Helgistund á gömlu kirkjustæði

[widgetkit id="1"]
Sunnudaginn 13. júní fór fram helgistund á gamla kirkjustæðinu við Nesstofu.
Fyrri hluti helgistundarinnar var úti þar sem kirkjurnar í Nesi við Seltjörn stóðu hver af annarri frá því á 12. öld og til ársins 1799. Á þessu ári eru 230 ár síðan síðasta kirkjan í Nesi var vígð, en það var árið 1785. Síðari hlutinn fór svo fram inni í Lyfjafræðisafninu. Sr. Bjarni minntist sérstaklega þeirra sem lagðir voru til hinstu hvílu í kirkjugarðinum við Nesstofu, en hann var í notkun fram á annan tug 19. aldar. Nefnd á vegum sóknarnefndar hefur lagt til að svæði sunnan við Nesstofu verði afmarkað fyrir nýjan kirkjugarð, en jafnframt hefur sóknarnefnd hug á að gera skrá yfir þá sem hvíla í hinum forna kirkjugarði. Þar voru jarðsettir auk Seltirninga sjómenn sem fórust við Gróttu eða nágrenni hennar. 
Alls voru það 75 manns sem tóku þátt í þessari helgiathöfn.

Sunnudagurinn 13. september

Athugið sitt hvor athöfnin á sama tíma á sitt hvorum staðnum!

Sunnudagaskóli í kirkjunni kl. 11

Pálína Magnúsdóttir, æskulýðsfulltrúi ásamt starfsfólki sunnudagaskólans
– kaffi og djús ásamt meðlæti.

Helgistund á hinu forna kirkjustæði við Nesstofu kl. 11

Sóknarprestur þjónar.
Organisti mætir með harmónikuna.
Ef veður verður óhagstætt flyst helgistundin inn í sal Lyfjafræðisafnsins.
Veitingar að hætti hússins.
Sjáumst hress og glöð á sögulegum stað, þar sem kirkja stóð í mörg hundruð ár!  

Tónleikar 12. september

Næstkomandi laugardag 12. sept. mun Kammerkór Seltjarnarneskirkju ásamt Birni Steinari Sólbergssyni orgelleikara og félögum úr Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flytja Dixit Dominus eftir A. Vivaldi og Stóru orgelmessuna í Es-dúr eftir J. Haydn Þessi verk eru mjög áheyrileg og full af gleði. 

Einsöngvarar eru sjö og koma alllir úr röðum kórfélaga. Stjórnandi er Friðrik Vignir Stefánsson organisti Seltjarnarneskirkju. 
Það er nýbreytni að halda tónleika í byrjun september því yfirleitt halda kórar sina tónleika á vorin sem er uppskeran eftir vetrarstarfið. Kammerkór Seltjarnarkirkju hefur starfað í 21 ár og hefur að markmiði að halda tvenna til þrenna tónleika á árinu, þar sem flutt eru annars vegar klassísk kórverk frá ýmsum tímum og hins vegar verk af léttara taginu eins og nýleg jólalög eftir íslensk tónskáld og hefðbundin jólalög.

Tónleikarnir hefjast kl. 17.00 í Seltjarnarneskirkju. Aðgangeyrir er 2000 kr. í forsölu og 2500 kr við inngang.

Allir velkomnir.