Ræða frá 16.04.2017 eftir Hjört Pálsson, páskadagsmorgun

 Guðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju   

16. apríl, páskadag, 2017, kl. 08.00.

 

Biðjum með séra Hallgrími Péturssyni:

         

 „Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.“

Gleðilega hátíð! Gleðilega páska!

Já, þeir eru komnir, runnin upp mesta hátíð kirkjuársins í kristnum heimi, „sigurhátíð sæl og blíð“ og við snemma risin úr rekkju til að fagna henni og íhuga merkingu hennar þegar:

 

„Í austri rís upp ársól skær,

  í austri sólin, Jesús kær,

  úr steinþró djúpri stígur...“

Á bakvið orðið páskar sem runnið er af hebreskum stofni og ratað hefur hingað norður til okkar eftir krókaleiðum, einnig  með viðkomu í sumum nágrannamálum okkar sem íslenskunni eru málfræðilega og menningarsögulega skyldust býr mikil saga sem átti sér djúpar rætur í hugarheimi hinna fornu hebrea og náði langt aftur fyrir upphaf kristni. Á þetta minni ég af því að það skerpir sýn okkar á samfellu menningar- og trúarbragðasögunnar og skilning á þætti trúarlífsins í vitund okkar. Í gyðingdómi voru og eru páskarnir - pesach - sem merkir „fara eða ganga framhjá“, „hlaupa yfir“ - trúarhátíð, tengd helgum minningum um gæsku Drottins og undursamlega náð hans og leiðsögn, þótt á öðrum forsendum væri en í kristnum sið. Hjá gyðingum er inntak hátíðarinnar gleði, þökk og lofgjörð    fyrir lífgjöf Drottins sem þyrmdi forfeðrum þeirra og formæðrum og frumburðum þeirra með framhjágöngu í aðdraganda flóttans frá  Egyptalandi og yfir Sefhafið og eyðimerkurgöngunnar til Kanaanslands forðum daga og  vernd hans í þeim atburðum öllum. Það er þess vegna deginum ljósara að okkar páskar þar sem upprisa Jesús Krists er í forgrunni eru sem hátíð runnir af eldri rót - og rótum ef lengra er seilst - en eiga það sameiginlegt með páskum gyðinga að vera haldnir í þakkar- og lofgjörðarskyni fyrir líf í stað dauða og fyrirheit sem rættust svo langt sem þau ná. Og kannski er enginn vitnisburður gildari eða marktækari um undur og sannleiksgildi upprisunnar, sem margir efast þó um af skiljanlegum ástæðum, en sú staðreynd hve fljótt margir sem voru gyðingar eins og hann gengu kristninni á hönd og áttu þannig þátt í þeirri hliðrun sem varð á  inntaki páskahátíðarinnar sem þeir höfðu áður alist upp við og hve fljótt kristnin breiddist út um heiminn. 

Með frásagnir ritningarinnar í huga má geta sér þess til  í hvernig hugarástandi lærisveinar Jesú og fólkið allt sem fylgdi honum og stóð honum næst var fyrsta páskamorguninn eftir upprisuna og atburði daganna á undan. Harmur og vonbrigði, ráðleysi og hik, ótti og óvissa hefur myrkvað hugi þeirra sem trúað höfðu Jesú og slegist í för með honum. Þegar hvíldardagurinn var liðinn og Maríurnar tvær fóru að vitja grafarinnar er eldaði af degi hefur þeim varla verið rótt. En svo gerast stórmerkin, hin miklu undur páskanna sem guðspjöllin og fleiri rit Nýja testamentisins taka sem ótvíræða staðreynd, þótt þau greini e.t.v. á um sumt sem minna máli skiptir, en bæta  þó jafnframt hvert annað upp. Konurnar sem hlotnaðist sá heiður að verða fyrstu upprisuvottarnir og óttuðust að hitta engan fyrir til að lyfta fyrir sig steininum frá grafarmunnanum mæta þar engli Drottins sem lægir ótta þeirra, segir meistara þeirra upprisinn og bendir þeim til Galíleu. Þar muni þær sjá hann. Á leiðinni mæta þær honum og hann biður þær að segja bræðrum sínum og systrum hið sama. Þær verða himinglaðar og ráða sér ekki fyrir fögnuði. Svo að segja á einni nóttu breytist allt. Upp er runninn fyrsti „kristni“ sunnudagurinn ef svo má að orði kveða, nýr sáttmáli tekinn við af gömlum í því afmarkaða samfélagi þar sem þetta gerist. Eftir það var aðeins einn Kristur, einir páskar hjá þeim sem trúðu og tóku undir fagnaðarerindi hans. Upprisa hans var ekki stakt tákn, heldur einstæður atburður, staðreynd sem alla varðar og hafði heimssögulegar afleiðingar. Broddur dauðans var brotinn og hvorki lengur á mannlegu valdi að innsigla neina gröf né neinn í sinni gröf um aldur og ævi.

Hverju skiptir þetta allt saman okkur sem hér sitjum, okkur sem nú lifum? Frá náttúrunnar hendi er lífshvötin okkur eðlisgróin og hvaða hugmyndir sem fólk kann að hafa um líf að loknu þessu,  eilíft líf eða ágæti þess, þá getum við ekki að því gert að velta öðru hverju fyrir okkur, hvað sé vanþekking eða blekking og hvað veruleiki í þeim heimi endalausra tilboða um allt milli himins og jarðar sem við skynjum. Og þótt nútímafólk virðist oft eiga erfitt með að trúa því að til sé líf eða ódauðleiki eftir jarðneskan dauðdaga og margt býsna kærulaust um trúarefni, þá sætta margir sig illa við endanleik dauðans. Margra þrá stendur til meiri lífsfyllingar og sálarþroska og betri heims en við þekkjum og þá láta þeir sig stundum dreyma um yfirskyggða dulheima þar sem leyndardómar skýrast, réttlæti ríkir og harmar sefast. Með nærveru sinni er Jesús Kristur von okkar. Með lífi sínu, starfi og krossdauða greiddi hann okkur götu til eilífs lífs, sleit fjötrana sem héldu fólki frá því. Hið sanna eðli þess birtist í eðli hans sjálfs og kærleika, því Guð í Kristi er kærleikur þar sem orð og athöfn eru eitt. Og við finnum hann, mætum honum í fyrirheiti upprisunnar, bæninni og í brauði og víni.

Kærleiki Guðs, leiðsögn og kærleiksboðskapur Jesú einskorðaðist hins vegar ekki við þann handanheim sem lifendur þekkja ekki af eigin raun. Sá kærleikur á að vera virkur í lífi okkar á þessari jarðarkringlu í hugsun okkar, dagfari og mótun samfélags sem í fullkomnustu mynd sinni svífur okkur fyrir sjónum í hugtakinu guðsríki á jörðu. Þegnskyldurnar við það  og kröfuna um að við sem teljast eigum kristin leggjum okkar af mörkum til þess að uppbygging þess ríkis verði meira en draumur einn eigum við að festa okkur í minni þegar við göngum frá borði Drottins út í ysinn og þysinn á markaðstorginu.

Á mestu hátíð kirkjuársins  á vel við að minna á þessa félagslegu kröfu um  rétt og þátttöku trúar og kirkju í mótun  þjóðfélagsins og þörfina á að hún haldi vöku sinni, því að henni er nú um stundir iðulega sótt, einatt með lítt grunduðum málflutningi og stundum af þeim sem síst skyldi. Það sést best bæði á anda og efni þess sem  um trú og kirkju birtist í fjölmiðlum og netheimum, í pólitískum umræðum, tillögum og hugmyndum um breytingar sem ýmist hafa verið gerðar eða komið hafa fram á sambandi ríkisvalds og sveitarfélaga við kirkjuna og fleiri trúfélög, gilda samninga og stjórnarskrárvarinn rétt Þjóðkirkjunnar sem er það trúfélag sem hlutfallslega flestir landsmenn aðhyllast. Engin furða þótt sérfróður og rökfastur klerkur og kennari með reynslu af mörgum skólastigum hafi nú nýverið bent á það í blaðagrein hver „hornreka“ trúfræðsla sé orðin í skólakerfinu. Og af því að nú er páskadagur og við þess vegna árla dags í morgunguðsþjónustu kemur mér í hug að kröfur sjást nú sem tilhneigingar gætir til að láta undan um að hætta helst að hringja kirkjuklukkum svo fólk geti sofið á sínu græna eyra - eða krafan afsökuð með því að ekki megi trufla fjölmenningarsamfélagið! Hvað verður þá um marglofaða fjölbreytni þess?

Stundum ber við, sé fólk spurt án fyrirvara, t.d. í spurningaþætti eða á förnum vegi, hver sé mesta hátíð kirkjuársins, að það svarar: „Jólin.“ Það er vel skiljanlegt, hvað þá ef börn eru spurð. Við köllum ekki jólin „hátíð barnanna“ að ástæðulausu.. Samt telst svarið ekki rétt samkvæmt trúfræðinni. Það eru „páskarnir“. Þótt fegurð og umgerð jólanna sé ofin utan um komu frelsarans í heiminn í mynd Jesúbarnsins, þá sætir barnsfæðing hvorki sömu tíðindum né hefur valdið viðlíka heilabrotum á heimsmælikvarða og einstæð útganga hans þaðan  í upprisunni á páskadagsmorgni sem hafin er yfir þekkt náttúrulögmál mannheims. Þess vegna eru páskarnir fremur hátíð fullorðinna.

Fyrir átta árum kom út bókin Vigdís sem Páll Valsson skráði um og eftir okkar ástsæla fyrrum forseta, Vigdísi Finnbogadóttur. Skrásetjarinn getur þess þar að með aldrinum hneigist hugur fólks æ meir að eilífðarmálunum , guðstrúnni í öllum sínum myndum. Um þetta efni hafi Vigdís mikið hugsað, en hugsi um trú með opnum huga eins og annað, loki engum leiðum, en meti boðskap hennar og erindi við sinn tíma. Minnir jafnframt á að hún sé komin af stranglúthersku fólki, hafi gengið í kaþólskan skóla og lengi búið í kaþólsku landi, þótt í kosningabaráttunni forðum hafi verið ýjað að trúleysi hennar. Síðan gefur hann henni orðið: 

„Mín trú og mitt mottó er eiginlega dregið saman í vísunni góðu: „Trúðu á tvennt í heimi, tign sem æðsta ber: Guð í alheimsgeimi, guð í sjálfum þér.“ Hinn innri guð sem býr í þér sjálfum skiptir mestu máli. Enginn kemst undan sjálfum  sér. Hver verður lengst með sjálfum sér að ganga. Séra Sigurbjörn sagði alltaf: Guð er til, en þú ræður sjálfur hvort þú tekur á móti honum. Þitt er valið. Kristur er minn maður. Kristindómurinn hefur umlukið svo sögu og menningu Vesturlanda, og þar með Íslands, að þekking á honum er bráðnauðsynleg til skilnings á okkur sjálfum, hvaðan við komum og hvernig. Hann er þráður til fortíðar sem má ekki slitna. En með árunum sér maður hvað sjálfur kjarninn í kristninni er mikilvægur sem sígildur siðaboðskapur og boðorðin eru þungamiðja okkar breytni. En í kristninni býr líka von. Það er mikilvægt. Sjálf er ég frekar páskamanneskja en jóla, þá eru píslir að baki og sólin rís. Ef til vill situr í mér viss jólastyggð frá stríðsárunum. Þá fór ég alltaf í kirkju með fjölskyldunni á aðfangadag og man enn eftir hermönnunum uppi á svölunum í Dómkirkjunni. Mér fannst þeir allir vera að gráta og fann til með þeim. En ég trúi á ljósið, þess vegna kveiki ég oft á kertum, fæ þannig styrk til að senda áfram til þeirra sem á þurfa að halda.“

Hér talar margreynd kona af hófsemd, íhygli og yfirvegun eins og við mátti búast og engu við það að bæta nema hvað hnykkja má á því að trúin á guð í sjálfum okkur sakar engan meðan sambandið við okkar persónulega Guð í alheimsgeimi sem æðsta ber tignina er órofið - og að siðaboðskapurinn má ekki byggja trúnni út. Hún á að glæða siðvitundina án þess að verða tóm skel, því grundvöllur trúar er trúin sjálf.

Vor og sumar er í nánd. „Ljósið loftin fyllir og loftin verða blá.“ Við það hlýtur hugurinn að staldra á þessum morgni að páskarnir eiga samleið með vorinu. Í flestum trúarbröghðum heims hafa fagnaðarhátíðir og vorblót til árs og friðar, sólar,  regns og góðrar uppskeru í ýmsum myndum tíðkast svo lengi sem vitað verður. Eftir vetrardvalann rís jörðin og náttúran öll úr dauðadái. Upprisa hennar og upprisa Krists fylgjast að og Guð nærir upprisuvonina með því að opna augu okkar og eyru fyrir landsins gagni og gæðum og dýrð og fegurð sköpunarverksins sem bendir frá dauða til lífs.

Vor og páskar eru líka hefðbundinn fermingartími og  þá rifjast upp tvennt sem ætti að vera kirkjunnar fólki umhugsunarefni og gefur færi á að brúa bil. Nú er með réttu oft á það minnst að börn og unglingar séu vegna þéttbýlisþróunar tæknibreytinga og nýrra þjóðfélagshátta að slitna úr tengslum við reynslu sem áður sameinaði unga og gamla til skilnings og skemmtunar. Við bætist að dofnandi áhugi og þátttaka í kirkjusókn og trúarlífi geri það sífellt meira framandi fyrir unglingana, samanber það sem stundum er sagt um þá, að eftir ferminguna sjáist þau ekki framar í kirkjunni, þótt auðvitað sé það ekki algilt.  Lengi hefur mér  þótt áhugavert að hugleiða samræmið milli uppbyggingar kirkjuársins og þeirrar hrynjandi atvinnulífs og árstíða, þjóðhátta og menningar sem ræður taktinum í lífi landsmanna.  Sömuleiðis er ljóst að sá verður seint kirkjuvanur sem aldrei kemur í kirkju og botnar ekkert í eðli og uppbyggingu messunnar sem er þó listaverk í sjálfu sér, að ekki sé minnst á þá list í myndum, tali og tónum  sem þar býðst. Væri nú ekki þjóðráð að freista þess að stórefla þann þátt fermingarfræðslunnar sem gerir börnin mun læsari en þau eru á þetta tvennt: samspil kirkjuársins og árstíðabundins takts í þjóðlífinu og táknmál kirkjunnar í guðsþjónustunni? Og gæti það ekki snert við hug og hjarta eins eða tveggja fermingarbarna að guða með þeim á glugga bókmenntanna, lesa t.d. með þeim Páskaliljur Hannesar Péturssonar? Það ljóð orti hann ungur og birti í annarri bók sinni, Í sumardölum, en breytti því nokkuð síðar. Trúarleg leit og skynjun er honum nærtæk þótt hann tjái hana í ljóðum sínum af líkri hógværð og páskaliljurnar sem hann biður að kenna sér hana. Benda mætti unglingunum á hvað felst í sviðsskiptunum milli ljóðhlutanna tveggja og að þótt höfundur nefni upprisu jarðar, en hvergi sé minnst berum orðum á upprisu Krists, grunar ljóðvanari lesanda að hún leynist þar einnig undir, a.m.k. í vitund skáldsins. Sýna mætti hvernig það tengir ólík skynsvið og skilningarvit með einstökum orðum af frumleik og skáldlegri leikni á myndrænan hátt út yfir náttúrleg mörk hins hins hlutbundna og huglæga. Vekja athygli á hvernig Hannes sameinar himin og jörð í sólum fæddum af mold, og að Kristur var stundum kenndur til moldar í fornum kvæðum og að maður og mold eiga skylt. Hvernig skáldið dregur fram birtubrigði vors og vetrar og kyndir undir hugrenningatengslum. Öðrum þræði gæti svo falist í kvæðinu mynd af hlutskipti skálds sem bíður ljóðs síns sem aftur krefur lesanda um athygli vilji hann njóta. Vegna páskanna leitar fundur samversku konunnar og Jesú við Jakobsbrunn á hugann, lifandi vatnið og lindin sem streymir fram til eilífs lífs. Og hvaða tími er þá betur við hæfi til að anga en sigurstund lífsins yfir dauðanum í sól páskamorgunsins?

Hannes Pétursson:

Páskaliljur 

I

Þið hringið inn upprisu jarðar, kólflausu klukkur

klukkur af gullnu silki, lifandi silki!

Of skærar augum manns, skammdegið var svo dimmt.

Þið skínið í garðinum, sólir fæddar af mold.

Blóm sem skínið, klukkur sem kólflausar hringið!

Klukkur sem syngið!

II

Kennið mér ykkar hógværð, blóm björt eins og sólin:

Á borði mínu standið þið dag eftir dag

með bikar fylltan ilmi sem enginn nemur

án þess hann komi til ykkar líkt og sá

sem krýpur að lind og slekkur þorsta sinn þar.

Kennið mér slíka hógværð. Þið hlustið og bíðið

þótt hratt ykkar stundir líði. Þeim einum sem vitja

ilms ykkar, lífs ykkar, takið þið tveimur höndum

því tíminn er kominn, hin rétta stund til að anga.