Andlát

kross_svartSunnudaginn 15. janúar lést Erla Jónsdóttir lögfræðingur og sóknarnefndarmaður.  Hún fæddist 14. maí 1944 og var því 67 ára þegar hún lést.

Erla hóf virka þátttöku í starfi kirkjunnar á Seltjarnarnesi þegar hún var kosningastjóri sr. Solveigar Láru við prestskosningarnar árið 1986.  Hún starfaði við kirkjuna fyrst sem sjálfboðaliði í barnastarfinu, en var kjörin í sóknarnefnd árið 1990.  Hún varð ritari sóknarnefndar árið 1994 og kom það sér sannarlega vel að hafa lögfræðing með svo víðtæka reynslu sem hún hafði í því hlutverki. 

Hin síðari ár, eftir að verulega tók að þrengja að fjárhagi kirkjunnar vegna þess hve stjórnvöld tóku til sín vaxandi hluta sóknagjaldanna, sem eru aðaltekjustöfn trúfélaga í landinu, sýndi Erla mikla útsjónarsemi í því að finna leiðir til sparnaðar í starfi kirkjunnar, en mjög reynir á þegar þannig er málum komið, að draga úr kostnaði en verja samt mikilvægustu þætti þjónustunnar á sama tíma.

Erla átti við heilsuleysi að stríða, einkum síðustu mánuði.  Hún lét það þó ekki aftra sér frá því að sinna kirkjunni sem fyrr – sýndi þar ótrúlega ósérhlífni og dugnað.  Verður það seint fullþakkað.

Við vottum eftirlifandi eiginmanni Erlu, Jóni B. Hafsteinssyni, og fjölskyldu þeirra okkar innilegustu samúð.

Samkirkjuleg guðsþjónusta 22. janúar í Seltjarnarneskirkju

Samkirkjuleg guðsþjónusta í tilefni af alþjóðlegri bænaviku fyrir einingu
kristninnar var haldin í Seltjarnarneskirkju 22. janúar sl.

Prédikunflutti sr. Pétur Þorsteinsson, prestur í Óháða söfnuðinum. Sr. Arnþrúður Steinunn Björnsdóttir þjónaði ásamt sóknarpresti kirkjunnar. Ritningarlestra og bænir fluttu fulltrúar, Hvítasunnukirkjunnar, Aðventkirkjunnar, Vegarins, Kaþólsku kirkjunnar og Íslensku Kristskirkjunnar. Hljómsveitin Café Amen spilaði og söng ásamt félögum úr Kammerkór Seltjarnarneskirkju. Organisti var Friðrik Vignir Stefánsson.
Guðsþjónustunni var útvarpað.

Ársæll og Varðan í Messu

Á sunnudaginn 15. janúar var haldin fjölmenn guðsþjónusta með þátttöku félaga úr slysavarnadeildinni Vörðunni og björgunarsveitinni Ársæli. Fyrir utan kirkjuna var sýning á einni af bifreiðum Ársæls og björgunarbátnum Höllu Jónsdóttur. Í forkirkju voru myndir og munir frá báðum aðilum til sýnis.

Félagarnir Birna E. Óskarsdóttir og Hörður Kjartansson lásu ritningarlestra. Petrea Ingibjörg Jónsdóttir, stjórnarmaður Vörðunnar flutti stutta hugleiðingu ásamt Borgþóri Hjörvarssyni, formanni Ársæls. Erna Nielsen, Bára Jónsdóttir og Hörður Kjartansson lásu bænir.

Í lok guðsþjónustu afhenti Petrea Ingibjörg Jónsdóttir formanni sóknarnefndar, Guðmundi Einarssyni peningagjöf frá Vörðunni upp á kr. eitt hundrað þúsund krónur. Sóknarnefnd færir konunum í Vörðunni innilegustu þakkir fyrir höfðinglega gjöf. Þessir peningar munu koma sér vel vegna viðgerðar á snjóbræðslukerfinu sem er undir hlaði kirkjunnar. Er það sannarlega mikilvægt slysavarnarverkefni.

Konurnar í Vörðunni buðu síðan kirkjugestum upp á glæsilegt kaffihlaðborð að guðsþjónustu lokinni. Sóknarprestur og organisti þjónuðu í athöfninni ásamt félögum í Kammerkór kirkjunnar.