á Þorláksmessu og átti eftir að kaupa jólagjöf fyrir konu mína sem endaði með bók úr kaupfélaginu, eða álíka rómantískan hlut. Má líka rekja ástæðu þess að gervi jólatré er á mínu heimili þess að ein jólin á sokkabandsárum okkar hjóna voru jólatré uppseld. Ógleymanleg eru einnig jólin sem björgunarsveitin þurfti að ná í mig til Akureyrar en ófært var til Dalvíkur og ég á heimleið úr túr með Ljósafelli frá Fáskrúðsfirði...

Kannski að Sr. Bjarni hafi eftir allt haft mig fyrstan í huga eftir allt er hann bað mig um þetta. Jahérna, ég er jú fæddur á þriðja ársfjórðungi síðustu aldar.. fannst mér ég gamall þarna þetta augnablikið.

Ekki ólst ég upp á sérstaklega trúuðu heimili en þó man ég ekki eftir mér án þess að kunna faðirvorið og aðrar bænir sem barnatrú fylgja. Mamma mín kenndi mér bænirnar, en síðar átti ég eftir að kryfja orð biblíunnar með föðurömmu minni.  Sjómannadagurinn var í barnæsku minni líflegur, koddaslagur á bryggjunni, fullt af fólki í bænum og pabbi fullur, en hann var sjómaður.

Seinna eftir að ég sjálfur fór að fara til sjós  þá varð Sjómannadagurinn sá dagur sem ég var fullur.

 

Þegar ég gekk í sjómannaskólann snérist allt um að komast í pláss á sumrin og þá var spurningin um hvort prófin væru búin það tímanlega að hægt væri að ná túr fyrir sjómannadag eða þurfti að bíða þar til fram yfir sjómannadag. Á þessum árum markaði Sjómannadagurinn upphaf vinnu hjá mér. Svona var einnig með jólatúra, gerðist það allavega tvisvar að ég fór janúartúr og mætti í skóla eftir 20. janúar og var tjáð af skólastjóra að ef ég yrði veikur svo mikið sem í einn dag þá myndi ég falla á mætingu. Var svar mitt ávallt að það væri dýrt að vera fátækur.

1994 var ár sem er mér minnistætt, voru við hjónin búsett á Dalvík og var ég að taka þriggja stig vélstjórnar við VMA og logaði allt í verkföllum líkt og í dag. Voru kennarar búnir að ákveða að fara í verkfall eftir viku og líkur miklar að til verkfalls kæmi. Fæ ég símtal þar sem ég er spurður hvort ég geti leyst af á Björgúlfi EA ísfisktogara Útgerðarfélags Dalvíkinga en brottför yrði á fimmtudegi, hér man ég að ég leitaði til Guðs með ráð hvað ætti að gera. Ef ekki kæmi til verkfalls þá félli ég á mætingu, en yrði verkfall þá væri ég áfram blankur og sæi eftir að hafa ekki gripið tækifærið. Kona mín sem starfaði sem kennari við grunnskólann hafði ekki hugmynd og vonaðist að sjálfsögðu ekki eftir neinu verkfalli. Ég var tvístígandi en eftir að hafa séð skrifað í skýin að mér fannst skilaboð til mín ákvað ég að fara. Það kom verkfall og var það líka langt, Björgúlfur fór út við fórum út á Rauða torg og veiddum vel af grálúðu sem við settum í gáma vikulega á Fáskrúðsfirði og þegar ég svo kom heim að þessu loknu um 6 vikum seinna var lagasetning sett á verkfall kennara en að auki hafði snjóað svo mikið á Dalvík á sama tíma að fólk hafði ekki komist úr húsi og nauðsynjar fluttar á snjósleðum til fólks. Ég hefði ekki komist í skólann hvort eð var.

Þessar 6 vikur 1994 skiluðu mér í tekjur 2,7 milljónum sem 2 vélstjóri á Björgúlfi EA, veit ég ekki hvað það er uppreiknað í dag en á þessu tíma greiddum við Kristín kona mín í leigu fyrir íbúð á Davík 12 þúsund á mánuði. Hér hófst fyrir alvöru samband mitt við Guð sem stendur enn í dag og er samningur okkar slíkur að ef ég er heiðarlegur og góður maður mun hann passa mig í ferðum mínum hvort heldur til sjós eða lands og ef hann þarf að vara mig við einhverju gerir hann það með að senda ákveðna tilfinningu í maga minn og fer ég aldrei þá ekki á móti henni. Tala ég við Guð á hverjum degi og hefur tilvist hans marg oft verið sönnuð fyrir mér.

Sjómenn sem eru samskipa bindast ákveðnum böndum sem einungis þeir sem hafa upplifað slíkar samveru skilja. Þeir kynnast nánara en fólk gerir við annarskonar starfa ásamt því að trúnaður milli sjómanna er heill og einlægur. Ég hef á minni starfsævi aldrei starfað við neitt annað en sjómennsku eða útgerð ef undanskilið er 1 sumar hjá flugleiðum sem flugvirki fyrir 20. árum.  Hef ég starfað með sjómönnum frá mörgum löndum og frá mismunandi menningarheimum, en samnefnari okkar allra er trúin á Guð eða æðri mátt eins og við viljum skilja hann. Er öllum sjómönnum það ljóst að án Guðs eins og Gústi ömmubróðir minn Guðsmaður sagði rær enginn til sjós.

Í biblíunni fyrir okkur sem á Guð trúum er að finna ákveðnar umferðarreglur sem að leiðarljósi skulu hafðar í gegnum lífið, og fylgir þeim reglum aðgöngumiði að himnaríki ef eftir þeim er farið. En að sama skapi eru í hinni helgu bók er hvergi að finna loforð um að lífið verði létt, Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir og nálægðin við hann er óvíða eins áþreifanleg og til sjós.

 

Mér fannst ég verða að manni þegar ég 14 ára fór lausaróður á Guðrúnu GK frá Hafnarfirði í kennaraverkfalli á sínum tíma. Skal þó tekið fram að Jón Síldarauga skipstjóri var eiginmaður Báru kennara míns og pabbi minn var stýrimaður, þannig að þetta var eins og sagt er klíkuráðning, en eftir sem áður var það ungur maður en ekki drengur sem fór og fékk afhentan launaseðil upp á 2400 krónur á stöðluðu launaeyðublaði LÍÚ hjá útgerðarfélaginu ÁSAR í Hafnarfirði.  Er mér minnistætt að mér reiknaðist til að ég þyrfti að bera út Vísir í  6 mánuði til að fá sama pening. Hér var ekki aftur snúið sjórinn varð mitt ævistarf.

 

Seinna er ég fór sjálfur út í útgerð togara þá hélt ég alltaf mikið í nánd mína við Guð, ég hélt líka í ákveðnar hefðir eins og að senda aldrei frystitogara út á mánudegi, taldi ég og tel það vera að storka örlögum. Hélt ég einu sinni áhöfn og skipi mínu bundnu við bryggju í 10 tíma tilbúnu til brottfarar, en ekki kom til greina af minni hálfu að víkja frá þessu og hélt ég skipi bundnu við bryggju til 1 mínútu yfir miðnætti. Ég skrifa ekki undir neina samninga eða stofna til viðskipta enn í dag á mánudegi, ef það getur ekki beðið þá er það ekki þess virði.  Er þetta tilkomið vegna þess að það þótti ekki vera heillavænlegt að byrja vertíð á mánudegi hér forðum og finnst mér sem hefð þessi sé ekki að ástæðulausu.

Ég hef verið heppinn á mínum ferli sem sjómaður og aldrei lent í neinum háska er talist getur lífshættulegur, og sem útgerðarmaður hef ég einungis misst einn mann og var það þegar skipið var bundið við bryggju í Nuuk í Grænlandi og hann drukkinn og hálsbrotnaði í stiga.

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur sjómanna og þó að sjómenn nútímans búi við frítúrakerfi og þarfnist í raun ekki sérstaks frídags eins og áður þá er hann nauðsynlegur til að minna okkur á mikilvægi sjómannsins í Íslensku samfélagi og að án hans væru ekki ábúendur á Íslandi.

Sjómaður nútímans býr orðið við fjarskiptasamband í formi internets og getur því stundað nám eða aflað sér fræðslu með vinnu ásamt að viðhalda fjölskyldu tengslum líkt og farandverkamenn nútímans og er það gott. Einnig eru öryggismál sjómanna undir stöðugu eftirliti og sagan  kennir okkur þær hættur sem ber að varst, enda eru sjóslys alltaf með hverju ári fátíðari og fátíðari og aðbúnaður góður.

Ég er stoltur af því að fá að flytja ykkur í dag þessa hugleiðingu mína og hefur undirbúningur hennar leitt fram margar skemmtilegar minningar sem sjómannsferill minn hefur en einnig aðrar ekki jafn skemmtilegar,en þannig er nú bara lífið. Staðreyndin er að sjómennska er hörkuvinna og verður ávallt og þó margir séu tilnefndir til sjómennsku þá eru ekki eins margir útvaldir. Sá duglegasti sjómaður sem ég sigldi með á mínum ferli var ekki nema 160 á hæð og 60 kg. En í vírasplæsi átti enginn roð við honum og þó trollið kæmi í henglum upp og lítið eftir nema höfuðlína og fótreipi þó saumaði hann nýtt við aðstæður sem varla boðlegar þykja, og fyrir mig seinna meir þegar ég hóf útgerð og var blankur og fékk hann til að vinna hjá mér, sagði hann við mig pantaðu bara bala en ekki tilsniðin undirbyrði eins og venja er orðin í dag og verð ég að segja að svona nagla er gaman að hafa kynnst.

Það er nefnilega ekki skipið sem gerir vinnuna heldur áhöfn þess sem í takt þarf að ganga og ef Guð er með á þeirri göngu er ljóst að hún mun léttari verða og skila mannskap og útgerð þeim afla er til af þeim er ætlast. Með orðum þessum langar mig að óska ykkur til hamingju með daginn og þakka þér Sr. Bjarni fyrir þann heiður að standa hér í stefni kirkju okkar á þessum hátíðardegi.