Ræða frá 17.06.2016 eftir Gubrand Sigurðsson

Rótarýmessa - 17. júní 2016.

Kæru kirkjugestir. Gleðilega þjóðhátíð.

Það er mér í senn mikill heiður og ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í hinni árlegu Rótarýmessu Seltjarnarneskirkju.

Sautjándi júní hefur ýmiss konar merkingu í hugum okkar. Börnin hlakka til skrúðgöngunnar og þeirra stemmingar sem skapast á götum og torgum á þessum degi. Fyrir suma er þetta kærkominn frídagur til að fagna því að sumarið er gengið í garð og gróandinn framundann. Flest okkar, fögnum svo auðvitað langþráðu sjálfstæði en sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar stóð í tæpar 7 aldir og hófst í raun þegar við glötuðum sjálfstæði með Gamla sáttmála árið 1262.

Lengi vel var baráttan rislítil en fór vaxandi á 19. öldinni með tilkomu nýrra hugmynda um frelsi og sjálfsákvörðunarréttar þjóða. Segja má að hámark sjálfstæðisbaráttunnar hafi verið á þjóðfundinum 1851 þegar okkur tókst að koma í veg fyrir að Ísland yrði gert að héraði í Danmörku og glataði því litla sjálfstæði sem það þó hafði. Öll sú barátta kristallaðist í hinni fleygu setningu "Vér mótmælum allir".

Það er gæfa okkar íslendinga að Jón Sigurðsson fæddist einmitt þennan dag árið 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Hann var réttur maður, á réttum tíma, á réttum stað. Lengst af bjó hann í Kaupmannahöfn og átti sér margar og merkilegar hliðar. Í dag þekkjum við hann fyrst og fremst sem óskoraðan foringja sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld en hann var líka mikilvirkur og afkastamikill fræðimaður þar sem hann vann á Árnastofnun í Kaupmannahöfn. Jón var með eindæmum vinsæll maður enda bóngóður og greiddi götu sérhvers íslendings sem til hans leitaði eftir bestu getu.

Jón Sigurðsson kunni flestum fremur að meta það sem í raun einkennir þjóðleg gildi okkar Íslendinga, en vildi ekki ríghalda í það sem var orðið úrelt og lét ekkert aftra sér frá því að kynna sér þróun annars staðar og nýjungar. Jón var þannig mikill Íslendingur, en um leið sannur heimsmaður. Þröngsýni var honum andstyggð, en víðsýnin í blóð borin.

Hann átti mestan þátt í því að Alþingi var endurreist, Latínuskólinn endurbættur, Prestaskólinn stofnsettur, verslunarfrelsi gefið, læknaskipan endurbætt og þjóðréttindi efld. Jón vissi það vel að grundvöllur sjálfstæðis væri vel menntuð þjóð. Hann átti stóran þátt í því sjálfstæði sem vannst með stjórnarskránni 1874. Þegar hann lést í Kaupmannahöfn 1879 komu landar hans í borginni fyrir eftirmælum um hann, sem voru letruð á silfursveigi á kistu hans sem var send heim: ̈Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur".

Við getum verið þakklát fyrir að sjálfstæðisbarátta okkar hafi verið háð í ræðu og riti en ekki orðið að blóðugum átökum eins og margir hafa þurft að upplifa um heim allan. Stjórnarskráin 1874 var mikilvægt skref en Ísland var svo viðurkennt frjálst og fullvalda ríki árið 1918 með eigið þing og eigin ríkisstjórn og lýsti svo yfir sjálfstæði 17. júní 1944.

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Ekki aðeins Íslendingar, heldur jarðarbúar allir. Gríðarleg framþróun síðustu aldar hefur svo sannarlega fleytt okkur fram, en við verðum þó ávallt að halda vöku okkar, því kyrrstaða er afturför. Við megum aldrei taka það sem við höfum öðlast sem sjálfsagðan hlut. Framfarir eru svo miklar og lífskjörin hafa í raun batnað svo skjótt að alltof víða gleymist sú mikla vinna sem að baki liggur. Við höfum einnig upplifað mörg erfið tímabil undanfarna öld á borð við kreppuna miklu sem skall á haustið 1929, síldarleysisárin um og eftir 1968 og síðast en ekki síst bankahrunið 2008. Þrátt fyrir þessi áföll höfum við ekki gefist upp heldur unnið okkur út úr þessum erfiðleikum og staðið betur, eftir en áður.

Ég ætla ekki að staldra við bankahrunið og ástæður þess. Þrátt fyrir að Jón Sigurðsson hafi verið sannur boðberi frelsis talaði hann einnig fyrir því að ótakmarkað frelsi tryggi ekki endilega lýðræði og frið. Sérhvert samfélag þarf á stöðugum og sanngjörnum leikreglum og skipulagi að halda, til að tækifærin deilist sem jafnast meðal fólksins og jafnræði ríki sem víðast. Þá fær hver einstaklingur að njóta sín á eigin forsendum, en um leið er þess gætt að þeir sem standa höllum fæti, fái einnig tækifæri til að þroskast í lífi og starfi. Í lífinu vinnast sigrar á hverjum einasta degi, jafnt stórir sem smáir.

Efnahagur íslendinga byggir á náttúruauðlindum landsins og alþjóðlegum viðskiptum við fyrirtæki og einstaklinga. Sjávarútvegurinn var lengi helsta gjaldeyrisuppspretta þjóðarinnar en smá saman var byggður upp orkufrekur iðnaður sem nýtir fallvötnin og jarðhitann og er í dag burðug atvinnugrein. Síðastliðin 8 ár hefur svo verið alger sprenging í þjónustu við ferðamenn og er nú svo komið að ferðamennska er stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar talið í gjaldeyristekjum.

Það sem er sammerkt öllum þessum atvinnugreinum er að þær byggja á nýtingu náttúrauðlinda, á einn eða annan hátt. Við þurfum að umgangast þessar auðlindir með gætni, umhyggju og tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra til framtíðar fyrir börnin okkar og komandi kynslóðir. Þetta er eitt af stóru verkefnunum okkar í dag samhliða því að byggja upp skilvirka og góða þjónustu á sviði menntunar, heilbrigðis- og félagsmála.

Ísland er fámennt en stórt land og því skiptir framlag hvers og eins okkar meira máli en víðast hvar annar staðar. Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir háa landsframleiðslu og góð lífskjör er framleiðni á Íslandi lægri en við sjáum hjá þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Með öðrum orðum, við leggjum of mikla vinnu í þau verkefni sem við tökum okkur fyrir hendur.

Þetta er hlutur sem á að vera auðvelt að laga. Auðvitað er ákveðið óhagræði af fámenninu en það er einnig okkar helsti styrkleiki sem við getum nýtt okkur betur en við gerum. Það er mikilvægt að við endurskipuleggjum starfsemi okkur á mörgum sviðum. Sérstaklega á þetta við um stjórnsýslu, menntamál og heilbrigðismál þar sem markmiðið er að einfalda skipulag, bæta þjónustu og auka skilvirkni sem leiðir af sjálfu sér til þess að framlegð þjóðfélagsins batnar. Í þessu sambandi má vel horfa til þess góða árangurs sem Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur náð á undanförnum misserum. Þar fara saman styrk stjórn, útsjónarsemi, leikgleði, samheldni og gagnkvæm virðing allra sem tengjast liðinu. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og er frábær eins og við öll þekkjum.

Ágætu áheyrendur. Rótarýklúbbur Seltjarnarness var stofnaður árið 1971 og hefur því verið hluti af samfélaginu á Nesinu í 45 ár. Rótarýhreyfingin var stofnuð í Bandaríkjunum fyrir rúmum 100 árum og byggir á þeirri hugmynd að skapa ólíkum starfsstéttum tækifæri til að hittast reglulega og kynnast. Þannig megi auka skilning og virðingu manna á millum þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og starfsvettvang og bæta þannig samfélagið. Fjórprófið sem við förum með í lok hvers fundar nær þessu vel: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?

Helstu verkefni klúbbsins okkar á Nesinu lúta að stuðningi við skóla- og félagsstarf barna og unglinga. Rótarýklúbburinn veitir viðurkenningu fyrir góðan árangur í námi og stendur fyrir árlegu sundmóti barna og unglinga. Við gefum ungu fólki kost á að verða skiptinemar erlendis á vegum Rótarýhreyfingarinnar. Þá hefur okkur verið mjög annt um verndun Gróttu og þeirra menningarverðmæta sem þar eru svo að eitthvað sé nefnt. Eitt af okkar síðustu verkefnum á þessu sviði er Kaldalónsskálin sem er viðurkenning til handa þeim nemanda í Tónlistarskóla Seltjarnarness sem skarar fram úr og er veitt þegar ástæða þykir til. Kaldalónsskálin var veitt í fyrsta skipti í þessari sömu messu á síðasta ári og var það Friðrik Guðmundsson píanóleikari sem hlaut skálina. Viðurkenning þessi er nefnd í minningu Selmu Kaldalóns tónskálds en hún var eiginkona fyrsta forseta Rótarýklúbbs Seltjarnarness, Jóns Gunnlaugssonar læknis og tók hún jafnframt virkan þátt í starfi klúbbsins.

Ágætu kirkjugestir ég hef komið víða við í máli mínu en vil að lokum þakka sr Bjarna og sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju fyrir það góða samstarf sem klúbburinn hefur átt um árabil við kirkjuna. Takk fyrir gott hljóð.

Gubrandur Sigurðsson Rótarýmessa í Seltjarnarneskirkju 17. júní 2016.