Eldri borgarar úr Grafarvogi í heimsókn

Eldri borgarar sem taka þátt í safnaðarstarfi Grafarvogskirkju komu í heimsókn í Seltjarnarneskirkju þriðjudaginn 6. mars kl. 11. Bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir fór um borð í rútu gestanna rétt fyrir kl. 11 við Vegamót á Nesvegi. Hún bauð gestina 58 velkomna á Seltjarnarnes og kom með hópnum í Seltjarnarneskirkju.

Bjarni Þór Bjarnason, settur sóknarprestur, bauð gestina velkomna ásamt fjölmörgum Seltirningum sem taka þátt í starfi eldri borgara á Nesinu. Eftir stutta helgistund ávarpaði bæjarstjóri viðstadda. Þá flutti Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar, erindi um Seltjarnarnes í sögu og samtíð. Jón Jónsson, heildsali og Seltirningur, söng við undirleik Friðriks Vignis Stefánssonar, organista. Var góður rómur gerður að söng Jóns. Stundinni í kirkjunni lauk með því að allir sungu Son Guðs ertu með sanni.


Fræðslumorgunn og æskulýðsdagurinn í Seltjarnarneskirkju 4. mars

Fjölmenni var á fræðslumorgni í Seltjarnarneskirkju kl. 9.45. Auðbjörg Reynisdóttir, hjúkrunarfræðingur,  hélt áhugaverðan fyrirlestur um gildi hláturs í lífinu. Hláturinn lengir lífið, það hafa rannsóknir leitt í ljós.

Fjölskyludguðsþjónusta í tilefni af æskulýðsdegi var haldin kl. 11. Fjölmenni sótti athöfnina. Sóknarprestur og Pálína Magnúsdóttir, æskulýðsfulltrúi stýrðu guðsþjónustunni ásamt starfsfólki sunnudagaskólans. Sveinn Bjarki sló gítarinn. Organisti kirkjunnar lék á flygilinn. Börn og fullorðnir tóku vel undir sönginn. Hjónin Örn Sigurðsson og Jelena kona hans léku tvö lög á strengjahljóðfæri ásamt þremur börnum sínum. Var það glæsilegt og eftirminnilegt fyrir alla. Tvær stúlkur úr sönghópnum Meistari Jakob í Valhúsaskóla sungu og léku tvö lög afar vel. Pálína talaði við börnin um Faðir vor og brúðuleikhús var líka á staðnum. Fermingarbörnin tóku virkan þátt í hreyfisöngvum í þessari athöfn sem jafnt ungir sem aldnir nutu á þessum æskulýðsdegi.

Í lokin var boðið upp á glæsilegar veitingar í safnaðarheimilinu. Björnsbakarí gaf ljúffengar vínabrauðslengjur. Egill Skallagrímsson gaf Kit kat súkkulaði og Góa Sinalco. Við þökkum þessum fyrirtækjum fyrir gjafirnar.   

Fræðslumorgunn og grannaguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju 26. febrúar

Fræðslumorgunn fór fram kl. 9.45-10.30 í kjallara Seltjarnarneskirkju. Valgeir Gestsson, fyrrverandi skólastjóri, sagði frá hjólaferð sinni og konu sinnar, Áslaugar Ármannsdóttur, frá Berlín til Kaupmannahafnar, á liðinu sumri, í máli og myndum.

Grannaguðsþjónusta var haldin í Seltjarnarneskirkju 26. febrúar síðastliðinn. Íbúar úr Eiðismýri, Suðurmýri, Tjarnarmýri, Grænumýri, Kolbeinsmýri, Tjarnarstíg og Tjarnarbóli tóku virkan þátt í guðsþjónustunni. Guðmundur Einarsson og Svana Helen Björnsdóttir lásu ritningarlestra. Guðmundur Snorrason las bænir og Hrafnhildur B. Sigurðardóttir las lokabæn. Arnþór Helgason kvað sjö erindi úr fyrsta passíusálminum í þessari útvarpsguðsþjónustu. Helga Svala Sigurðardóttir lék á þverflautu. Organisti kirkjunnar þjónaði ásamt Kammerkór kirkjunnar. Íbúar fyrrnefndra gatna buðu upp á glæsilegt kaffihlaðborð. Sunnudagaskólinn var á sama tíma í kirkjunni.