Tónleikar 6. maí kl. 17.00

Laugardaginn 6. maí 2017 kl. 17.00 heldur Kammerkór Seltjarnarneskirkju árlega vortónleika sína í Seltjarnarneskirkju.
 haust2016 Kammerkor
Aðalverkið á vortónleikum Kammerkórs Seltjarnarneskirkju er mótettan Jesu, meine Freude (BWV 227) eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750) sem er af mörgum talin vera fallegasta mótetta hans. Jesu, meine Freude (BWV 227) er mótetta fyrir fimm radda kór, tvær sópranraddir, alt, tenór og bassa. 
Texti mótettunnar fylgir sálmatexta skáldsins Johanns Franck frá árinu 1650, auk þess sem Bach fléttar þar inn í setningar úr Rómverjabréfi Páls postula. Allur boðskapur textans miðar að því að sætta manninn við dauðann og skýra hann sem nýtt upphaf fyrir hinn trúaða. Sálmalagið er eftir tónskáldið Johann Crueger og kom fyrst út á prenti árið 1653 í safni hans Praxis pietatis melica. Mótettan er hugsuð fyrir útför eða minningarathöfn og var samin eftir að Bach gerðist kantor í Leipzig. 
Auk þess mun kórinn flytja önnur íslensk og erlend trúarleg verk: Ég byrja reisu mín (ísl. þjóðlag, Hallgrímur Pétursson); Gegnum Jesú helgast hjarta (ísl. þjóðlag, Hallgrímur Pétursson); Hvíld (Hugi Guðmundsson, Snorri Hjartarson); Hver, sem að reisir (Bára Grímsdóttir, Einar Sigurðsson frá Eydölum); Laudate (Knut Nystedt, Sálmur 117); Peace I leave with you (Knut Nystedt, John 14:27); Psalmus CXX (Otto Oslon, Latneskur sálmur); Ave Maria (Franz Biebl (1906-2001) og  Unser Leben ist ein Schatten (Johann Bach).
Kammerkór Seltjarnarneskirkju er skipaður sönglærðu kórfólki. Sumir hafa lokið hefðbundnu söngnámi og koma oft fram sem einsöngvarar með kórnum. Á þessum tónleikum munu koma fram tólf einsöngvarar og þrír hljóðfæraleikarar leika undir. Stjórnandi Kammerkórsins er Friðrik Vignir Stefánsson, organisti Seltjarnarneskirkju.
 
Miðaverð 2000 kr. Miðar seldir við innganginn og hjá kórmeðlimum