Hugvekja frá 05.05.2013 eftir Lilju Sigrún Jónsdóttur

Heilsa og ræktun – frumkvöðlar í Nesi
Bjarni Pálsson, landlæknir og Björn Jónsson, lyfsali

Við erum hér samankomin á degi tileinkuðum Bjarna Pálssyni, fyrsta læknis sem skipaður var landlæknir á Íslandi. Yfirskrift dagsins er Heilsa og ræktun – frumkvöðlar í Nesi.

Við undirbúning þessa dags þá ræddum við Bjarni Þór saman um biblíusöguna af Daníel og vinum hans í Babýlon. Daníel var í hópi sveina sem skyldu menntaðir til að þjóna í konungshöll Jójakíms Júdakonungs. Til að kostur sveinanna yrði góður þá bauð konungur að þeir fengju sama fæði og hann sjálfur, kjöt og vín. En Daníel baðst undan því og kaus heldur að nærast á kálmeti. Hirðstjórinn gerði athugasemdir við það en þá óskaði Daníel eftir að gerð yrði tilraun í 10 daga þar sem hluti hóps sveina fengi að borða af kosti konungs en hluti einungis kálmeti og vatn. Hirðstjórinn veitti þeim þessa bón og að tíu dögum liðnum reyndust þeir sem fengu kálmetið fegurri ásýndum og feitari á hold en allir sveinarnir sem átu við konungsborð. Eftir það lét tilsjónamaðurinn bera burt matinn og vínið sem þeim hafði verið ætlað og gaf þeim kálmeti.

Það eru merkilegar hliðstæður í frásögninni af Daníel og sögum af lífi Bjarna Pálssonar. Báðir voru þeir valdir af konungi til starfa, höfðu áhuga á heilbrigði og næringu og báru auk þess virðingu fyrir vísindalegri nálgun við sköpun þekkingar með tilraunum, í samræmi við þekkingu síns tíma.

En, fræðumst nánar um Bjarna Pálsson. Hann var fæddur þann 17.maí 1719, prestssonur og tólfta barn foreldra sinna. Frásagnir eru til af Bjarna ungum þar sem honum var lýst sem bráðgerum, bráðlyndum dreng sem vildi verða frægastur í hverjum leik. Dæmi um framtakssemi hans er frásögn af því þegar Bjarni vildi ungur læra að synda en enginn á hans heimaslóðum kunni þá list. Þá stíflaði hann læk í laut nærri heimilinu og batt 5 potta kút á brjóst sér til að haldast á floti. Eldri bróðir hans var með snærisvað á honum til vonar og vara og buslandi þannig með flotbúnað á sér tókst honum að fleyta sér.

Bjarni komst til náms við Hólaskóla og þar sóttist hann eftir að lesa læknisfræðibækur. Hann sýndi lækningum því snemma áhuga. Til Hafnar sigldi hann 1746 og þar las hann heimspeki, grasafræði og náttúrufræði í fyrstu en síðar læknisfræði og yfirsetukvennafræði.

Bjarni Pálsson lauk prófi í læknisfræði árið 1759. Konungur skipaði Bjarna landlæknir yfir Íslandi með erindisbréfi ári síðar. Hann var þá fyrsti læknir á Íslandi með háskólapróf í faginu og fékk það hlutverk að skipuleggja og byggja upp heilbrigðisþjónustu. Bjarni skyldi velja sér jörð til ábúðar og varð Nes við Seltjörn fyrir valinu.

Bjarni hóf störf 1760, fyrst á Bessastöðum en flutti 3 árum síðar í Nesstofu sem hafði þá verið byggð. Fyrstu starfsár landlæknis hafa verið annasöm. Þá var lagður grunnur að menntun fleiri læknar, menntun fyrstu ljósmæðranna og mikilvægum umbótaverkefnum með fræðslu og eftirliti á holdsveikraspítölum til dæmis. Bjarni fékk mikilvægan liðsmann 1772 þegar fyrsti lyfsalinn Björn Jónsson kom til starfa í Nesi.

Í sögulegu samhengi hefur Bjarna oft verið minnst með Eggert Ólafssyni ferðafélaga hans og vini en þeir lærðu saman í Höfn. Ferðabók Eggerts og Bjarna ber þeirra sameiginlegu verkefnum gott vitni og urðu þeir fyrstir til að skrásetja margt um staðhætti og búskaparhætti landsins. Bókin var í vinnslu í mörg ár og tilefni bréfaskrifta þeirra í milli.

Í bréfi frá Eggert Ólafssyni til Bjarna rituðu þann 1. desember 1763 fáum við innsýn í tilveru þessara manna og áhugasvið. Það barst Bjarna í Nes 4 mánuðum eftir að það var ritað. Eggert reifar í bréfi sínu margt er varðar ritstörfin og útgáfuna. Ennfremur óskaði Eggert Bjarna til hamingju með nýbyggða læknishúsið og óskar þess að það “standi sem steinabrú”. Honum hefur greinilega orðið að ósk sinni eins og sjá má nú 250 árum eftir byggingu hússins.

Eggert gefur rými í bréfinu fyrir góða skýrslu um uppskeru sýslumanns úr jarðeplagarðinum og eigin uppskeru af káli, næpum og blómkáli. Eggert hafði svo mikla uppskeru af mustarði að til þess var tekið. Þessi frásögn dregur svo vel fram sameiginlegan áhuga þeirra á ræktun nytjajurta og útbreiðslu kunnáttu á því sviði. Dvölin í Kaupmannahöfn hefur kynnt fyrir þeim nýjungar í mataræði og hafa þeir séð tækifærin í því fyrir landsmenn ef vel tækist til við uppbyggingu ræktunar.

Áherslur Bjarna með fræðslu um ræktun og næringu í starfi sínu birtust glöggt í einu af fyrstu embættisverkum hans þegar hann fór í sína fyrstu eftirlitsferð á holdsveikraspítalann að Kaldaðanesi um miðjan desember 1760. Þá hvatti hann stjórnendur spítalans til að rækta kálgarð og kartöflur og að ráða bót á vannæringu sjúklinga með því að gefa þeim að minnsta kosti tvisvar í viku kál og jurtir úr íslenskri náttúru (fjallagrös, skarfakál, hrafnaklukkur, njólablöð og ólafssúrur voru tilgreind).

Bjarni Pálsson var vel menntaður maður sem byggði sitt starf á þekkingu þess tíma. Hann var vakandi bæði fyrir því að nýta þær aðferðir sem bestar voru taldar á hverjum tíma og að fylgjast með árangri af lækningum sínum. Það er aðalsmerki hvers fræðimanns að taka í notkun nýja þekkingu þegar hún verður til og leggja af meðferðarúrræði sem úrelt teljast á hverjum tíma.

Öll getum við haft áhrif á heilsu okkar og líðan. Er það verkefni sem heilbrigðisstarfsmenn og í seinni tíð margar aðrar fagstéttir hafa komið að, með aukinni sérhæfingu fræðasviða. Það er síung áskorun að halda fræðslu lifandi um hlutverk okkar hvers og eins við að rækta eigin heilsu.
Þar kemur margt til –
Að sífellt fæðast nýjar kynslóðir sem þurfa að temja sér góða siði,
Mörgum er nú hætt við að fá of litla hreyfingu í daglegu lífi sínu
Þekking á heilbrigðum lífsstíl tekur sífellt breytingum

Það verður stundum misbrestur á að þekking sem er til staðar í dag nýtist til að bæta lýðheilsu í þessu landi. Þar dugar að nefna nýlegar rannsóknir sem sýndu fram á D vítamínskort hjá Íslendingum. Það leiddi til þess að nú fæst D-vítamínbætt mjólk í verslunum og foreldrum ráðlagt að gefa börnum sínum hana. Bara eitt lítið dæmi um það að þekking er ekki nóg ef aðgerðir fylgja ekki.

Það er áhyggjuefni hve ginnkeyptir sumir verða fyrir gylliboðum um skyndilausnir og fara jafnvel að taka inn bætiefni sem löngu hafa verið aflögð sem gagnslaus. Þar getur þekking á sögu heilbrigðisþjónustu og lækninga og fagleg upplýsingagjöf til almennings skipt miklu máli.

Ráð Bjarna Pálssonar um næringu sjúklinga sem birtust í erindisbréfi til holdsveikraspítalanna hafa staðist tímans tönn að flestu leyti. Og í frumkvöðlasetrinu Nesi við Seltjörn starfaði hann ásamt Birni Jónssyni um árabil. Þar lögðu þeir grunn að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og tilraunum í ræktun nytjajurta hér á landi svo að eftir var tekið. Slíkt gera men sem sjá stærri tilgang með tilveru sinni en að mæta eigin þörfum og hafa margir byggt á þeirra starfi og þjóðin notið góðs af verkum þeirra.

Ég þakka fyrir þessa stund og vona að þið eigið góðan dag.


Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir og verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis.