1. janúar

Birt í Orð til umhugsunar

Árið leið í aldanna skaut, örlagaár í lífi þjóðar. Nú er nýtt ár upp runnið. Og mörgum finnst sem nýir tímar blasi við.
Og þó er dagurinn í sjálfu sér líkur öðrum dögum og Ísland með sama svip og fyrr. Fjöllin eru á sínum stað, landið okkar góða og lífið í sínum skorðum. Það fæddust börn inn í þennan heim í nótt, börn sem horfa spyrjandi augum upp í ljósið og daginn. Fædd til ljóssins. Úr ljóssins heimi komin og til ljóssins heima stefnt, eins og öll börn í þessu landi, á vorri jörð.
Dagur rann úr skauti nætur með nýtt ártal, tvöþúsund og níu. Hvað merkir það? Það merkir að tvöþúsund og níu ár eru talin frá fæðingu frelsarans Jesú Krists! Hans sem sagði: „Ég er ljós heimsins!“ Og:„Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti og hinn lifandi.“ Í birtu hans er þetta nýja ártal skráð og við birtu hans fáum við að mæta því sem árið færir að höndum, sem einstaklingar og sem þjóð. (Karl Sigurbjörnsson, 2009)