ERINDI FRÁ FRÆÐSLUMORGNI 28. MARS 2021, SR. KARL SIGURBJÖRNSSON BISKUP

DYMBILVIKA    Seltjarnarneskirkja á pálmasunndag 2021

Ég þakka boðið að vera með ykkur hér á fræðslumorgni í Seltjarnarneskirkju og ræða við ykkur um Dymbilvikunasem nú gengur í garð, lokakafli sjövikna föstunnar, lönguföstu.

Kirkjuárið er byggt upp kringum söguna um Jesú, kirkjan skráði sögu hans inn í almanakið svo hrynjandi árstíðanna vitni um lífsferil og boðskap lausnarans.  Hefðir, tákn, textar, sálmar, tónlist og helgisiðir kirkjunnar tjá boðskapinn sístæða og gera manni kleyft að minnast Krists og mæta honum sem kemur enn á ný til kirkju sinnar og sérhverrar sálar sem á hann vonar. Hvergi er það skýrara en í dymbilviku. Í helgihaldi kirkna og klaustra, safnaða og trúarlífi einstaklinga hafa menn um aldir gengið þjáningarveginn með Kristi, skref fyrir skref frá Betaníu, ofan hlíðar Olíufjallsins, um borgarhliðin, í musterið, í  loftsalnum og þaðan í grasgarðinn, á dómstólinn og Hausaskeljastað, hvílt hugann við gröf Krists á laugardeginum og fagnað honum upprisnum á páskadagsmorgni. Passíusálmarnir hafa verið okkur Íslendingum einstakur vegvísir og leiðsögn í því ferli.

Sjövikna fasta eða langafasta er fjörutíu dagar frá öskudegi og lýkur að kvöldi laugardagsins fyrir páska. Það eru reyndar 46 dagar, en sex sunnudagar föstunnar teljast ekki með, vegna þess að sunnudagur er alltaf minning upprisu Krists og því var og er aldrei fastað á sunnudegi. 

Eins og þið vitið þá er litur föstunnar fjólublár, litur iðrunarinnar. Fjólublátt er blandaður litur, samsettur af bláu, sem er tákn trúmennsku og sannleika, svörtu sem er litur sorgar og rauðu sem er litur kærleikans. Litur föstudagsins langa er svartur og litur páskanna hvítur!

Fasta er mikilvægur þáttur í trúarlífi margra trúarbragða. Í huga Jesú er hún eins sjálfssögð og bænin. „Þegar þið fastið,“ segir hann, og eins: „Þegar þið biðjist fyrir…“ Það þarf ekki að gefa nein sérstök fyrirmæli um það. Að fasta er að láta á móti sér einkanlega í mat og drykk til að aga líkama sinn og sál og efla vitundina fyrir nærveru Guðs og þörfum annarra. 

 Í guðspjöllunum er talað um að Jesús hafi fastað í fjörutíu daga í eyðimörkinni áður en hann hóf boðunarstarf sitt. Fróðlegt er að hugleiða töluna fjörutíu í þessu sambandi. Hún er mikilvægt tákn í mörgum trúarbrögðum og táknar jafnan reynslutíma og og umbreytingaskeið og endurnýjunar sem leiðir til nýs upphafs.   Skyldi það vera tengt því að meðgöngutími konunnar er talinn fjörutíu vikur?  Orðið „quarantine“ sem við þýðum sem „sóttkví“ – og við þekkjum alltof vel um þessar mundir, það er latína og merkir fjörutíu, Rómverjar hinir fornu áskildu að skip skyldu vera fjörutíu daga í sóttkví ef sjúkdómur kom upp um borð. Talan fjörutíu kemur oft fyrir í Biblíunni. Í fjörutíu ár voru Ísraelsmenn í eyðimörkinni á leiðinni til fyrirheitna landsins. Syndaflóðið stóð í fjörutíu daga og fjörutíu nætur. Í fjörutíu daga var Jesús upprisinn í samskiptum við lærisveina sína frá páskadegi til uppstigningardags. Þeir dagar kallast frá fornu fari Gleðidagarnir. 

   Dymbilvika, kyrravika er stundum nefnd páskavika, sem er misskilningur, vegna þess að páskavika hefst með páskadegi. Í Réttrúnaðarkirkjunni kallast dymbilvikan gjarna Stóra vikan, eða Mikla vikan, því hún rúmar það sem hæst er og mest allra leyndardóma trúarinnar, á latínu kallast dymbilvika Vikan helga.

 Nafnið Dymbilvika, sem þekkist líka í norrænum tungumálum,  mun dregið af trékólfinum sem settur var í klukkurnar til að hljómur þeirra verði mattur og dimmur. Miðvikudagurinn í dymbilviku kallast á ensku SpyWednesday, sem mætti nefna Samsærisdaginn, sem vísar til þess er menn leituðu leiða til að handtaka Jesú.  Skírdagur og föstudagurinn langi kallast Bænadagarnir

Dymbilvika og páskar er eiginlega sögulegt drama, sem við skynjum er við göngum inn á sögusvið guðspjallanna.  Sögusviðið er  Jerúsalem árið 33, og við erum minnt á að trúin á sér grundvöll í sögulegum viðburðum í heiminum okkar sem valda vatnaskilum í gjörvallri sögu manns og heims. Í helgri iðkun kirkjunnar verða þessir atburðir samtíð sem við verðum þátttakendur í  trú. Helgihald dymbilviku er innlifun, tjáning sem birtist í atferli og búnaði helgidómsins. Tökum eftir því að ýmsir siðir sem tengjast dymbilviku og páskum eiga rætur að rekja allt til árdaga kristninnar í helgihaldi pílagrímanna sem minntust krossfestingar og upprisu Krists í Jerúsalem, allt frá hinum fyrstu páskum!

Pálmasunnudagur er dagur innreiðarinnar. Við sláumst í fylgd með fólkinu sem hópast að þar sem Jesús kemur, ríðandi á asna, afkvæmi áburðargrips. Við tökum undir hróp þess, fagnaðarsöng, breiðum klæði bæna okkar og tilbeiðslu á veginn, veifum pálmagreinum sálmanna.  Þessi sami texti er líka rifjaður upp á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Þá er yfirskriftin: Sjá konungur þinn kemur til þinn, og lofsöngvarnir hafa annan blæ en í dag, því þá er það umfram allt vonin sem ber uppi sönginn, eftirvæntingin. Nú er það fremur hryggðin yfir því sem eftir fylgdi þessa viku, dymbilviku. En söngur fólksins: Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! er sunginn í kirkjunni á hverjum sunnudegi þegar gengið er til altaris. Þá erum við að taka undir hyllingarhrópin í borgarhliðunum forðum og fögnum hinum upprisna Kristi sem kemur með friðinn sinn og náð, enn í dag og alla daga.  

Skírdagur sameinar mörg stef.  Nafnið tengist þvotti, hreinsun,  orðið að skíra merkir að þvo, hreinsa, sbr. skíra gull. Það tengist samt ekki skírn Jesú, – eins og fermingarbörnin svara oft þegar þau eru spurð hvað gerðist á Skírdag, „Þá var Jesús skírður,“ nei, það er fótaþvotturinn sem vísað er til, þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna.  Til að minna á fótaþvottinn var altari kirkjunnar þvegið til forna á skírdag. Sums staðar, sérstaklega í klaustrum og dómkirkjum tíðkast enn að þvo fætur fátækra og útigangsfólks í messu skírdagsins. Oft höfum við séð t.d. myndir af slíku frá Vatikaninu. En umfram allt snýst skírdagurinn um innsetning kvöldmáltíðarinnar, og svo bænaglímu Jesú í Getsemane og handtöku hans þar. Á ensku nefnist skírdagur Maundy Thursday sem er dregið af latneska orðinu, mandatum, sem merkir fyrirmæli, boð. Það vísar til orða Jesú á Skírdagskvöld: Gjörið þetta í mína minningu! Og Nýtt boðorð gef ég yður að þér elskið hvert annað.

       Skírdagskvöld er „nóttin sem hann svikinn var.“   Messan á skírdagskvöld er loftsalurinn. Við göngum í anda þar inn með Kristi og lærisveinum hans og leitumst við að heyra Drottin tala um þrána djúpu eftir að neyta páskamáltíðarinnar, og segja orðin stóru, máttugu: „Þetta er líkami minn… þetta er blóð hins nýja sáttmála… fyrir þig gefinn. Fyrir þig úthellt til fyrirgefningar syndanna.“

    Það er áhrifaríkur siður að afklæða altarið að lokinni messu á skírdagskvöld, svonefnd Getsemanestund. Ég kynntist þeim sið í Svíþjóð og tók hann upp í Hallgrímskirkju fyrir um fjörutíu árum. Það er áhrifarík innlifun. Eftir lokasálminn er lesin frásögn Markúsarguðspjalls af bæn Jesú í Getsemane. Síðan eru altarisljósin slökkt og ljósin í kirkjunni dempuð og hópur fólks gengur upp í kór. Lesinn er 22. Davíðssálmur og á meðan eru kertastjakar og bækur og aðrir munir altarisins teknir af því. Þegar lesið er vers Davíðssálmsins: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn, er altarisdúkurinn fjarlægður. Að síðustu gekk barn með fimm rauðar rósir, tákn sármerkja Krists, og þær voru settar á altarið. Á meðan  lesin lokaorð sálmsins: „En ég mun lifa honum, niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni og óbornum mun boðað réttlæti hans því að hann hefur framkvæmt það.“  Síðan eru munirnir bornir út og söfnuðurinn yfirgefur kirkjuna í þögn. Föstudaginn langa og fram á laugardaginn fyrir páska stendur altarið þannig afskrýtt prýði sinni sem tákn um niðurlæging Krists. 

     Föstudagurinn langi er ólíkur öllum öðrum dögum kirkjuársins. Það er dagurinn þegar Jesús  er krossfestur. Hann kallast Good Friday á ensku, Föstudagurinn góði, KarFreitag á þýsku, sem merkir sorgar eða hryggðar-föstudagur, föstudagurinn helgi, viernes santos á spænsku, parasceve  á latínu, og er reyndar grískt orð sem merkir aðfangadagur, þe. páska Gyðinga, sem hefjast kl. 18. á föstudeginum. Við lifum okkur inn í atburði dagsins og það er trúartjáning og jafnframt tjáning samstöðu með þeim sem þjást og líða. Jesús þjáist og deyr í okkar stað, tekur á sig harma og sorg og syndagjöld og dauða. Sorgin er borin uppi af von, af því að við minnumst þessara atburða í birtu upprisunnar. 

      Margir segjast eiga bernskuminningar um hve óendanlega langur og leiðinlegur þessi dagur var, þar sem ekkert mátti gera, ekki spila, ekki vera með nein ærsl. Ég man umfram allt eftir helginni sem tilheyrði þessum degi, að hann var öðru vísi en aðrir dagar. Það er gott fyrir sálina að vera minntur á að ekki eru allir dagar eins. Okkar kynslóð er í mun að breiða yfir það og fletja allt út í sömu síbyljunni og flatneskjunni, sem er ekki hollt fyrir sál og anda manns.  

    Á föstudaginn langa eru engin kertaljós tendruð í kirkjunni og engum klukkum hringt. Þetta er eini dagur kirkjuársins þar sem ekki er altarisganga, vegna þess að altarisgangan er samfundur við hinn upprisna, lifanda Drottinn.  Á föstudeginum langa íhugum við dauða Krists, að hann var raunverulega látinn. Það er umhugsunarvert að fegurstu listaverk mannkynsins í ljóðum, myndlist og tónlist tengjast atburðum föstudagsins langa. Ég nefni bara Bach, Passíur hans, já og Passíusálmana hér heima. Óviðjafnanleg listaverk. 

      Laugardagurinn fyrir páska, kallast hvíldardagurinn mikli. Það er dagurinn þegar Kristur hvílir í gröf sinni. Klukkan sex að kvöldi laugardagsins er páskahátíðin hringd inn í kirkjunum, hátíð allra hátíða, Sigurhátíð sæl og blíð

Ari Stefánsson hét meðhjálparinn í Hallgrímskirkju þegar ég var barn. Hann var úr Stöðvarfirði og kenndi föður mínum þjóðlagið sem nú er almennt sungið við lokavers Passíusálmanna, Dýrð, vald virðing. Hann sagði frá því að þegar síðasti Passíusálmurinn var lesinn eða sunginn laugardaginn fyrir páska á bernskuheimili hans, þá var lokaerindið þrítekið. Mér finnst það áhrifarík innsýn í trúarlíf íslenskrar alþýðu um aldir. Ein af mörgum. Ég lýk máli mínu með því að lesa loka vers sálmsins, þar sem Hallgrímur hugleiðir þar greftran Krists og segir: 

Svo finn´eg hæga hvíld í þér, 

hvíldu, Jesú, í brjósti mér. 

Innsigli Heilagur andi nú, 

með ást og trú, 

hjartað mitt, 

svo þar hvílist þú. 

 Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst, 

viska, makt, speki og lofgjörð stærst 

sé þér, ó, Jesú, Herra hár, 

og heiður klár. 

Amen. Amen um eilíf ár. Amen.  

Guð blessi okkur öll og gefi friðsæla og helga dymbilviku og gleðilega páska. 

DYMBILVIKA    Seltjarnarneskirkja á pálmasunndag 2021

Ég þakka boðið að vera með ykkur hér á fræðslumorgni í Seltjarnarneskirkju og ræða við ykkur um Dymbilvikunasem nú gengur í garð, lokakafli sjövikna föstunnar, lönguföstu.

Kirkjuárið er byggt upp kringum söguna um Jesú, kirkjan skráði sögu hans inn í almanakið svo hrynjandi árstíðanna vitni um lífsferil og boðskap lausnarans.  Hefðir, tákn, textar, sálmar, tónlist og helgisiðir kirkjunnar tjá boðskapinn sístæða og gera manni kleyft að minnast Krists og mæta honum sem kemur enn á ný til kirkju sinnar og sérhverrar sálar sem á hann vonar. Hvergi er það skýrara en í dymbilviku. Í helgihaldi kirkna og klaustra, safnaða og trúarlífi einstaklinga hafa menn um aldir gengið þjáningarveginn með Kristi, skref fyrir skref frá Betaníu, ofan hlíðar Olíufjallsins, um borgarhliðin, í musterið, í  loftsalnum og þaðan í grasgarðinn, á dómstólinn og Hausaskeljastað, hvílt hugann við gröf Krists á laugardeginum og fagnað honum upprisnum á páskadagsmorgni. Passíusálmarnir hafa verið okkur Íslendingum einstakur vegvísir og leiðsögn í því ferli.

Sjövikna fasta eða langafasta er fjörutíu dagar frá öskudegi og lýkur að kvöldi laugardagsins fyrir páska. Það eru reyndar 46 dagar, en sex sunnudagar föstunnar teljast ekki með, vegna þess að sunnudagur er alltaf minning upprisu Krists og því var og er aldrei fastað á sunnudegi. 

Eins og þið vitið þá er litur föstunnar fjólublár, litur iðrunarinnar. Fjólublátt er blandaður litur, samsettur af bláu, sem er tákn trúmennsku og sannleika, svörtu sem er litur sorgar og rauðu sem er litur kærleikans. Litur föstudagsins langa er svartur og litur páskanna hvítur!

Fasta er mikilvægur þáttur í trúarlífi margra trúarbragða. Í huga Jesú er hún eins sjálfssögð og bænin. „Þegar þið fastið,“ segir hann, og eins: „Þegar þið biðjist fyrir…“ Það þarf ekki að gefa nein sérstök fyrirmæli um það. Að fasta er að láta á móti sér einkanlega í mat og drykk til að aga líkama sinn og sál og efla vitundina fyrir nærveru Guðs og þörfum annarra. 

 Í guðspjöllunum er talað um að Jesús hafi fastað í fjörutíu daga í eyðimörkinni áður en hann hóf boðunarstarf sitt. Fróðlegt er að hugleiða töluna fjörutíu í þessu sambandi. Hún er mikilvægt tákn í mörgum trúarbrögðum og táknar jafnan reynslutíma og og umbreytingaskeið og endurnýjunar sem leiðir til nýs upphafs.   Skyldi það vera tengt því að meðgöngutími konunnar er talinn fjörutíu vikur?  Orðið „quarantine“ sem við þýðum sem „sóttkví“ – og við þekkjum alltof vel um þessar mundir, það er latína og merkir fjörutíu, Rómverjar hinir fornu áskildu að skip skyldu vera fjörutíu daga í sóttkví ef sjúkdómur kom upp um borð. Talan fjörutíu kemur oft fyrir í Biblíunni. Í fjörutíu ár voru Ísraelsmenn í eyðimörkinni á leiðinni til fyrirheitna landsins. Syndaflóðið stóð í fjörutíu daga og fjörutíu nætur. Í fjörutíu daga var Jesús upprisinn í samskiptum við lærisveina sína frá páskadegi til uppstigningardags. Þeir dagar kallast frá fornu fari Gleðidagarnir. 

   Dymbilvika, kyrravika er stundum nefnd páskavika, sem er misskilningur, vegna þess að páskavika hefst með páskadegi. Í Réttrúnaðarkirkjunni kallast dymbilvikan gjarna Stóra vikan, eða Mikla vikan, því hún rúmar það sem hæst er og mest allra leyndardóma trúarinnar, á latínu kallast dymbilvika Vikan helga.

 Nafnið Dymbilvika, sem þekkist líka í norrænum tungumálum,  mun dregið af trékólfinum sem settur var í klukkurnar til að hljómur þeirra verði mattur og dimmur. Miðvikudagurinn í dymbilviku kallast á ensku SpyWednesday, sem mætti nefna Samsærisdaginn, sem vísar til þess er menn leituðu leiða til að handtaka Jesú.  Skírdagur og föstudagurinn langi kallast Bænadagarnir

Dymbilvika og páskar er eiginlega sögulegt drama, sem við skynjum er við göngum inn á sögusvið guðspjallanna.  Sögusviðið er  Jerúsalem árið 33, og við erum minnt á að trúin á sér grundvöll í sögulegum viðburðum í heiminum okkar sem valda vatnaskilum í gjörvallri sögu manns og heims. Í helgri iðkun kirkjunnar verða þessir atburðir samtíð sem við verðum þátttakendur í  trú. Helgihald dymbilviku er innlifun, tjáning sem birtist í atferli og búnaði helgidómsins. Tökum eftir því að ýmsir siðir sem tengjast dymbilviku og páskum eiga rætur að rekja allt til árdaga kristninnar í helgihaldi pílagrímanna sem minntust krossfestingar og upprisu Krists í Jerúsalem, allt frá hinum fyrstu páskum!

Pálmasunnudagur er dagur innreiðarinnar. Við sláumst í fylgd með fólkinu sem hópast að þar sem Jesús kemur, ríðandi á asna, afkvæmi áburðargrips. Við tökum undir hróp þess, fagnaðarsöng, breiðum klæði bæna okkar og tilbeiðslu á veginn, veifum pálmagreinum sálmanna.  Þessi sami texti er líka rifjaður upp á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Þá er yfirskriftin: Sjá konungur þinn kemur til þinn, og lofsöngvarnir hafa annan blæ en í dag, því þá er það umfram allt vonin sem ber uppi sönginn, eftirvæntingin. Nú er það fremur hryggðin yfir því sem eftir fylgdi þessa viku, dymbilviku. En söngur fólksins: Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! er sunginn í kirkjunni á hverjum sunnudegi þegar gengið er til altaris. Þá erum við að taka undir hyllingarhrópin í borgarhliðunum forðum og fögnum hinum upprisna Kristi sem kemur með friðinn sinn og náð, enn í dag og alla daga.  

Skírdagur sameinar mörg stef.  Nafnið tengist þvotti, hreinsun,  orðið að skíra merkir að þvo, hreinsa, sbr. skíra gull. Það tengist samt ekki skírn Jesú, – eins og fermingarbörnin svara oft þegar þau eru spurð hvað gerðist á Skírdag, „Þá var Jesús skírður,“ nei, það er fótaþvotturinn sem vísað er til, þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna.  Til að minna á fótaþvottinn var altari kirkjunnar þvegið til forna á skírdag. Sums staðar, sérstaklega í klaustrum og dómkirkjum tíðkast enn að þvo fætur fátækra og útigangsfólks í messu skírdagsins. Oft höfum við séð t.d. myndir af slíku frá Vatikaninu. En umfram allt snýst skírdagurinn um innsetning kvöldmáltíðarinnar, og svo bænaglímu Jesú í Getsemane og handtöku hans þar. Á ensku nefnist skírdagur Maundy Thursday sem er dregið af latneska orðinu, mandatum, sem merkir fyrirmæli, boð. Það vísar til orða Jesú á Skírdagskvöld: Gjörið þetta í mína minningu! Og Nýtt boðorð gef ég yður að þér elskið hvert annað.

       Skírdagskvöld er „nóttin sem hann svikinn var.“   Messan á skírdagskvöld er loftsalurinn. Við göngum í anda þar inn með Kristi og lærisveinum hans og leitumst við að heyra Drottin tala um þrána djúpu eftir að neyta páskamáltíðarinnar, og segja orðin stóru, máttugu: „Þetta er líkami minn… þetta er blóð hins nýja sáttmála… fyrir þig gefinn. Fyrir þig úthellt til fyrirgefningar syndanna.“

    Það er áhrifaríkur siður að afklæða altarið að lokinni messu á skírdagskvöld, svonefnd Getsemanestund. Ég kynntist þeim sið í Svíþjóð og tók hann upp í Hallgrímskirkju fyrir um fjörutíu árum. Það er áhrifarík innlifun. Eftir lokasálminn er lesin frásögn Markúsarguðspjalls af bæn Jesú í Getsemane. Síðan eru altarisljósin slökkt og ljósin í kirkjunni dempuð og hópur fólks gengur upp í kór. Lesinn er 22. Davíðssálmur og á meðan eru kertastjakar og bækur og aðrir munir altarisins teknir af því. Þegar lesið er vers Davíðssálmsins: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn, er altarisdúkurinn fjarlægður. Að síðustu gekk barn með fimm rauðar rósir, tákn sármerkja Krists, og þær voru settar á altarið. Á meðan  lesin lokaorð sálmsins: „En ég mun lifa honum, niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni og óbornum mun boðað réttlæti hans því að hann hefur framkvæmt það.“  Síðan eru munirnir bornir út og söfnuðurinn yfirgefur kirkjuna í þögn. Föstudaginn langa og fram á laugardaginn fyrir páska stendur altarið þannig afskrýtt prýði sinni sem tákn um niðurlæging Krists. 

     Föstudagurinn langi er ólíkur öllum öðrum dögum kirkjuársins. Það er dagurinn þegar Jesús  er krossfestur. Hann kallast Good Friday á ensku, Föstudagurinn góði, KarFreitag á þýsku, sem merkir sorgar eða hryggðar-föstudagur, föstudagurinn helgi, viernes santos á spænsku, parasceve  á latínu, og er reyndar grískt orð sem merkir aðfangadagur, þe. páska Gyðinga, sem hefjast kl. 18. á föstudeginum. Við lifum okkur inn í atburði dagsins og það er trúartjáning og jafnframt tjáning samstöðu með þeim sem þjást og líða. Jesús þjáist og deyr í okkar stað, tekur á sig harma og sorg og syndagjöld og dauða. Sorgin er borin uppi af von, af því að við minnumst þessara atburða í birtu upprisunnar. 

      Margir segjast eiga bernskuminningar um hve óendanlega langur og leiðinlegur þessi dagur var, þar sem ekkert mátti gera, ekki spila, ekki vera með nein ærsl. Ég man umfram allt eftir helginni sem tilheyrði þessum degi, að hann var öðru vísi en aðrir dagar. Það er gott fyrir sálina að vera minntur á að ekki eru allir dagar eins. Okkar kynslóð er í mun að breiða yfir það og fletja allt út í sömu síbyljunni og flatneskjunni, sem er ekki hollt fyrir sál og anda manns.  

    Á föstudaginn langa eru engin kertaljós tendruð í kirkjunni og engum klukkum hringt. Þetta er eini dagur kirkjuársins þar sem ekki er altarisganga, vegna þess að altarisgangan er samfundur við hinn upprisna, lifanda Drottinn.  Á föstudeginum langa íhugum við dauða Krists, að hann var raunverulega látinn. Það er umhugsunarvert að fegurstu listaverk mannkynsins í ljóðum, myndlist og tónlist tengjast atburðum föstudagsins langa. Ég nefni bara Bach, Passíur hans, já og Passíusálmana hér heima. Óviðjafnanleg listaverk. 

      Laugardagurinn fyrir páska, kallast hvíldardagurinn mikli. Það er dagurinn þegar Kristur hvílir í gröf sinni. Klukkan sex að kvöldi laugardagsins er páskahátíðin hringd inn í kirkjunum, hátíð allra hátíða, Sigurhátíð sæl og blíð

Ari Stefánsson hét meðhjálparinn í Hallgrímskirkju þegar ég var barn. Hann var úr Stöðvarfirði og kenndi föður mínum þjóðlagið sem nú er almennt sungið við lokavers Passíusálmanna, Dýrð, vald virðing. Hann sagði frá því að þegar síðasti Passíusálmurinn var lesinn eða sunginn laugardaginn fyrir páska á bernskuheimili hans, þá var lokaerindið þrítekið. Mér finnst það áhrifarík innsýn í trúarlíf íslenskrar alþýðu um aldir. Ein af mörgum. Ég lýk máli mínu með því að lesa loka vers sálmsins, þar sem Hallgrímur hugleiðir þar greftran Krists og segir: 

Svo finn´eg hæga hvíld í þér, 

hvíldu, Jesú, í brjósti mér. 

Innsigli Heilagur andi nú, 

með ást og trú, 

hjartað mitt, 

svo þar hvílist þú. 

 Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst, 

viska, makt, speki og lofgjörð stærst 

sé þér, ó, Jesú, Herra hár, 

og heiður klár. 

Amen. Amen um eilíf ár. Amen.  

Guð blessi okkur öll og gefi friðsæla og helga dymbilviku og gleðilega páska. 

Skildu eftir svar