Hugvekja frá 14.12.2014 eftir Sólveigu Pálsdóttur

Hugvekja frá 14.12.2014 eftir Sólveigu Pálsdóttur sem flutt var á aðventukvöldi kirkjunnar.

 

Góðir kirkjugestir.

 

Hvers vegna erum við hér? 

 

Hvers vegna erum við hér samankomin í lítilli kirkju, í litlu bæjarfélagi, í litlu landi?

Við höfum eflaust öll okkar ástæður en mig grunar að mörgum þyki notalegt að koma hingað inn, skynja nándina í samfélagi kirkjunnar, finna fyrir samhug og kærleika og heyra uppbyggileg orð sem efla og styrkja hugann.

 

Það er nefnilega gott að finna sig sem hluta af samfélagi sem við þekkjum og þekkir okkur. Vera þar sem einn lætur sig annan varða, því þá erum við heima.

 

Er það kannski ástæða þess að við kjósum að búa á Íslandi þrátt fyrir að bjóðast mögulega betri kjör annars staðar? Þótt við gætum eytt ævinni með öðrum þjóðum og notið meiri fjölbreytni í mannlífi, meiri möguleika í vinnu og tómstundum, þyrftum ekki að eyða flestum vökustundum okkar í að reyna að borga fyrir steinsteypu og mat.

 

Ef betra líf býðst annars staðar – hvað erum við þá að gera hér? 

 

Einhverjir myndu vilja fara en geta það ekki en aðrir vilja vera hér á Íslandi því þá langar ekki að búa annars staðar m.a. kannski af þeim ástæðum sem ég taldi upp áðan. Nándin er nefnilega svo ríkur þáttur í okkar litla samfélagi og landið og menning þess órjúfanlegur hluti sjálfsins.

 

Undanfarin ár hafa verið okkur erfið. Það hefur hrikt í stoðum, við höfum upplifað svik, lygar, þjófnaði, órétt og nú er svo komið að vantraustið ræður ríkjum með tilheyrandi drunga og vanlíðan.

Mál er að linni, við verðum að fara að byggja okkur upp á ný. Mín tilfinning er sú að nú sé komið að kaflaskilum. 

   

Þann 30. desember 1887 hélt kona í fyrsta sinn opinberan fyrirlestur á Íslandi. Það gerði eldhuginn Bríet Bjarnhéðinsdóttir en hún hafði undirbúið þessa stund leynt og ljóst í mörg ár. Umræðuefnið var gríðarlega eldfimt og víst er að ekki kunnu allir henni þakkir fyrir framtakið. Og víst er að árum saman mátti hún sæta framkomu sem í dag myndi skilyrðislaust flokkast undir einelti. Það þótti ekki við hæfi að konur stigu á stokk og hefðu skoðanir, hvað þá jafn ögrandi hugmyndir og Bríet þótti hafa. Samt var hún aðeins að tala um grundvallarmannréttindi. Og jafnvíst er að þær glóðir sem Bríet kveikti þennan dag loga enn.

 

Um hvað var þá þessi frægi fyrirlestur sem fluttur var í Góðtemlarahúsinu 1887? Að sjálfsögðu var hann um réttindi kvenna eða öllu heldur skort á réttindum kvenna sem ekki einu sinni höfðu kosningarrétt á þessum tíma en 19. júní 2015 verða hundrað ár liðin síðan kosningaréttur kvenna var viðurkenndur þ.e. kvenna, eldri en fjörtíu ára. Sem betur fer hefur heimurinn breyst að mörgu leyti en enn er nokkuð í land. Ég las þennan fyrirlestur í fyrsta sinn fyrir stuttu og það vakti athygli mína hversu víðsýn Bríet hefur verið og vel að sér í nýjustu straumum evrópskar hugmyndafræði og hve vel hún tengir þekkingu sína eigin veruleika. Þessi kona sem þráði menntun öðru fremur en fékk aðeins ganga í skóla í einn vetur. 

 

Enginn einstaklingur hefur lagt jafn mikið af mörkum við að koma á lagalegu jafnrétti kvenna og karla hér á landi og Bríet Bjarnhéðinsdóttir en við skulum ekki gleyma að hún átti skoðanasystkin í hópi víðsýnna karla og kvenna sem skildu að tímarnir voru að breytast og tilgangslaust væri að berja höfðinu við steininn.  Ég gríp hér niður í aðra málsgrein þar sem Bríet segist knúin til að rjúfa þögnina og biður um umburðarlyndi samfélagsins gagnvart því sem hún hefur fram að færa. Hún stillir upp andstæðum og biðst undan hinu fyrra. Hún segir:

 

„ En það er til tvenns konar almennt álit: það álit, sem byggist á heimsku, hleypidómum, einstrengisskap, vanafestu, hlutdrægni og öfund, jafnvel illgirni, -- en undir það álit, sem er byggt á skynsemi, drengskap, óhlutdrægni og mannúð, og þeim dómi skal jeg fúslega hlíta, hvernig sem hann fellur“.

 

Skynsemi, drengskapur, óhlutdrægni og mannúð. Er það ekki einmitt þetta sem við þörfnumst helst í dag? Og þurfum við ekki jafnframt að losa okkur undan því sem Bríet frábiður sér; heimsku, hleypidómum, vanafestu, hlutdrægni, öfund ... já og jafnvel illgirni?

 

Einn stuðningsmanna Bríetar var langafi minn, Þórhallur Bjarnason biskup í Laufási í Reykjavík. Hann var kvenfrelsismaður líkt og kona hans Valgerður Jónsdóttir, móðir hans og börn.  Og hann var umbótamaður, víðsýnn og frjálslyndur í skoðunum. Þórhallur beitti sér fyrir framförum á mörgum sviðum, var brautryðjandi, en fyrst og fremst var hann maður umburðalyndis og mannúðar.

Eftir því sem ég sé fleiri gífuryrði viðhöfð á netinu, sögð á þinginu, hlusta eða horfi á fleiri þætti í fjölmiðlum þar sem fólk sýnir hvort öðru ekki lágmarksvirðingu, æpir jafnvel hvort á annað eða forðast vísvitandi staðreyndir til að slá ryki í augu fólks og vinna einhvern ímyndaðan sigur í stað þess að iðka málefnalega, lausnamiðaða umræðu hugsa ég oftar til þessara hugumstóru einstaklinga sem um þar síðustu aldamót áttu sér stóra og bjarta drauma um framtíð Íslands. 

Flest okkar lifum við miklu betri efnisleg gæði en þau gerðu en ég velti því fyrir mér hvort við séum nokkuð að missa sjónar af grundvallaratriðum eins og því að umgangast hvert annað af mannúð, sanngirni og virðingu.

Við erum öll Íslendingar. Okkur er annt hvoru um annað og um landið sem er heimili okkar. Það er ekki gott að búa þar sem ríkir drungi, rifrildi og illdeilur. Nei, við viljum að ágreiningur sé leystur með öðrum hætti, en með það að megin markmiði að sigra eða klekkja á þeim sem er ekki sömu skoðunar þú sjálfur. Vissulega greinir okkur á um hvaða leiðir eru farsælastar til hagsbóta en eitt getum við þó vonandi sammælst um og það er að: álit, sem byggist á heimsku, hleypidómum, einstrengisskap, vanafestu, hlutdrægni og öfund, jafnvel illgirni, svo ég vitni aftur til Bríetar, eflir ekki nokkurn mann. 

Við þurfum að lækna þetta mein og það gerum við með því að líta í eigin barm og vanda orð okkar og gerðir „Allt sem þér viljið að aðrir menn yður gjöri, það skuluð þér og þeim gjöra“. Við þurfum að byggja upp raunhæfa sjálfsmynd af okkur sem þjóð og öðlast heilbrigt sjálfstraust. Hvorki tala okkur niður né detta í dý ofdramsins. Mín trú er sú að tími heilunar sé að hefjast.

 

Ég ætla að ljúka þessum orðum með því að lesa orð Valgerðar Jónsdóttur, biskupsfrúar í Laufási sem lést aðeins 49 ára gömul árið 1913 eftir áralangt og gríðarlega kvalafullt stríð við brjóstakrabbamein. Þegar hún skrifar eftirfarandi texta hafði hún verið rúmliggjandi í fjögur ár. Orð hennar birtust í Nýju kirkjublaði skömmu eftir lát hennar og síðar í fagurri bók sem hún kallaði, Dagbókin mín, en allur ágóði rann „til styrktar konum sem stríða við sama mein og ég“ eins og hún orðaði það sjálf. Mig langar til að biðja ykkur um að setja orð hennar í stærra samhengi og hugsa um samfélagið allt, og ég ímynda mér að það hefði verið langömmu minni að skapi.

 

„Ef einhver hluti líkama þíns er veikur, þá getur það hjálpað þér stórmikið, að þú hugsir þér, að smáagnirnar, borgararnir, í þessum hluta séu í besta lagi og skynjandi og geti sjálfir hjálpað til að hrinda þessum sjúkdómi burtu, og fært í lag það sem ábótavant er. Hugsaðu þér þá sem persónur, talaðu við þá sem hvern annan mann sem þú værir að reyna að hjálpa, og hughreystu þá eins og þú getur. Með því að hugsa þannig, getur þú dregið heilsu og lífsafl í þann sýkta part. Þú verður að hugsa þér þennan part heilan, svo heilan að hann geti gegnt öllum störfum sínum. Þessari hugsun þinni fylgir áreiðanlega lífgandi og heilsugefandi afl, og þig mun fljótt undra, hve skjót áhrif hugsunin hefir. Það er hugsunin sem verkar svo mjög á allan líkamann: Farsæld og sorg, gleði, volæði, ást, hatur – það breiðist allt með hraða um líkamann.

Maður þarf að hafa fullt traust á sjálfum sér og Guði. Hugsanir geta breytt öllu lífi og lífskröftum mannsins. Þeir sem líta björtum augum á lífið, eldast seinna, lifa lengur. Að losa heilann við beiskju, hatur, öfund, en hafa kærleikann í hjartanu og sýna hann! Bæta, græða meinin þar sem hægt er! Láta af sér leiða gleði og ánægju í orði og verki! Hætta nuddinu og jaginu! Tala aldrei heiftarorð við neinn, því það er að saurga sinn eigin munn! Reiðin má aldrei ná yfirráðum yfir manni. Einlægt þarf maður að vita hvað sagt er og gjört er!

Dæmum ekki! Með sama dómi sem við dæmum, verðum við sjálfir dæmdir. Stingum hendinni í eigin barm! Það sem vér viljum að mennirnir gjöri oss, það eigum vér þeim að gjöra.“

Valgerður Jónsdóttir

Laufási

 

 

Ég óska okkur öllum gleðilegrar og kærleiksríkrar jólahátíðar.