Ræða frá 17.06.2015 eftir Guðmund Snorrason

Þjóðhátíðarguðþjónusta í Seltjarnarneskirkju 17. júní 2015 
Guðmundur Snorrason, forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness

  

Ágætu kirkjugestir,

 

Fyrir hönd okkar félaga í Rótarýklúbbi Seltjarnarness vil ég byrja á að þakka fyrir það tækifæri að fá enn á ný að taka þátt í hátíðardagskrá hér í Seltjarnarneskirkju á þessum merkisdegi. Sem forseti klúbbsins vil ég þakka fyrir þann heiður að fá að setja fram nokkur orð til hugleiðingar í tilefni dagsins. 

Í dag minnumst við þess að sjötíu og eitt ár er liðið frá stofnun íslenska lýðveldisins þann 17. júní 1944. Í dag vottum við þeim virðingu sem fremstir fóru í baráttu fyrir f ullu sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar horft er til baka blasir sú staðreynd við að sem sjálfstæðri þjóð hefur okkur á örfáum áratugum tekist að rísa upp úr sárri fátækt og byggja upp alsnægtasamfélag sem skarar fram úr á flestum sviðum í alþjóðlegum samanburði. Hér mælast lífsgæði einna mest meðal þjóða heims. Hér ríkir virðing fyrir mannréttindum, hér er jöfnuður meiri en í flestum löndum, fátækt minnst, frelsi mest, jafnrétti kynjanna hvergi meira og náttúruauðlindir og náttúrufegurð óvíða meiri. Við höfum átt því láni að fagna að hafa ekki þurft að glíma við sambærilegar hremmingar og margar aðrar þjóðir þar sem stríðsátök , vonleysi og óöryggi eru daglegt brauð, eða þar sem skortur er á lífsnauðsynjum eins og hreinu vatni og virðingarleysi fyrir grundvallar mannréttindum.  Í þessu ljósi eru hin svokölluðu „vandamál“ okkar að mínu mati hjóm eitt. Af orðræðu í samfélagsmiðlum mætti ætla að hér væri allt á vonarvöl og okkur allar bjargir bannaðar til að skapa það sem kallað er „mannsæmandi“ líf. Ég velti því oft fyrir mér hvað hinum hæsta himnasmið finnst um þetta dæmalausa háttarlag okkar Íslendinga þegar hann horfir yfir heimsbyggðina alla og metur lífsgæði hinna ólíku þjóða sem jarðarkringluna byggja. Skyldi hann ekki bara hrista höfuðið? Skyldu hugtök eins og vanþakklæti, sjálfhverfa eða kannski þjóðarblinda koma upp í huga almættisins? Hvernig má það vera í ljósi ríkidæmis okkar og einstakra og eftirsóknarverðra aðstæðna skuli opinber umræða hér vera svo uppfull af fúkyrðaflaumi, heift og öfund?  Af hverju tekst okkur ekki að tala saman á málefnalegan og yfirvegaðan hátt um það sem betur má fara?  Hugsanlega er hin neikvæða orðræða í raun ekki eins almenn og álykta má út frá því sem birtist okkur í samfélagsmiðlum. Það er vonandi að sú sé raunin. Það er samt dapurlegt til þess að hugsa að í allt of mörgum tilvikum er þessi neikvæða umræða leidd af fólki sem maður hélt að væri viti borið og hefði ekki ástæðu til að kynda undir öfund og ófriði. Þessu til viðbótar verður ekki horft framhjá því að hópur fólks sem er ekki sáttur við núverandi stöðu Íslands meðal þjóða hefur á undanförnum árum gert sér sérstakt far um að tala niður margt af því sem íslenskt er og ýta þannig undir sundurþykkju þjóðarinnar á viðkvæmum tímum. Þannig hefur því linnulaust verið haldið fram af þessu fólki að einungis með því að taka upp annan og stærri gjaldmiðil í stað íslenskrar krónu verði eftirsóknarverðum efnahagslegum stöðugleika náð. Við þurfum ekki annað en að horfa til þess mikla óróleika og ólgu sem nú skekur þjóðir sunnar í álfunni til að sjá að þetta var ekki það bjargráð sem dugði fyrir þær til að ná efnahagslegum stöðugleika. Það er af og frá. 

Að mínu mati er hin neikvæða orðræða ein aðaleminsemd íslensks þjóðfélags í dag. Við virðumst því miður ekki kunna að meta að verðleikum öll þau stórkostlegu lífsgæði sem við njótum sem íbúar þessa lands.   

Ferðalög, innanlands sem utan eru mikilvægur þáttur í starfi flestra klúbba innan Rótarýhreyfingarinnar.  Rótarýklúbbur Seltjarnarness er þar engin undantekning. Fyrir réttum tólf árum hélt klúbburinn til dæmis í eftirminnilega ferð á Íslendingaslóðir í Winnipeg í Kanada og Norður Dakóta í Bandaríkjunum. Það sem stendur upp úr í þessari ferð að mínu mati er samtal sem við ferðafélagarnir áttum við hóp eldri borgara af íslenskum ættum sem við hittum í safnarðarheimili einu í þorpi nálægt Gimli. Þessi hópur eldri borgara hafði þann sið að koma vikulega saman þarna í safnaðarheimilið í þeim tilgangi fyrst og fremst að tala saman á ástkæra ylhýra máli gamla ættarlandsins. Í hópi þessara eldri borgara var kona ein sem hafði heimsótt Ísland í fyrsta skipti þjóðhátíðarárið 1974. Hún lýsti því af mikilli tilfinningu hversu mikið henni hefði þá þótt koma til lands og þjóðar. Áratug síðar eða svo hafði þessi sama kona lagt aftur leið sína til Íslands. Þeirri heimsókn sinni lýsti hún með enn meiri andakt en hinni fyrri ferð. Á sinni einstöku íslensku átti hún ekki orð til að lýsa þeim stórkostlegu framförum sem orðið hefðu í landinu á aðeins einum áratug, öll nýju mannvirkin sem hefðu risið, nýjar byggingar, nýjar brýr, nýjar hafnir, nýir vegir og svo mætti lengi telja.  Þegar þessi ágæta kona hafði talið upp allar þessar mikilfenglegu framfarir þá sló hún sér á lær til að leggja enn meiri áherslu á orð sín og klikkti út með því að segja, „Ég er stolt af því að vera Íslendingur“.  Mér verður oft hugsað til orða þessarar konu þegar eymdarvælið hér keyrir um þverbak.

Þjóðir hafa sín karaktereinkenni rétt eins og við sem einstaklingar. Það verður seint sagt um íslenska þjóð að hún sé sérstaklega öguð eða fyrirhyggjusöm. Hins vegar erum við tilbúin að taka á honum stóra okkar þegar á þarf að halda, við erum órög við að halda á nýjar brautir, við erum úrræðagóð og sveigjanleg og gædd ríkum sköpunarkrafti.  Við erum að þessu leyti hvorki betri né verri en aðrar þjóðir, bara öðruvísi.  Óblíð náttúruöfl liðinna alda hafa vafalítið átt mikinn þátt í að skapa þann karekter sem einkennir okkur sem þjóð. 

Í kristilegum boðskap eru sett fram mikilvæg gildi sem við notum sem leiðarljós í okkar daglega lífi. Rótarýhreyfingin á líka sín boðorð, svokallað fjórpróf, sem félagar fara með saman í lok hvers klúbbfundar.  Fjórpróf Rótarý hljómar vel saman við kærleiksrík gildi hins kristilega boðskapar. Við segjum:

•Er það satt og rétt?

•Er það drengilegt?

•Eykur það velvild og vinarhug

•Er það öllum til góðs?

Á þessum þjóðhátíðardegi á ég þá von heitasta að brátt muni sundurlyndi, reiði og öfund víkja fyrir meiri samvinnu, sátt og sanngirni í okkar góða landi. Það er í þeim anda sem Rótarýhreyfingin vill starfa, þar sem fólk, konur og karlar með ólíkan uppruna, óháð stjórnmálaskoðunum eða trúarafstöðu starfar saman með það að markmiði að gera heiminn að betri stað til að lifa á. 

Ég fæ forsjóninni seint fullþakkað fyrir þá gæfu að hafa fengið að fæðast og alast upp hér í þessu gjöfula landi tækifæranna. Ég tek undir með gömlu konunni sem við rótarýfélagarnir hittum forðum á för okkar um Kanada. Ég er óumræðilega þakklátur og stoltur af því að vera Íslendingur. 

 

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar þjóðhátíðar!