Heilsa og ræktun – frumkvöðlar í Nesi

 Fyrirlestur um eplatré og nytjajurtir í garði Björns apótekara

Yfirskrift sunnudagsins 5. maí í Seltjarnarneskirkju var: ,,Heilsa og ræktun – frumkvöðlar í Nesi, Bjarni Pálsson, landlæknir og Björn Jónsson, lyfsali. Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, sagnfræðingur, flutti áhugaverðan fyrirlestur í tilefni dagsins í Norðursal kirkjunnar kl. 10 fyrir hádegi. Heiti hans var: ,,Eplatré og nytjajurtir í garði Björns Jónssonar, apótekara í Nesi við Seltjörn.” Alls komu 25 manns á fyrirlesturinn og þökkum við Jóhönnu kærlega fyrir.

Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir, flutti hugleiðingu í guðsþjónustu 5. maí. Guðsþjónustan hófst kl. 11. Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir og verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, flutti hugleiðingu í guðsþjónustunni. Sunnudagaskóli var á sama tíma í kirkjunni. Kristín Einarsdóttir, formaður stjórnar Lyfjafræðisafnsins í Nesi og Vigdís Hallgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, lásu ritningarlestra. Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur, þjónaði í athöfninni ásamt Glúmi Gylfasyni, organista. Félagar úr Kammerkór kirkjunnar sungu.

Í fordyri kirkjunnar var sýning á myndum af lækningajurtum og tækjum og áhöldum til lyfjagerðar. Kaffiveitingar voru í boði Björnsbakarís. Við þökkum kærlega fyrir rausnarskap þess góða fyrirtækis.

Lyfjafræðisafnið í Nes var opið frá kl. 13-14 í tilefni dagsins. 

Lionsguðsþjónusta 28. apríl – höfðingleg gjöf

Sunnudaginn 28. apríl var guðsþjónusta og sunnudagaskóli í Seltjarnarneskirkju að venju kl. 11.

Lionsmenn tóku þátt í athöfninni. Ægir Ólason og Gunnar Pálsson lásu ritningarlestra. Örn Johnson las bænir og Guðjón Jónsson las lokabæn. 

Selkórinn söng í guðsþjónustunni undir stjórn Oliver Kentish. Organisti var Bjarni Þór Jónatansson.

Bragi Ólafsson,formaður Lionsklúbbs Seltjarnarness færði söfnuði Seltjarnarneskirkju 250 sálmabækur að gjöf, er Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar, tók við,  fyrir hönd safnaðarins.

Við þökkum innilega fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Um er að ræða nýjar sálmabækur sem eru sérmerktar nafni kirkju og gefenda. Guðmundur afhenti af þessu tilefni Braga þakkarskjal sem er undirritað af sóknarpresti og formanni sóknarnefndar. Lionsmenn buðu öllum viðstöddum að þiggja glæsilegar veitingar í safnaðarsal Seltjarnarneskirkju að athöfn lokinni. Hafi þeir bestu þakkir fyrir það.

Vel heppnuð safnaðarferð í Skagafjörð

 

Hún var vel heppnuð safnaðarferðin í Skagafjörð dagana 20.-21. apríl síðastliðinn. Rúmlega 30 manns fóru í ferðina.

Haldið var af stað frá Seltjarnarneskirkju kl. 9 á laugardagsmorgni. Hilmar Hilmarsson ók hópnum á lúxusrútu sinni. Hilmar er Skagfirðingur og var sláturhússtjóri á Sauðárkróki á árum áður. Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar sagði hópunum frá ýmsu er tengdist Borgarfirði.  Hópurinn áði í Staðarskála í Hrútafirði. Að því loknu var ekið í blíðskaparverði í Skagafjörðinn þar sem sr. María Ágústsdóttir sagði æsku sinni í firðinum.  Komið var við á Víðimýri og hin fagra torfkirkja skoðuð.